18.12.1973
Neðri deild: 47. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Frsm. (Garðar Sigurðsson) :

Herra forseti. Eins og hæstv. sjútvrh. sagði í ræðu sinni, er 1. brtt. hv. Ed. að nokkru leiðrétting, sem ekki kom í ljós fyrr en heldur seint. Á fundi sjútvn. Nd. þegar þessi atriði voru samþ. um svæði, sem markast af línu, sem dregin er réttvísandi suður úr Reykjanesaukavita að línu, sem hugsast dregin réttvísandi 240° frá Hafnarbergi, hafði einhvern veginn farist fyrir að nefna það, að togararnir yrðu að fara út fyrir 12 mílur á þessu litla svæði. Um það eru a- og b-liður í 1. brtt. frá Ed., og getum við vissulega fallist á það í sjútvn. Nd.

Síðan eru c- og d-liður einnig um þetta svæði. Þar er um breyt. að ræða frá Ed., sem er fólgin í því, að bátum milli 105 og 350 tonna er þarna ýtt út fyrir 6 mílur. Get ég fyrir mitt leyti fallist á það. Þetta er ekki stórvægileg breyt., þó heldur í þá átt að koma í veg fyrir árekstra á þessu viðkvæma svæði.

Þá komum við að 2. brtt. Hún er það, sem hefur verið deilt mest um í sambandi við meðferð þessa máls, hvort eigi að veita dragnótaheimildir í Faxaflóa. Ég var þeirrar skoðunar, að það gæti ekki gert mikið til, þótt nokkrir bátar, sem ekki mega vera stærri en 45 rúmlestir, fengju að koma þarna inn. Hér er um allra minnstu bátana að ræða. Þarna er ekki verið að hleypa inn neinum stórum fiskiflota, það eru örfáir litlir bátar undir 45 tonnum, sem eiga að fá að vera þarna, og áður en þeir fá að vera þarna, þurfa fiskifræðingar að mæla með því, og svo þarf ráðh. að veita heimild, þannig að það er tryggt, að þarna verður alls ekki um neina ofveiði eða rányrkju að ræða, þó að örfáir litlir bátar undir 45 tonnum fái að koma inn á þetta svæði um takmarkaðan tími á haustin. Ég var þessarar skoðunar og er sömu skoðunar enn, og ég get ekki fallist á þessa breyt. Ed. Þetta kemur auðvitað til atkv. eins og annað. Þingið á auðvitað að skera úr um það, og við það verða menn að sætta sig. Sem sagt er þarna ekki um neinar breyt. að ræða, sem máli skipti, nema um þessar dragnótaveiðiheimildir.