19.12.1973
Sameinað þing: 39. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

1. mál, fjárlög 1974

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Á þskj. 295 flyt ég ásamt hv. 2. landsk. þm., og hv. 5. þm. Norðurl. v. tvær brtt. við 4. gr. fjárlagafrv.

Fyrri brtt. er ekki stór í sniðum. Hún er einvörðungu um það, að veittar verði 500 þús. kr. til breytinga og endurbóta á húsnæði fyrir læknismóttöku í læknisbústaðnum á Hofsósi og enn fremur að búa móttökuna nauðsynlegustu lækningatækjum. Skortir mjög á, að þessi mál séu í því lagi, sem þau þyrftu að vera. Það urðu íbúum Hofsóshéraðs mikil vonbrigði fyrir nokkrum árum, þegar þeir misstu lækni sinn, og vonbrigði þessa fólks urðu raunar einnig mikil, þegar hv. Alþingi ákvað að leggja niður Hofsóshérað sem slíkt og sameina það Sauðárkrókshéraði, því að margir lifðu í þeirri von, að úr mundi rætast og læknir fást á Hofsós. En læknisþjónusta þar er nú innt af höndum með þeim hætti, að læknir frá Sauðárkróki fer þangað út eftir einu sinni í viku til að veita sjúklingum móttöku. En eins og ég sagði, skortir mjög á, að læknismóttakan sé í því horfi, sem hún þarf að vera, og þess vegna er það, sem við flytjum þessa litlu till. Ég er viss um, að það mundi draga úr vonbrigðum og sárindum þess fólks, sem þarna býr, ef það fengi þá lagfæringu á þessu máli, að læknirinn gæti með sómasamlegum hætti tekið á móti sjúklingum, sem til hans leita úr þessu gamla héraði, og hefði yfir að ráða hinum allra nauðsynlegustu lækningatækjum.

Hin till. varðar hafnargerð á Siglufirði, og er hún öll stærri í sniðum, því að við leggjum til, að upphæðin, sem er 3 millj. nú á fjárl., verði hækkuð í 15 millj. kr. Það er álit heimaaðila á Siglufirði, að gerð hafnarmannvirkis helst talað um stálþil, sunnan fiskiðjuvers Þormóðs ramma, sem hæstv. forsrh. var að minnast á, þurfi að haldast í hendur við gerð fiskiðjuversins sjálfs. Botnrannsóknir, sem framkvæmdar voru á þessu svæði hafnarinnar, leiddu í ljós skv. danskri úrvinnslu botnssýna, að gera má ráð fyrir sigi hafnarmannvirkis á þessum stað sem nemur 75–100 cm. Þessar rannsóknir leiða því ótvírætt í ljós, tæknilega séð, að sérstakan hátt þarf að hafa bæði um gerð hafnarmannvirkisins og tímaákvörðun byggingarframkvæmda með sérstöku tilliti til byggingar fiskiðjuversins. Það er álit bæjarverkfræðings á Siglufirði, að stálplötur þær, sem um hefur verið rætt og þarf að ramma niður, þurfi að vera mun þykkari og lengri en við venjulegar byggingaraðstæður, og að festingar þilsins þurfi að ná mun lengra á land upp, jafnvel að grunni fiskiðjuversins, og nauðsynlegt sé af þessum sökum að ramma niður stálþilið þegar á næsta sumri, sumarið 1974, og fylla að því, láta síðan hafnarmannvirkið bíða í 1–2 ár, en gert er ráð fyrir, að mestur hluti sigsins komi fram á því tímabili, áður en sjálf byggingarþekjan verður steypt. Þannig hafa þær verkfræðilegu athuganir, sem framkvæmdar voru í framhaldi af botnrannsókn væntanlegs hafnarmannvirkis, sýnt fram á nauðsyn þess, að hafnarframkvæmd þessi hefjist á næsta ári vegna fyrirhugaðra byggingarframkvæmda fiskiðjuvers Þormóðs ramma h/f og að framkvæmdaáætlun og tímaáætlun þessara framkvæmda þurfi að vera samræmd, ef stálþil verður fyrir valinu um gerð hafnarmannvirkis, en um það eru heimaaðilar á einu máli, og liggur fyrir einróma samþykkt bæjarstjórnar Siglufjarðar um það atriði.

Stækkandi fiskifloti Siglfirðinga, bæði skutskipa og smærri veiðiskipa, hefur gert óhjákvæmilegt að auka stórlega viðleguaðstöðu fiskiskipa í höfninni. Bygging fiskiðjuversins kallar og á nýja löndunaraðstöðu og þá umhverfisaðstöðu, sem þarf að vera til staðar, þar sem slík fiskiðjuver eru reist. Bygging stálþils sunnan fiskiðjuversins leysir að mati heimaaðila fullkomlega þessa þríþættu þörf varðandi viðleguaðstöðu, uppskipunaraðstöðu og umhverfi frystihússins, en aðrir valkostir um gerð hafnarmannvirkis ekki, heldur aðeins einn þessara þriggja þátta, þ. e. uppskipunaraðstöðu við frystihúsið. Verði stálþil fyrir valinu, sem heimaaðilar eru sammála um, þarf að framkvæma niðurrömmun þess sumarið 1974. Á fjárl. þess árs þarf því að vera fjárhæð, sem a. m. k. greiði verulegan hluta lögbundins kostnaðar ríkisins við þann áfanga. Sé hv. þm. og ríkisvaldinu alvara að gera þessar framkvæmdir báðar mögulegar og standa að þeim á hagkvæmasta hátt, þarf því að fylgja nauðsynleg fjárveiting á fjárl., sem nú er verið að afgreiða. Það er af þessum ástæðum, sem till. okkar þremenninganna er flutt Um þessa hækkun á fjárveitingu til hafnargerðar í Siglufirði.