19.12.1973
Sameinað þing: 39. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1631 í B-deild Alþingistíðinda. (1491)

1. mál, fjárlög 1974

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst vekja athygli á því, að það er fyrst við 3. umr. fjárl., sem gefið er yfirlit yfir væntanlegar tekjur ríkissjóðs. Það er fyrst við 3. umr., að hv. alþm. fá tækifæri til að fara yfir tekjuáætlun. Í raun og veru er þá fyrst hægt að gera sér grein fyrir, hverju þjóðarbúið hefur úr að spila til svokallaðrar samneyslu. Ég tel, að hér sé öfugt að farið, það sé fyrst og fremst þessi tekjuáætlun, sem þurfi að liggja fyrir við upphaf meðferðar fjárl. og ekki síðar en við 2. umr. Fyrsta ákvörðun við meðferð fjárlagafrv. á að byggjast á því, hvaða fjármunir eru í raun og veru til ráðstöfunar, með tilliti til þess, að skattabyrði almennings verði ekki of þung. Við getum haft mismunandi skoðanir á því hér á Alþ., hve miklum hluta þjóðarteknanna eða tekna einstaklinga skuli varið til opinberra þarfa eða svokallaðrar samneyslu. En ég held, að það fari ekki hjá því, að við þurfum fyrst og fremst að gera okkur grein fyrir því, hvaða ákvörðun við tökum að þessu leyti, hve mikil hlutdeild ríkisins og hins opinbera á að vera í heildarfjármunaeyðslu þjóðarbúsins.

Við sjálfstæðismenn höfum lagt á það áherslu, að sett yrði ákveðið þak á það hlutfall, sem hið opinbera gæti tekið af einstaklingum, fyrirtækjum og samtökum þeirra til sameiginlegra þarfa. Við teljum, að það sé ekki unnt að koma við sparnaði, aðgæslu og aðhaldi í meðferð opinherra fjármála, án þess að slíkt þak sé sett, slíkt hámark þeirra fjármuna, sem hið opinbera ætlar sér og þegnunum til samneyslu.

Önnur ákvörðun, sem við hljótum næst að taka, er að gera okkur grein fyrir því, hvort æskilegt sé að eyða þegar öllu því, sem hið opinbera tekur til sín frá einstaklingum, fyrirtækjum og atvinnuvegum. Það kann að vera svo háttað í þjóðfélaginu, að það sé æskilegra og eðlilegra, að hið opinbera leggi nokkra fjármuni til hliðar til þess að safna í sjóði, ef um spennu er að ræða í efnahagslífinu, og geyma, ef síðan koma þau ár, þegar nauðsynlegt er að örva efnahagslífið.

Þegar þessar tvær ákvarðanir hafa verið teknar, liggur fyrst fyrir sú heildarupphæð, sem við höfum til ráðstöfunar til margvíslegra þarfa einstaklinga, atvinnuvega og margvíslegrar samneyslu. Þá fyrst kemur til að greina sundur gjöldin milli einstakra málefnaþátta og innan hvers málefnaþáttar, milli rekstrar og þjónustu annars vegar og hins vegar fjárfestingar og framkvæmda.

Ég held, að það fari ekki á milli mála, að bæði meðferð þessa fjárlagafrv. og efnisinnihald þess brjóti í bága við allar viðurkenndar reglur stjórnar efnahagsmála, Hér er ekki neitt, sem heitir samræmd heildarstjórn efnahagsmála. Það hefur skort slíka heildarstjórn hér á landi, meðan vinstri stjórnin hefur verið við völd. Hér er t. d. ekki í fyrsta lagi tekin afstaða til þess, hve mikilvægur er hagstæður viðskiptajöfnuður við útlönd. Fjárlagafrv. það, sem við höfum nú til meðferðar, byggir í raun og veru tekjuáætlun sína á því, að viðskiptajöfnuðurinn við útlönd verði óhagstæður um 4200–4400 millj. kr. Áætlanir um toll- og söluskattstekjur eru beinlínis við það miðaðar, að þessi halli verði á viðskiptajöfnuðinum við útlönd. Hér er vitaskuld um óhæfileg vinnubrögð að ræða, ekki síst í því árferði, sem við eigum nú við að búa, þar sem viðskiptakjör við útlönd eru okkur hagstæð og eftirspurn eftir vinnuafli innanlands meiri en framboð.

Í öðru lagi byggir þetta fjárlagafrv. í besta lagi á því, að greiðslujöfnuður náist og gjaldeyrisvarasjóðurinn haldist sá sami í krónutölu, en þó aðeins með því að auka erlendar skuldir a. m. k. um jafnháa upphæð og viðskiptahallinn við útlönd nemur. Greiðslujöfnuðurinn á yfirstandandi ári er talinn verða 1000 millj. kr., og á það er stundum bent af stjórnarliðum. En af litlu er að státa, þegar tekið er tillit til þess, að gjafafé vegna Vestmannaeyjagossins nemur 1800–2000 millj. kr., auk þess sem erlendar skuldir hafa hækkað um 3000–4000 millj. kr. Hér er í raun og veru um halla á greiðslujöfnuði við útlönd að ræða og stórkostlega erlenda skuldasöfnun.

Í þriðja lagi skyldi maður ætla, að það væri markmið við stjórn efnahagsmála, eins og nú standa sakir, að ríkisbúskapurinn væri rekinn með myndarlegum greiðsluafgangi og tekjur væru mun hærri en gjöld. En sannleikurinn er sá samkv. þessu fjárlagafrv., að gjöld eru hærri en tekjur, og því aðeins næst óverulegur greiðsluafgangur, að lánahreyfingar koma þar til hjálpar. Um leið og fjárl. hækka frá síðasta ári um 40%, vantar samt sem áður 850–900 millj. kr. aðeins í þær niðurgreiðslur og fjölskyldubætur, sem nauðsynlegar eru til að halda núverandi niðurgreiðslustigi og upphæð fjölskyldubóta. Þá eru meiri og fleiri brögð að því í þessu fjárlagafrv. en nokkurn tíma áður, að ýmiss konar heimildir eru settar inn í fjárlagafrv., þannig að stjórnvöldum er opnuð leið til þess að eyða meiru en fjárlög segja fyrir um, en heimildir þessar hafa ekki áhrif á niðurstöðutölur fjárlagafrv. og væntanlegra fjárlaga, og því er hækkun fjárl. sennilega meiri í raun en nemur þeirri 40% hækkun, sem ég gat um áðan. Ég hef hér ekki tekið fram, sem þó er rétt að gera, að framkvæmdaáætlunin gerir ráð fyrir lántökum bæði innanlands og erlendis umfram það, sem tíðkast hefur jafnvel áður undir stjórn núv. stjórnar, sem hefur brotið blað í því að auka lántökur, bæði innanlands og erlendis, til ýmiss konar framkvæmda.

Í fjórða lagi bera fjárl. ekki vitni þess, að hið opinbera hafi neinn áhuga á því að hafa yfirsýn yfir stjórn peningamálanna. Það hefur verið nefnt, að aukning hafi orðið á sparifjársöfnun á yfirstandandi ári, sem á sér eðlilegar ástæður í aukningu tekna í krónutölu, en þess er sjaldnast getið, að útlánaaukningin er enn meiri, ekki síst vegna þrýstings frá hinu opinbera, bæði ríki og ríkisfyrirtækjum, sem mörg hver eru rekin með halla í bili, og svo frá atvinnuvegunum og ýmsum einkafyrirtækjum, sem verða að búa við versnandi afkomu.

Allt þetta, sem ég hef hér nefnt: viðskiptajöfnuður óhagstæður, greiðslujöfnuður ónógur og ríkisbúskapurinn rekinn undir þensluáhrifum og stjórn peningamála ekki sinnt, — allt þetta verður til þess að auka peningamagnið í umferð og eftirspurnina innanlands, til þess að auka dýrtíðina. Þessi fjárlög verða því verðbólgufjárlög, óðaverðbólgufjárlög.

Hv. 2, þm. Vestf., frsm. 1. minni hl. fjvn., hefur gert glögga grein fyrir því, hvað vantalið er í fjárlagafrv., að því er snertir fjölskyldubætur og niðurgreiðslur, sem samtals mun nema um 850–900 millj. kr. Afleiðing þessa, að þær niðurgreiðslur og upphæðir til fjölskyldubóta eru ekki í þessu fjárlagafrv., sem og boðuð hækkun á áfengi og tóbaki, gerir það að verkum, að kaupgjaldsvísitalan og framfærsluvísitalan munu væntanlega hækka um nær 6 stig eða kaupgjaldskostnaður atvinnuveganna hækka um 4% af þessum sökum einum saman, og eru þá ekki tekin með áhrif af hækkun afnotagjalda sjónvarps og hljóðvarps um 40–50%, er mun valda um 0.6 kaupgjaldsvísitölustigum til viðbótar. Ég vildi í þessu sambandi spyrja hæstv. fjmrh. að því, að hve miklu leyti hækkanir á afnotagjöldum eða þjónustu annarra ríkisfyrirtækja eru ráðgerðar, hverjar þær hækkanir eru og hvaða áhrif þær muni hafa á vísitöluna eða hækkun hennar. Í því sambandi má sérstaklega nefna, að stjórnardeildir munu nú benda á milli sín vandamáli eins og því, hvernig afla skuli Rafmagnsveitum ríkisins 350 millj. kr., sem Rafmagnsveiturnar vanhagar um á næsta ári, og verður það væntanlega ekki gert nema alla vega að nokkru leyti með hækkun rafmagnstaxta. Rafmagnsveitur ríkisins eru allsendis ómegnugar að gegna því þjónustuhlutverki, sem þeim er ætlað að gegna, eins og sést best á ástandi síðustu daga og vikna í orkumálum víðs vegar á landsbyggðinni, þótt að vísu sé einnig um óvenjulegar veðurfarsástæður að ræða.

Ég bendi á það, að fjárl., eins og þau verða nú úr garði gerð, munu beinlínis hafa þau áhrif að hækka framfærsluvísitöluna um 4–5%, en þar að auki er fyrirsjáanlegt, að framfærsluvísitalan og þar af leiðandi kaupgjaldsvísitalan mun hækka 1. febrúar n. k. um líklega 10% auk þessa að fróðustu manna yfirsýn. Samtals er hér um að ræða hækkun á vísitölunni á þriggja mánaða tímabili um 14–15%. Þetta á sér stað í kjölfar þess, að vísitala vöru og þjónustu hækkaði um 30% á s. l. ári. Við erum því í mikilli óðaverðbólgu, þar sem þróunin fer hraðvaxandi. Meðan þetta á sér stað, eru lausir kjarasamningar atvinnuveganna. Þótt ánægjulegt sé, að samningar hafi tekist við opinbera starfsmenn, er líklegt, að þær kjarabætur, sem þar fengust fyrir tiltölulega fámennan hóp launþega í þjónustu hins opinbera, verði viðmiðun um kjarabætur mun stærri hóps launþega, sem starfa í atvinnuvegunum sjálfum, í atvinnufyrirtækjum. Þá er hin mikla spurning, hvort unnt sé að koma þeim kjarabótum á, hvort atvinnuvegirnir standi undir þeim, miðað við þá dýrtíðar- og verðbólguþróun, sem við blasir að öðru leyti, þótt ekki sé tekið tillit til nýrra kjarasamninga.

Ríkisstj. hefur ekki gert Alþ. grein fyrir því að einu eða neinu leyti, hvernig hún ætlar að mæta verðbólguvandamálinu. Hún hefur t. d. ekki gert Alþ. grein fyrir því, hvernig hún ætlar að mæta óskum og kröfum launþega í landinu um lagfæringar á beinum sköttum, en það sýnist vera líklegasta leiðin til þess í senn að bæta kjör launþega og íþyngja ekki um of atvinnuvegunum. Þvert á móti ber fjárlagafrv. vitni um, að ríkisstj. ætli sér að halda áfram þeirri skattaáþján, er hún innleiddi með skattalagabreytingunni 1972. Í fjárl. yfirstandandi árs ern tekju- og eignarskattar að upphæð 4 milljarðar 937 millj. kr. Í endurskoðaðri tekjuáætlun þess fjárlagafrv., sem hér er til umr., eru tekju- og eignarskattar að upphæð 7 milljarðar 155 millj. kr. Hér hækka tekju- og eignarskattar frá fjárl. yfirstandandi árs til fjárl. næsta árs um, að því er mér reiknast til, 45%. Þetta á sér stað á sama tíma og talað er um, að tekjuhækkun í landinu sé 25–26%. Og þetta á sér stað vegna þess, að skattvísitalan er ákveðin allt of lág. Hún hækkar aðeins um 20%, þegar játað er, að tekjur manna hafi hækkað um 25–26% að lágmarki, og þegar vitað er, að vísitala vöru og þjónustu hefur hækkað um 30.2%. Það er beinlínis stefnt að þyngingu skattbyrðanna. Það er beinlínis gengið þvert á óskir launþegasamtakanna í landinu. Ekki virðist því fylgja hugur máli um það tilboð, sem sagt er, að fram hafi komið af hálfu ríkisstj. um einhverjar lágmarkslagfæringar á beinum sköttum til handa launþegum í landinu.

Ég hef viljað benda á, herra forseti, að þessi fjárlög, sem hér eru til umr., eru vitnisburður um það, að ríkisstj, hefur algerlega misst úr höndum sér alla stjórn efnahagsmála. Hún hefur reyndar frá fyrstu tíð lítil tök haft á þeirri stjórn, en hafi þau tök verið einhver í byrjun, er þeim nú algerlega lokið. Þessi fjárlög bera vitni um þá verðbólguþróun, sem viðgengist hafur undir handarjaðri ríkisstj, og hún hefur ekki sýnt neina viðleitni til að ráða við. Jafnframt eru þessi fjárlög vitnisburður um það, að ríkisstj. horfist ekki í augu við vandann. Útgjöld eru þar ekki meðtalin, sem fyrirsjáanleg eru á næsta ári, eða ráðstafanir gerðar, sem geti hamlað að einhverju leyti á móti áframhaldandi dýrtíð. Í því efni er alveg sérstaklega áberandi, að ríkisstj, ætlar sér ekki, miðað við þessi fjárlög, að gera lagfæringar á beinum sköttum, sem hún þó hefur játað, að full þörf væri á, og allir stjórnmálaflokkar, sem fulltrúa eiga hér á Alþ., allir stjórnmálaflokkar á Íslandi hafa lýst yfir, að nauðsynlegt væri að gera.

Ég skora á hæstv. fjmrh. að svara því, hver ætlun hæstv. ríkisstj, er í fyrsta lagi varðandi áframhaldandi niðurgreiðslur og fjölskyldubætur og fyrirsjáanlegan vöxt dýrtíðarinnar og tilkostnað atvinnuveganna í landinu, sem getur gert þá ósamkeppnishæfa á erlendum mörkuðum. En einnig skora ég á hæstv. fjmrh., að hann svari því til, hvað sé ætlun ríkisstj. að gera í skattamálum. Ætlar ríkisstj. ekkert að gera til að lagfæra löggjöfina um tekju- og eignarskatt, sem sett var í fljótræði og af miklum misskilningi og mistökum við upphaf valdatímabils hennar 1972? Ég vænti þess, að hæstv. fjmrh. svari þessum fsp., svo og þeim öðrum fsp. og aths., sem ég hef borið fram í þessari ræðu.