19.12.1973
Sameinað þing: 39. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1625 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

1. mál, fjárlög 1974

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég hef nú þegar tekið til máls um þessi fjárlög bæði við 1. og 2. umr., þannig að ég þarf ekki að vera margorður við 3. umr.

Það, sem ég vil nú einkum segja, er að koma á framfæri ákveðinni brtt. við fjárl., þannig, að svofelld brtt, komi við brtt. á þskj. 286 frá fjvn., 47. tölul., að í stað þess, að skattvísitalan sé ákveðin 154 stig, komi 196 stig. Ég vil leyfa mér að leggja þessa till. fram og leita afbrigða fyrir henni.

Ég mun að sjálfsögðu fara nokkrum orðum um þessa till. og vísa þá fyrst í frv. til fjárl., eins og það var lagt fyrir við 1. umr., bls. 159 í grg. Þar segir, að hækkun vísitölu framfærslukostnaðar milli áranna 1972 og 1973 sé nú áætluð 19–20%. Í samræmi við þetta kemur fram, að skattvísitalan verði 154 stig, en það er 20% hækkun frá gildandi skattvísitölu á árinu 1973. M, ö. o.: stefnan virðist vera sú, að skattvísitalan taki mið af framfærslukostnaði. Nú hefur reynslan hins vegar orðið sú, að framfærsluvísitalan hefur ekki á þessu ári aukist um 19–20%, heldur um þriðjungi meira eða um allt að 30%, og hlýtur það að leiða af sér, að skattvísitalan sé í samræmi við það. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið hjá Hagstofu Íslands, nam framfærslukostnaður vísitölufjölskyldunnar, þ. e. hjóna með tvö börn, miðað við nóv. 1973 550 þús. kr. á ársgrundvelli. Inni í þeirri upphæð eru ekki skattar og húsnæðiskostnaður. Sé skattvísitölu breytt þannig, að fyrrgreind fjárhæð, þ. e. 550 þús. kr., sé jöfn persónufrádrætti hjóna með tvö börn, þarf skattvísitalan að hækka í 196 stig. Samkv. þeirri skattvísitölu yrðu persónufrádrættir og skattþrep þannig: hjón 431200, barn 58 800, einhleypingur 284 200. M. ö. o.: hjón með tvö börn hefðu þá persónufrádrátt að fjárhæð 548 800 kr.

Nú munu menn segja sem svo: Þetta er algert ábyrgðarleysi, að bera fram till. af þessu tagi og gera þá ekki grein fyrir því, hvar ríkið eigi að taka það, sem frá því er tekið. En ég svara á móti og segi: Það er algert ábyrgðarleysi að hafa svo mikla skattpíningu á fastlaunafólkinu í landinu, að það hafi varla til hnífs og skeiðar. Og ég hygg, að það væri athugandi fyrir ríkisstj. að miða fyrst og fremst við þarfir þjóðfélagsþegnanna og efnahag þeirra, áður en gengið er frá skattal. og jafnframt fjárlögum.

Nú skilst mér, að það hafi verið stefna a. m. k. Framsfl. og var eitt aðaládeiluefnið á tíma viðreisnarinnar, að skattvísitalan fylgdi ekki framfærslukostnaði. Nú er ágætt tækifæri fyrir hæstv. fjmrh. að halda fram stefnu Framsfl. og hafa skattvísitöluna í samræmi við framfærslukostnaðinn.

Ekki skal ég hafa fleiri orð um þessa brtt. Um þessi fjárlög í heild vil ég segja það, að þau eru framhald á því stjórnleysi, sem ríkir í efnahagsstefnunni, eða öllu heldur, það er engin efnahagsstefna, það er bara látið reka á reiðanum. Það er t. d. ákaflega eftirtektarvert, að það má gera ráð fyrir því, að vísitalan 1. mars hækki jafnvel um 10 kaupgjaldsvísitölustig, og þannig verður verðbólgan örari og örari, meira ógnvekjandi og ógnvekjandi, og ekkert virðist reynt að gera til að sporna gegn henni. Og það er ekki gerð nein grein fyrir því, hvernig á að mæta þeirri stórfelldu útgjaldaaukningu, sem hlýtur að verða á næsta ári, bæði á launasviðinu, tryggingasviðinu o. s. frv. Þetta er alveg óleyst mál, þannig að ef framfærslukostnaðurinn hefur aukist, eins og ætlað er, um 30%, þá er fyrirsjáanlegt, að hann mun aukast um allt að því 40–50% á næsta ári, ef svo fer fram sem horfir.

Ég hygg satt að segja, að það sé kominn tími til þess að reyna að líta á málin með kaldri rökhyggju og gera einhverjar ráðstafanir, jafnvel þó að þær verði óvinsælar. Ég held, að það sé ekki spurningin um það, heldur hitt, að það þarf að gera ráðstafanir til þess, að þetta haldi ekki svona áfram. Það gerist náttúrlega, að atvinnurekstur kemst bráðum í strand, og síðan kemur gengisfelling o. s. frv. Þetta þekkja allir þm., og það þýðir ekkert að vera að berja höfðinu við steininn og láta eins og allt sé í besta lagi.

Það vill nú svo vel til, að hæstv. fjmrh. er hér í þingsalnum, svo að ég ætla nú að leyfa mér að beina ákveðinni spurningu til hans. Í Alþýðublaðinu í dag er mikil grein, sem heitir: „Hengiflugið fram undan.“ Ég ætla ekki að spyrja hann, hvort það sé nokkur sannleikur í því, en það kemur fram, að efnahagssérfræðingur, sem starfar hjá Evrópudeild Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hefur komið til viðræðna við íslenska embættismenn um stjórnun efnahagsmála á Íslandi, og er þar nafngreindur form. n., Rolf Evensen. Og þar kemur fram, að þessir sérfræðingar hafa látið í ljós álit sitt á íslenskum efnahagsmálum, eins og þau standa í dag, og jafnframt hvaða tillögur eru helstar til úrbóta. Þetta er ófögur lýsing. Vaxtahækkanir, afnám vísitölubindingar launa, breyttar hlutaskiptareglur, niðurskurð framkvæmda og minni mannaflanotkun hins opinbera eru meðal till. þessara manna. Síðan eru teknar upp orðréttar klausur úr þessari leyniskýrslu. Ég skal ekkert segja um, hvaða fótur er fyrir þessu, en þegar slíku er slegið upp, hlýtur að vera fróðlegt að vita, hvað er hæft í því. Ég verð að játa, að sumt, sem er í þessu plaggi, virðist koma merkilega vel heim við ástandið í íslenskum efnahagsmálum. En meginatriðið er það, hvort hæstv. fjmrh. vildi ekki segja þingheimi frá því, hvort eitthvað sé hæft í þessu, og gera okkur þá einhverja grein fyrir efni þessarar skýrslu.