19.12.1973
Sameinað þing: 39. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1618 í B-deild Alþingistíðinda. (1483)

1. mál, fjárlög 1974

Frsm. samvn. samgm. (Björn Pálsson) :

Herra forseti. Ég mun segja hér örfá orð um till. samvn. samgm, um framlög til flóabáta og vöru- og fólksflutningu.

Við héldum þrjá fundi, yfirleitt mjög skemmtilega, því að það voru ákaflega ánægjulegir samstarfsmenn, sem voru í n., og það tókst nokkurn veginn að ná samkomulagi. Við reyndum að vera sparsamir, eins og við gátum. En ég hef nú fengið áminningu hjá bæði formanni fjvn. og fjmrh. um það, að mér færist ekki að tala um eyðslu hjá þeim, þegar ég væri svona eyðslusamur sjálfur í þessari n. En ég ræð ekki öllu í þessari n. og ekki meira en hinir, þannig að við eigum allir heiður eða vanheiður af þeim verkum.

En ég fór að líta á þetta samt sem áður, þessa hækkun hjá okkur og hækkun á fjárl. í heild. Í fyrra munu hafa verið dregin af bátunum 6% frá því, sem við veittum til þeirra. Þá voru veittar 33 millj. Satt að segja kom okkur saman um það í n., að það þyrfti að greiða þeim þessa upphæð, því að við vorum það knappir í fyrra, að það mátti ekki minna vera. Raunar var einn báturinn rekinn þannig, að það var ofurlítill tekjuefgangur, eða það voru líkur til þess, en hinir voru með halla, og það hefur alltaf verið þrengt þannig að þeim, að þeir hafa haft frekar þröngan fjárhag. Fjárhagurinn hefur verið erfiður hjá þeim. En það er nú svo, að ef skammtað er það vel. að ekki þurfi að leita neinna úrræða til bóta, þá vilja menu kannske vera dálítið ragir við það. Ástæðan fyrir því, að þetta gekk eins vel í ár og það gekk, var m. a. sú, að ég fór tvisvar í rn. og talaði um það við þá, að það væri ekki hægt annað en hækka fargjöldin og flutningsgjöldin. Viðkomandi ráðh., Hannibal Valdimarsson, féllst á það, og ég talaði líka við starfsmennina þarna. Þetta varð m. a. til þess, að farið aðra leiðina var hækkað t. d. með Akraborginni úr 215 kr. upp í 325 kr., og sömuleiðis var hækkað eitthvað við alla bátana, þó mun það hafa verið mest vegna fólksflutninga. Þetta varð til þess, að tekjur Akraborgarinnar urðu um þriðjungi meiri en ella og útkoman góð.

Við veittum til bátanna í fyrra 33 millj., eins og ég sagði. Af því var stofnframlag til báta og bíla 3.1 millj. kr., eitthvað um það bil, þannig að í fyrra hafa ekki farið til rekstrar á bílum og bátum meira en um 29 millj. Nú er heildarupphæðin 38 millj. 820 þús. Þar af er stofnframlag til snjóbíla og skipa rúmar 3 millj. og til rekstrarins 35 millj. 720 þús. Fyrir 4 árum var framlagið til þessara báta og bíla — og bílunum hefur fjölgað allmikið síðan — 19 millj. 355 þús. Þetta hefur því hækkað sem næst um 75%, að ég ætla. Ég bar þetta saman við t, d. Ríkisskip. Á fjárl. 1971 er framlag til þeirra ætlað 24 millj. eða 5 millj. kr. hærra en til bátanna, en nú er sú upphæð komin í 77 millj. á fjárl. Auk þess er skrifstofukostnaður eitthvað um 10 millj., þannig að það eru alls um 87 millj., sem fara til Skipaútgerðar ríkisins og rekstrar á þeim skipum, þannig að þessi upphæð hefur allt að því fjórfaldast þegar okkar upphæð hefur aðeins tvöfaldast. Þetta vildi ég láta Geir minn, formann fjvn., vita, að þeir hafa alveg snúið á okkur, og er ekkert nema gott um það að segja. Hins vegar kvað fjmrh. fastara að orði í fyrra, því að hann sagði, að við værum búnir að þrefalda útgjöldin, en þá fóru til rekstrar 29 millj., eins og ég sagði áðan, það voru 19 millj., og ég get ómögulega reiknað, að þetta sé þrefalt. Þið getið náttúrlega reiknað með mér. Mér reiknast, að þetta séu 50%, og ég skil það þannig, að 50% hækkun sé alls ekki þreföldun. Til þess að það sé þrefalt, ætti upphæðin að hafa hækkað um 200%. Þetta hefur vafalaust verið misminni hjá fjmrh., mér er ómögulegt að ætla honum að reikna þetta svona vitlaust. Hvað sem þessu líður, hefur þetta verið þannig í framkvæmdinni, að við höfum reynt að spara það, sem við höfum getað, og satt að segja jaðrar kannske við það í sumum tilfellum, að við göngum fulllengt í því efni.

Það eru veittar til Norðurlandsbátsins Drangs 6 millj. kr. Hann annast mjólkurflutninga til Siglufjarðar að vetrinum, kemur við í Ólafsfirði, Hrísey og fer tvisvar í mánuði til Grímseyjar. Þetta er alveg nauðsynlegt. Hann vildi fá 8.5 millj., en það var ekki samþykkt að láta hann hafa meira en þetta.

Veitt er til vetrarsamgangna í Árneshreppi á Ströndum, það var áður til Strandabátsins, en við létum þennan hrepp hafa 100 þús. kr. til snjómoksturs.

Svo eru veittar til Hríseyjarbáts, sem gengur frá Hrísey og til byggðanna við Eyjafjörðinn, 360 þús. kr. og í stofnkostnað 200 þús. kr.

Til flugferða til Grímseyjar eru veittar 350 þús. kr., til snjóbifreiðar í Dalvíkurlæknishéraði 150 þús., til Mjóafjarðarbáts 500 þús., snjóbifreiðar á Vopnafirði 150 þús., snjóbifreiðar á Fjarðarheiði 700 þús., þar er yfir erfiðan fjallveg að fara, og stofnkostnaður fyrir sama 500 þús. Þeir voru að kaupa bíl á Seyðisfirði, sem á að kosta 4 millj., og þóttust þurfa að fá aðstoð hjá ríkinu. Þarna er erfið aðstaða, en mjólkurflutningar oft, svo að við gátum ekki annað en orðið við þessu að mestu leyti hjá þeim.

Fagradalssnjóbifreið eru veittar 190 þús., og snjóbifreið á Oddsskarði, — það er fyrir Norðfirðinga — 550 þús. og í stofnkostnað 220 þús. Snjóbifreið á Fljótsdalshéraði 120 þús., og snjóbifreið á Borgarfjörð eystra 160 þús. Snjóbifreiðar milli Stöðvarfjarðar og Egilsstaðaflugvallar 150 þús. og til vöruflutninga á Suðurlandi 1500 þús. Þessum fjárveitingum réðu að mestu Austfjarðaþm. Helgi Seljan og Páll Þorsteinsson, og þeir voru afar hóflegir í kröfum. Páll flytur mál sitt vel og hefði sennilega verið afar vel hent að vera málflutningsmaður, og ég held, að það megi segja, að þeir hafi ráðið því, hversu mikið var veitt í þessa staði.

Til mjólkurflutninga til Vestmannaeyja eru veittar 920 þús. Ég ætla, að Guðjón taki það, en hann sér víst um Herjólf að mestu leyti, þannig að það léttir þá byrðarnar af honum.

H. f. Skallagrímur fær 7 millj. Svo er Mýrabátur með 30 þús. Til vetrarflutninga í Breiðvíkurhreppi 80 þús. Stykkishólmsbáturinn hefur einna erfiðastan fjárhag, hann skuldar um 24 millj. fyrir utan hlutafé. Hann var stækkaður og það söfnuðust töluverðar skuldir, en hann hefur allmiklu verkefni að gegna, gengur um Breiðafjörðinn og er mikils virði líka fyrir fólk, sem er að ferðast af Vestfjörðunum. Það fer oft með bílana yfir Breiðafjörðinn, þegar ófært er eftir Barðaströndinni, þannig að báturinn er ákaflega mikils virði fyrir stórt svæði. En tekjurnar eru ekki nógu miklar og svo hlóðust á hann skuldir, þegar hann var stækkaður og gerður þannig, að þeir gátu flutt bíla með honum. En þessar ferðir eru nauðsynlegar fyrir Breiðfirðinga og óhjákvæmilegar. Í sjálfu sér þyrfti ríkissjóður að hjálpa til að greiða niður þessar skuldir. Ég held, að það séu á vegum ríkisins um 7 millj. Það hefur heldur farið hækkandi, og væri miklu betra, að ríkisábyrgðasjóður borgaði það og væri ekkert að rukka bátinn um það, það væri einhvern veginn þurrkað út hljóðlega, fremur en að við séum að veita fé til að borga þessa skuld, því að það er þannig, að bátarnir eru að bera sig saman, og ef við þurfum að hækka við þennan bát, eða þeir, sem verða í samvn. samgm. í framtíðinni, þá fara hinir bátarnir fram á að fá eitthvað hliðstætt, þannig að það borgar sig að reyna að láta það ganga þannig. En það er afar þungt fyrir bátinn að borga vexti af þetta hárri upphæð.

Langeyjarnesbátur fær 180 þús. Hann aðstoðar á Breiðafirðinum líka. Snjóbifreið í Austur-Barðastrandarsýslu fær 100 þús. Til vetrarflutninga í Vestur-Barðastrandarsýslu 350 þús. Dýrafjarðarbátur fær 100 þús. Snjóbifreið á Botnsheiði 250 þús. Djúpbáturinn fær 5½ millj. og til mjólkurflutninga 100 þús. Við hækkuðum hann um eina millj. Aftur hækkuðum við ekki Breiðafjarðarbátinn nema um ½ millj. og Akraborgina um ½ millj. Norðurlandsbáturinn fékk nokkru meiri hækkun, vegna þess að hann hefur verið svo lágur undanfarið. Það má vera, að þetta sé heldur lítið fyrir Djúpbátinn, en hann hefur verið afburðavel rekinn undanfarið, og það varð til þess, að það var veitt heldur lægra til hans en t. d. til bátanna á Breiðafirði og í Faxaflóa. Hann var mjög skuldlítill. Aftur á móti skuldaði hann tryggingagjöld og eitthvað fleira, en þó er hann nú lang skuldminnstur af bátunum.

Sannleikurinn er sá með þessa báta, að það er ákaflega erfitt að fá nógu góða menn til að reka þá. Það eru ekki nógu mikil verkefni til þess að þeir geti haft viðunandi laun. Það er ákaflega mikið undir því komið, að það séu færir menn. Og það er þannig víðar í störfum, að það er ákaflega erfitt að fá vel hæfa menn, mikil eftirspurn er eftir vinnuafli.

Svo eru veittar til snjóbifreiðar í Þórshafnarhéraði 130 þús. og á Akureyri 150 þús. Til vetrarflutninga á Lónsheiði 200 þús. Snjóbifreið Axarfjörð-Kópasker 240 þús. Snjóbifreið á Hólmavík 150 þús. og stofnstyrkur 200 þús. Snjóbifreið í Hálshreppi í Suður-Þingeyjarsýslu 150 þús. Vetrarflutningar í Skarðshreppi í Dölum 70 þús. Vetrarsamgöngur í Reykhóla- og Gufudalshreppum 200 þús.

Við sáum okkur ekki annað fært en að veita styrk til þessara snjóbifreiða. Þeim hefur alltaf farið fjölgandi. En eins og þið vitið vantar víða lækna, og líf fólks getur riðið á því að geta komist undir læknishendur eða sækja lækni, þannig að það er ekki þægilegt að neita um aðstoð til að eiga snjóbifreiðar. Þeir, sem voru þm. fyrir viðkomandi kjördæmi, réðu mestu um framlögin, það var yfirleitt samkomulag um það nokkurn veginn, en annars reyndum við að halda eins sparlega á og við gátum. Má deila um, það hvort við höfum ekki verið fullsparsamir og verið það undanfarin ár, því að þetta er aðstoð við dreifbýlið, og getur skipt miklu máli, að möguleikar séu til að gera þetta.

Ég vil svo mælast til þess, að þessi 6% verði greidd til bátanna, sem voru dregin af þeim. Ég lít svo á, að þótt við samþ. þessa 15% heimild í fyrra, þá hafi það náð bara til framkvæmda, en þarna er um rekstur að ræða, sem ekki er hægt að minnka. Það er hægt að draga úr framkvæmdum við vegi í sumum tilfellum og eins við að byggja, en bátana þurfti að reka, og ég leit alltaf svo á, að þetta næði ekki til þeirra. Fjmrh. hefur sagt mér, að þeir hafi sætt sig við þetta og verið ánægðir. En þeir gerðu það ekki af því, að þeir vildu fá meira og þyrftu ekki meira, heldur á þeim grundvelli, að þeir héldu, að annars yrðu kannske tekin af þeim 15%. Álít ég, að þeir hafi ekki skilið þetta rétt, enda fórum við ekki það hátt í þetta í fyrra, og m. a, hefur hækkað miklu meira, eins og ég tók fram áðan, hjá Skipaútgerð ríkisins en hjá þessum bátum, það er tvöfalt meira. En þessir bátar eru alveg eins nauðsynlegir og snjóbifreiðarnar, það eru einmitt þeir, sem erfiðasta aðstöðu hafa, sem fá styrk í gegnum þetta kerfi.

Guðjón Teitsson skrifaði okkur eins og vanalega álit sitt um það, hvað hver bátur þyrfti og hvernig þeir væru reknir. Við fórum í gegnum þetta og tókum að vissu leyti dálítið tillit til hans till. líka. Þeir, sem kunnugastir voru, viðkomandi þm., réðu mestu um þetta. Hann skrifaði okkur einnig um væntanleg skipakaup Borgfirðinganna, og ég hef ofurlítið verið að kynna mér þau, ekki af því, að mér komi þetta meira við en hverjum öðrum þm., en það barst þó til okkar í samgn. frá Guðjóni, og ég hef verið að leita mér upplýsinga um það. Ég hringdi í Agnar Erlingsson, hann er við skipaskoðunina, og spurði hann um þetta. Hann sagði, að þetta væri skip, sem hefði verið innfjarða og að það yrði að loka því. Sömuleiðis talaði ég við skipstjóra, sem var að koma frá Noregi. Hann hafði heyrt talað um þetta skip við vesturströnd Noregs, og hann sagði mér, að þeir hlægju mikið að þessu, þetta skip væri ekki til annars en hafa það í járnarusl, það hefði alltaf reynst illa, væri orðið 7 ára gamalt og má ekki fara lengri vegalengd á sjó, sagði skipstjórinn mér, en 5 mílur. Það er ey, sem heitir Karmey, þarna fyrir utan fjörðinn, og það má ekki fara út fyrir hana. En mér skildist á Guðjóni, að það væri hægt að gera það haffært með því að loka því. Ég spurði hann ekki ítarlega út í það, hvað ætti að gera meira, en sennilega á að þyngja það og gera það stöðugra þannig. Svo spurði ég hann, af því að fjmrh. veitti okkur einhverjar upplýsinngar um, að það væri hægt að flytja sement í því, og hann sagði, að það væri ekki hægt. Ég álít, að ríkisstj. hafi ekki kynnt sér það ítarlega, að skipinu þyrfti að loka. Mér skilst, að það eigi að kosta 120 millj. og svo þurfi að gera meira eða minna við það. Það er ágætur maður í n., sem á að fjalla um þetta, Matthías Bjarnason, og ég vona, að hann fái lýsingu á skipinu hjá skipaskoðuninni og athugi þetta allt saman. Matthías hefur ágætlega vit á þessum hlutum, og ég vona þess vegna, að sú n., sem fæst við þetta, komi með áreiðanlegar niðurstöður.

Ég fékk hjá Guðjóni áætlun um þetta skip og hef farið yfir hana. Það er rétt, sem Jón Árnason segir, að ég er enginn sérfræðingur í byggingu skipa eða neinu slíku, það fer fjarri því, og ég er ekki að gefa mig út þannig, en Agnar Erlingsson sagði mér, þegar ég spurði, hvað reksturinn mundi kosta, að hann yrði frá 120–150 þús. á dag. Hann bað mig ekkert fyrir þetta, þetta er ekkert leyndarmál. Hann sagðist ekki hafa verið spurður um álit, hvort væri hyggilegt að kaupa það eða ekki, hann hefði ekki átt að gera neitt annað en segja, hvort það væri hægt að gera skipið haffært. En hann sagði mér, að það mundi kosta um 120–150 þús. á dag, og reiknum við með 150 þús., sem okkur er alveg óhætt, þá eru það 54 millj. á ári. Nú voru tekjur Akraborgarinnar um 16 millj. s. l. ár, og þá sá ég ekki, við vitum, að allt er að hækka, — annað en hallinn verði nálægt 38 millj., og það er ámóta og við veitum núna til allra flóabáta og til allra bíla. Nú má vera, að Akurnesingar ætli að borga þetta, en ekki ríkið. Svo fékk ég frá Guðjóni áætlun um þetta, og það er alveg kostulega vitlaus áætlun. M. a. ætla þeir að tryggja fyrir sama gjald, og ég var að athuga, að miðað við olíuhækkun mun olían vera áætluð helmingi lægri en hún verður. Svona hygg ég, að ótalmargt sé. Svo er skipið 7 ára gamalt. Hjörtur Hjartar, sem hefur fengist mikið við rekstur skipa, segir, að það borgi sig ekki að eiga þau, eftir að þau eru 12 ára, sagði, að þeirra reynsla væri sú, að það væri best að losa sig þá við þau. Þó gera þeir ekki ráð fyrir nema 7.2% í afskrift og miklu meiri tekjum en hafa verið af Akraborginni. Það má vera, að þær verði meiri, en það er ekki nokkur einasta trygging fyrir því. Þegar vegurinn batnar upp eftir, eru alveg eins miklar líkur til, að menn renni heldur eftir veginum hér suður eftir. Um þetta getur enginn fullyrt. En eins og málin liggja fyrir og eftir þeim upplýsingum, sem hann gaf mér, þessi ágæti maður hjá skipaskoðuninni — hann vissi, hver ég var, og það er ekkert leyndarmál, sem hann sagði mér, og ég veit, að hann kannast við það, — þá hlýtur þarna að vera um ævintýralegan halla að ræða, og ég er, miðað við stærð málsins, í vafa um, að ríkisstj. hafi nokkurn tíma gert meiri vitleysu en að ábyrgjast kaup þessa skips. Það er fjarri mér að vilja á nokkurn hátt bregða fæti fyrir það, sem á að verða Akurnesingum til ánægju í lífinu eða góðs, því að þegar menn eru komnir á minn aldur, vilja þeir öllum vel, og ég þekki satt að segja ekki nokkurn mann, sem mér er illa við, á Akranesi. Mér er ákaflega hlýtt til þm., en ég held, að þeir gætu ekki farið verr með sig en fara að kaupa þennan dall. Þeir verða álitnir eins og hver önnur hreinræktuð flón á eftir, og auk þess verða þeir síóánægðir yfir þessum mikla halla. Ekki yrði betur talað um það hér í þinginu og hjá samvn. samgm. í framtíðinni, ef hallinn yrði 38 millj., þannig að ég held, að þeir gætu ekki skapað sjálfum sér meiri óvirðingu en að fara að kaupa þetta skip. (Gripið fram í: Hefurðu séð mynd af því?) Menn lifa ekki á myndum og sigla ekki á myndum. Það er af einskærri umhyggju fyrir þessum ágætu þm. þessa ágæta kjördæmis, sem ég er nú að benda á þetta, en ekki að þetta snerti mig persónulega neitt. Mér fannst mér skylt að segja það, sem ég álít rétt í þessu máli. Svo er náttúrlega áhætta, ef þetta er dallur, — hann er ekki haffær núna, það er glöggt, — ef þetta er dallur, sem gæti kannske drepið 100–200 manns, ef væri margt á honum, það bætist ofan á allt saman. En um það skal ég ekki dæma. En þetta eru þær upplýsingar, sem ég hef fengið, og ég hygg, að þessar fréttir séu meira að segja komnar upp á Akranes, þannig að það muni kvissast út um þessi kostakaup, því að þeir hafa þetta víst í flimtingum á vesturströnd Noregs, og satt að segja má ríkisstj. ekki fleygja svona frá sér. Hún þarf að athuga hvað hún er að gera, þegar hún er að biðja um ábyrgð. Ég hef verið að hugsa um, að það væri ekkert vit fyrir svo stálgreinda menn eins og ráðh, okkar eru að standa í því að þrasa um það, hvort menn megi hækka um nokkrar prósentur við þetta eða þetta fyrirtæki og þennan eða þennan hlutinn. Þeir verða að hafa einhvern mann í slíku dútli, góðan í reikningi, og gefa sér tíma til að athuga, hvort það er eitthvert vit í því, þegar verið er að biðja þingið um að heimila ábyrgðir fyrir einhverja vitleysu. Ég vildi koma þessum upplýsingum á framfæri.

Svo vil ég þakka nm. fyrir gott samstarf. Þetta gekk allt ágætlega hjá okkur. Og ég veit það, að þegar frá líður verður vinur minn Jón Árnason þakklátur mér fyrir að hafa snapað saman þessar upplýsingar, enda vona ég, að þær verði honum til góðs. En það mega þeir ekki láta sér detta í hug, að ég beri kala til manna á Akranesi. Ég her fyrst og fremst ekki kala til nokkurs manns og allra síst til þessara ágætu manna enda hefur mér alltaf samið vel við Jón Árnason. Meira að segja morguninn eftir að við vorum að rabba saman um daginn, fór strax ágætlega með okkur. Hann hefur alltaf reynst mér prýðilega vel og einkum þegar hann var formaður fjvn.