18.12.1973
Neðri deild: 47. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1587 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austf., Sverrir Hermannsson, gerði hér grein fyrir till., sem hann flytur til breyt. á 10. gr. frv. Till. nákvæmlega samhljóða var borin fram í hv. Ed. og felld þar. Ég mæli fyrir mitt leyti á móti þessari till. og tel að hún sé óeðlileg og óþörf og mundi líka verða til þess að fara að setja málið í flækju og kalla á fleiri breyt. Þessi brtt. felur það í sér, að upphaf 10. gr. verði breytt þannig, þar sem nú stendur: „Ráðh. er heimilt, að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar, að veita eftirgreindar veiðiheimildir í fiskveiðilögsögu,“ — að binda þetta við, að það skuli ekki aðeins vera umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar, heldur skuli einnig vera umsögn Fiskifélagsins. En frv. er allt byggt upp á því og kemur fyrir í mörgum greinum þess, að ætlast er til, að það sé skylda að leita til Hafrannsóknastofnunarinnar, til fiskifræðinganna. Þannig er þetta t. d. í 3. gr. frv. Þar segir: „enda komi til meðmæli Hafrannsóknastofnunarinnar.“ Í 5. gr. stendur: „að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar“ — og síðar í gr.:“ jafnan skal umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar liggja fyrir.“ Og í 6. gr.: „Leita skal álits Hafrannsóknastofnunarinnar“ — o. s. frv. Það var alveg skýrt markað sem stefna í frv., að það skyldi leita til Hafrannsóknastofnunarinnar. En ákvæði um að leita sérstaklega til Fiskifélagsins hefur í rauninni enga þýðingu og er óeðlilegt að fara að binda það í lögum. Vissulega getur ráðh, leitað til fleiri aðila, og kemur þá auðvitað ekkert síður til álita að leita til samtaka sjómanna og útgerðarmanna, þeirra samtaka, sem hafa nú meira að segja um þessi mál heldur en Fiskifélagið. Ég er því fyrir mitt leyti á móti því að gera þessa breyt., sé enga þörf á því, vegna þess að hún mundi skekkja uppbygginguna, sem er í frv.

Þetta mál kom fyrir í Ed., þar var till. flutt um þetta, og hún var felld þar. Ég sé ekki ástæðu til að fara að klúðra málið á neinn hátt út af till. eins og þessari. Því leggst ég fyrir mitt leyti á móti henni og endurtek þá skoðun mína, að affarasælast og eðlilegast sé að samþykkja nú frv. í þeim búningi, sem það er, þegar það kemur frá Ed., en fara ekki að þvæla því til Ed. aftur og síðan í Sþ., því að það gæti haft hinar verstu afleiðingar í sambandi við afgreiðslu málsins.