19.12.1973
Sameinað þing: 39. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

1. mál, fjárlög 1974

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég hef ásamt 5 öðrum hv. þm. leyft mér að flytja brtt. á þskj. 295 um byggingu á eftirlíkingu sögualdarbæjar í Þjórsárdal. Till. eru 2, aðaltill. 3.5 millj. kr., en varatill., ef aðaltill. skyldi verða felld, 2.1 millj. kr. Þessar upphæðir byggjast á því, að hærri till. er miðuð við 3 ár, að 3.5 millj. kr. séu fyrsta greiðsla af þremur, en lægri talan fyrsta greiðsla af fimm.

Áætlun hefur verið gerð um kostnað við byggingu sögualdarbæjar. Fyrsta áætlun var 12 millj. kr. Áætlunin var endurskoðuð s. l. haust af Verkfræðiskrifstofu Sigurðar Thoroddsens, og þá var áætlunin 15 millj. kr. Árnesingar hafa boðist til að leggja fram 6 millj. kr. eða 2/5 af kostnaðarverðinu, auk þess hafa þeir boðist til að annast gæslu að verulegu leyti á þessu húsi. Verður að segja, að tilboð Árnesinga sé rausnarlegt.

Það má segja, að Alþingi hafi áður látið í ljós skoðun sína á því, hvort byggja ætti eftirlíkingu af sögualdarbæ í tilefni af ellefu hundrað ára afmæli Íslandsbyggðar. Það var árið 1967, sem þjóðhátíðarnefnd 1974 gerði till. um, hvernig skyldi minnast afmælisins. Þjóðhátíðarnefnd gerði till. um, að byggð skyldi þjóðarbókhlaða, hún gerði till. um að byggja sögualdarbæ og hún gerði í þriðja lagi till. um, að skrifuð yrði Íslandssaga. Það hefur verið samþ. af hæstv. ríkisstj. að byggja þjóðarbókhlöðu, og það er langt komið að semja Íslandssöguna. Allir eru samþykkir því, að það skuli gert, og er talið nauðsynlegt. Þjóðarbókhlaðan verður byggð, en þeirri byggingu verður ekki lokið á næsta ári. Það er byrjað að veita fé til þessarar byggingar, og með því er hún tengd afmælisárinu. Íslandssagan kemur vonandi út á næsta ári.

1967 sagði Alþ. ekki neitt ákveðið um, hvort það teldi eðlilegt að byggja þjóðarbókhlöðuna eða skrifa Íslandssöguna. En fjvn. Alþ. mælti ákveðið með því, að sögualdarbær skyldi byggður, og það má lesa í þingtíðindunum. Það má því segja, að Alþ. hafi markað stefnuna 1967 í þessu tilliti.

Til þess að gera ríkissjóði léttara um vik að standa undir kostnaði af byggingunni, teljum við flm., að skipta megi fjárveitingunni á nokkur ár, t. d. 3 ár, og þá yrði fjárveitingin 3.5 millj. kr. á ári í 3 ár. Ef það þykir of mikið, getum við fallist á, að henni verði skipt á 5 ár. Við það lækkar fjárveitingin niður í 2.1 millj. kr. Við teljum, að ef Alþ. hefur markað stefnuna og samþ. að veita fé til þessarar byggingar, þá megi alveg eins byggja bæinn á 2–3 árum, því að það muni vera mögulegt að útvega fé til byggingarinnar, þegar vitað er, að Alþ. ætlar að veita fé fyrir heildarkostnaðinum.

Ég þarf raunar ekki að segja meira um þessa till., enda mælti ég á hv. Alþ. fyrir ekki löngu fyrir þáltill., sem við þm. Sunnl. flytjum. Ég hef rætt um þessa till. við ýmsa hv. þm. Úr öllum flokkum, og mér heyrist á mörgum, að þeir telji það verðugt að minnast ellefu hundrað ára afmælis Íslandsbyggðar með því að byggja eftirlíkingu af sögualdarbæ. Það hefur að vísu heyrst frá ýmsum að þeir telji, að það sé ekki mögulegt að byggja eftirlíkingu af sögualdarbæ, vegna þess að það viti raunar enginn, hvernig þessir bæir voru. En þetta er áreiðanlega misskilningur. Það hefur verið gert líkan af þessum bæ. Hörður Ágústsson skólastjóri, sem er þessum málum kunnugastur, hefur gert það. Norðmenn eru ekki í nokkrum vafa um, hvernig sögualdarbæir voru, um það leyti sem menn fóru frá Noregi til Íslands. Auðvitað hefur byggingastíllinn verið svipaður hér á Íslandi og hann var í Noregi. Þeir, sem byggðu Ísland, þekktu ekki annan byggingarstíl en í Noregi. Víkingarnir komu að vísu við á Írlandi, og sennilega hefur svipaður byggingarmáti verið þar.

Enginn vafi er á því, að slík bygging getur haft mikla þýðingu fyrir okkur. Hún getur vakið unga fólkið til umhugsunar um fortíðina. Upphaf Íslandsbyggðar og söguna, og er það ekki nauðsynlegt? Er það t. d. ekki hollur lestur að lesa Íslendingasögurnar? Ég er alveg sannfærður um, að allir hv. alþm. hafa lesið Íslendingasögurnar, þegar þeir voru börn, og minnast þess lesturs. Og þeir eru margir, sem hafa sagt, að lestur Íslendingasagna og Biblíunnar, Biblíusagnanna og kversins gamla, hafi haft mikið uppeldisgildi. Þetta var sagt áður fyrr. Ég held, að sú kenning hafi verið góð þá, og ég held, að í dag vanti e. t. v. talsvert á, að þessari kenningu sé viðhaldið. Ég held, að það hafi holl uppeldisáhrif, ef unga fólkið, unglingarnir og jafnvel börnin fást til að lesa Íslendingasögur, kynna sér upphaf þjóðarinnar, Íslandsbyggðar, því að það er vissulega fleira en mannvíg, sem þar er um að ræða. Það eru mannleg örlög, það er saga, og það kemur eins oft fyrir drengskapur og hið gagnstæða. En um það skal ekki meira fjölyrt að þessu sinni.

E. t. v. spyrja einhverjir: Hvernig stendur á því, að þú og þið sumir flm. hér getið flutt till. eins og þessa? Þetta er þó til þess að auka útgjöld fjárl., og þið hafið sagt, að fjárl. væru allt of há. Þið hafið jafnvel sagt, að tekjuáætlun fjárlagafrv. sé teygð það mikið að litlar líkur séu til þess, að fjárlög verði í raun afgreidd greiðsluhallalaus.

Jú, ég er nú þeirrar skoðunar, að fjárl. séu glæfraleg að þessu sinni. En þessi till. er ekki há eða stór í sniðum. Ég er tilbúinn til að greiða atkv. lækkunartill., sem var lýst hér í dag, og ég væri tilbúinn til að greiða atkv. með fleiri lækkunartill. Það var talað um það hér af einum hv. ræðumanni í dag, að það væri eðlilegt að fresta afgreiðslu fjárl. nú og nota þinghléið til þess að fara yfir fjárlagafrv. og athuga, hvað væri hægt að lækka og skera niður að skaðlausu. Ég held, að þetta sé mjög skynsamleg till., og ég fyrir mitt leyti þori að segja það fyrir hönd Sjálfstfl., að hann er reiðubúinn til þess að leggja til menn til að setjast niður og athuga í þinghléinu, hvað það er, sem hægt er að fá samkomulag um að lækka, því að fjárl. eru orðin ískyggilega há. Þau hafa hækkað ískyggilega mikið á undanförnum árum, síðan núv. hæstv. ríkisstj. komst til valda. Því verður ekki neitað. Fjárl. fyrir árið 1971 voru ekki nema 11 milljarðar, en fjárl. fyrir árið 1974 verða nærri 30 milljarðar, og þetta er ískyggileg þróun. Menn búast við því, að ef sama stefna ræður eða sama stefnuleysi, verði fjárl. fyrir árið 1975 40 milljarðar. Þetta er ekki gott, og þess vegna er nauðsynlegt, að menn taki höndum saman og athugi leiðir til að snúa þessari öfugþróun við. En til þess þarf frest, til þess þarf umhugsunartíma, og það hefur oft gerst áður, að afgreiðslu fjárl. hafi verið frestað fram yfir áramót, langt fram á næsta ár, en útgjöld afgreidd eftir heimildum. Ég held, að hæstv. ríkisstj. gerði gott verk með því að kalla til þm. úr öllum flokkum, fresta afgreiðslu fjárl. nú, taka sér hlé og umhugsunartíma til að sníða fjárl. upp, sníða þau við hæfi og greiðslugetu þjóðarinnar, atvinnuveganna og einstaklinganna.

Það er alveg rétt, sem oft hefur verið sagt, að skattarnir eru allt of þungir, allt of háir. Innflutningstollar hækka stöðugt, söluskattur og skattur af þjónustu og vörum, og dýrtíðin magnast. Þetta heldur áfram, ef ekkert verður gert til að snúa þróuninni við. Það er alveg öruggt mál.

Dýrtíðin hefur verið mikil á síðustu mánuðum þessa árs. Vísitöluskrúfan hefur verið í fullum gangi. Verðbólgan hefur aldrei vaxið örar en nú, og afleiðingin er sú, að atvinnuvegirnir stynja undan kostnaðarverðbólgunni og taprekstri er boðið heim á öllum sviðum. Þetta hlýtur að hafa mjög alvarlegar afleiðingar.

Hvernig var verðbólgan á þessu ári, sem nú er að kveðja? Hvernig var vísitöluskrúfan, hvernig snerist hún? Hún byrjaði 1. mars s. l. Þá hækkaði kaupgreiðsluvísitalan um 7%, og á sama tíma hækkaði grunnkaup um 6%. Vísitöluskrúfan hélt áfram, og kaupgreiðsluvísitalan hækkaði 1. júní um 6%, aftur 1. sept. um 7%, aftur 1. des. um 7%. Samtals eru þetta 33% og meira með álagi, þegar hækkunin kemur ofan á hækkunina, þannig að ég held, að það sé óhætt að segja með hugarreikningi 35–36% hækkun. Nú mun einhver segja: Þetta er gott, þetta er kauphækkun handa verkalýðnum og handa laumþegum öllum. — En hvað segja launþegarnir? Þeim finnst þetta ekkert gott, vegna þess að verðbólgan gleypir alla þessa hækkun og kaupgeta almennings vex ekki þrátt fyrir þetta. Þess vegna er það, sem launþegar gera kröfur um kjarabætur og kauphækkanir. Það er vegna þess, að sú hækkun á launum, sem launþegar fá samkv. vísitölukerfinu, nægir ekki til að halda í við verðhækkanirnar. Atvinnuvegirnir stynja undan þessu fargani og nú munu margir spyrja: Hvernig verður þetta á næsta ári? Verður vísitöluskrúfan í fullum gangi þá, eða er líklegt, að hún stöðvist? Því er spáð, að 1. mars hækki vísitalan, kaupgreiðsluvísitalan, um 8–10 stig, og ef svo er, er þá ekki líklegt, að sagan endurtaki sig á næsta ári, það komi enn svipuð hækkun 1. júní, 1. sept. og 1. des. Þola atvinnuvegirnir það? Geta þeir staðið undir því? Verður það kjarabót fyrir launþega? Ég held ekki. Ég held, að þetta geti orðið til þess, að það verði beinlínis stöðvun í atvinnulífinu, a. m. k. stórkostlegur samdráttur, sem getur ógnað fólkinu og atvinnuleysið komið í kjölfar stöðugt aukinnar dýrtíðar. Og ef dýrtíðarhjólið heldur áfram, eins og ég var að lýsa, vísitöluskrúfan með 30–40% kauphækkunum á næsta ári, hvernig standa þá fjárl.? Því var lýst af einum ræðumanni í dag, að í frv. væri ekki gert ráð fyrir greiðslum vegna væntanlegra hækkana 1. mars, ekki einu sinni þá. Og ef um 10 kaupgreiðsluvísitölustig er að ræða, þá eru það 550 millj, kr. Ef skrúfan heldur áfram, þannig að þetta verði milli 30 og 40 stig, þá eru það um 2 milljarða kr., sem vantar á fjárl. til þess að geta staðið við kaupgreiðslur, ef þær hækka eins og sennilegt er, ef ekkert verður aðhafst. Talið er, að fleiri liðir séu vantaldir. Ég ætla ekki að fara út í það. Það, sem ég segi hér nú, er aðeins það, að ég vil benda hæstv. ríkisstj. á þá hættu, ekki, sem hæstv. ríkisstj. er í sérstaklega, heldur þjóðin öll, og það er þess vegna, sem við í stjórnarandstöðunni teljum okkur skylt að benda á, að nauðsynlegt er að skipta um stefnu og taka höndum saman og lagfæra það, sem er komið að því að fara á hliðina. Það eru atvinnuvegirnir, sem stynja og stöðvast, ef þannig heldur áfram, og Alþ. samþykkir botnlaus fjárlög, ef þau verða afgreidd eins og þau nú eru. Þess vegna er nauðsynlegt að fresta fjárlagaafgreiðslunni, að flokkarnir tilnefni menn í n., — kannske er heppilegt, að það sé fjvn., — til þess að vinna nú í þinghléinu að því að semja upp frv., skera niður það, sem hægt er að komast af án, og afgreiða fjárlög á raunhæfan hátt, fjárlög, sem íþyngja ekki atvinnuvegunum og skattborgurunum um of.

Það hefur verið skrifað um það í stjórnarblöðum, að fjárlagaafgreiðslan nú væri byggðastefnumarkandi vegna þess, hversu mikið væri veitt til verklegra framkvæmda. Því hefur verið hampað, að fjárl. væru svo há eins og raun ber vitni vegna þess, hversu mikið er veitt til verki framkvæmda. En þetta er að mestu leyti blekking, vegna þess að útgjöld til verklegra framkvæmda í frv, eru ekki nema 1/5 eða jafnvel 1/6 parturinn af heildarútgjöldum fjárl. Af 30 milljarða fjárl. eru á milli 5 og 6 milljarðar til verklegra framkvæmda. Hitt er til rekstrar og þjónustu. Það eru þess vegna ekki verklegu framkvæmdirnar, sem ráða úrslitum um það, hve fjárl. eru há, það eru rekstrarútgjöldin, það eru þjónustuútgjöldin, og það eru þeir liðir, sem þarf að athuga. Ég er alveg sannfærður um, að það er hægt að fá samkomulag um að endurskoða þetta allt. Ríkisbáknið er orðið allt of stórt, allt of þungt í vöfum í okkar fámenna þjóðfélagi, og alltaf er verið að bæta við, fjölga starfsmönnum, auka við stofnanir og nefndir og því um líkt. Þetta þarf að athuga og skoða allt frá grunni. Þá er enginn vafi á því, að hægt er að lækka útgjöld fjárl. og miða rekstur ríkisins og útgjöld við það, sem skattborgararnir gætu við unað.