18.12.1973
Neðri deild: 46. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1582 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

94. mál, lyfjaframleiðsla

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér á dagskrá í Nd. á s. l. þingi, gerði ég grein fyrir sjónarmiðum mínum við 1. umr. þess máls, þar sem ég hreyfði margvíslegum aths. við þetta frv. En það frv., sem nú er lagt fram, er í öllum aðalatriðum mjög líkt því frv., sem þá var lagt fram. Með hliðsjón af því, að fram hafa komið aths. í Ed. gegn þessu frv., sem hafa hnigið í svipaða átt og aths. mínar gerðu á s. l. vetri, tel ég ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta frv. eða endurtaka sjónarmið mín, sem hér hafa komið fram, en almennt segja, að ég tel fulla ástæðu til þess, að ábendingar, sem fram hafa komið frá þeim aðilum, sem hafa sent umsagnir, séu skoðaðar af gaumgæfni, og ég sé enga knýjandi ástæðu til, að þetta mál fái neina sérstaka og skjóta afgreiðslu hér í þinginu.

Ég á bágt með að skilja, hversu áhugi hæstv. heilbrrh. er mikill á að fá þetta frv. samþykkt á þeim tíma, þegar almennt er talað um það meðal stjórnmálamanna og reyndar meðal þjóðarinnar, að nóg sé um ríkisútgjöld og kostnað af hálfu hins opinbera, þótt ekki sé verið að bæta þar enn á, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Samkv. fróðra manna áliti má gera ráð fyrir því, að ef þetta frv. verður að lögum, muni það kosta tugi, ef ekki hundruð millj. fyrir ríkissjóð, og ekki síst með hliðsjón af því, að sú starfsemi, sú framleiðsla, sem frv. gerir ráð fyrir, er nú í nokkuð góðum höndum og hana mætti laga innan núv. ramma, er enn minni ástæða til þess, að þetta frv. fái skjóta afgreiðslu eða sé endilega samþykkt að svo stöddu.

Ég ítreka það, að ég mun ekki fara hér út í efnislegar umr. eða gera einstakar aths., en ég álít, að það sé nauðsynlegt, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, skoði það frá öllum hliðum og átti sig á því, hvort ekki sé mögulegt að hrinda þeim málum í framkvæmd, sem gert er ráð fyrir, innan þeirrar löggjafar, sem nú er.

Þær aths., sem ég hef við þetta frv., fjalla fyrst og fremst um II. kafla frv., en ekki um I. kafla, sem ég tel vera eðlilegan og reyndar vera þannig, að hægt sé að samþykkja eða setja inn í núgildandi lög, án þess að þetta frv. sé samþykkt.