19.12.1973
Neðri deild: 48. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

152. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 206 upphaflega, nú 303 er frv. til 1. um tollskrá. Frv, það, sem hér liggur fyrir til 1. umr., er umfangsmikið, og miklar breytingar eru frá núgildandi lögum. Segja má, að frv. sé til komið vegna aðildar Íslands að EFTA og samningi Íslands við Efnahagsbandalagið, en þó jafnframt af annarri nauðsyn á endurskoðun tollskrárinnar. Þetta frv. er samið af embættismönnum úr fjmrn., viðskrn. og iðnrn., og höfðu þeir í sambandi við samningu frv. samband við atvinnurekendur, sem málið varðaði. Höfuðmarkmiðendurskoðunarinnar hefur verið að gera nauðsynlegar breytingar á hráefna- og vélatollum fyrir innlendan iðnað, til þess að hann geti auðveldlega aðlagað sig og mætt þeirri auknu samkeppni, sem fríverslunarsamningar okkar við lönd Vestur-Evrópu hafa í för með sér. Að öðru leyti hefur endurskoðun gildandi tollskrárlaga aðallega tekið miðaf eftirfarandi:

Að láta koma til framkvæmda umsamdar tollalækkanir vegna aðildar Íslands að EFTA og vegna samnings Íslands við Efnahagsbandalagið. Tillögugerð um lækkun tolla á verndarvörum frá löndum utan EFTA og Efnahagsbandalagsins. Lækkun fjáröflunartolla, m. a. með tillögugerð um lækkun á mörgum 100% tollum í 80%, svo og lækkun tolla á nokkrum smyglnæmum vörum. Afgreiðslu fjölda erinda, sem fjmrn. hafa borist, síðan síðasta heildarendurskoðun tollskrárlaga fór fram og af rn. hálfu var ekki hægt að taka afstöðu til, m. a. vegna skorts á lagaheimildum.

Í frv. er gert ráð fyrir, að tollar séu ákvarðaðir eins og þeim er ætlað að vera á hverju ári fram til ársloka 1976. Er þetta nýmæli og fyrst og fremst gert í hagræðingarskyni, til þess að ekki þurfi að gefa tollskrána út að nýju á hverju ári, meðan sá tollalækkunarferill á sér stað, sem um hefur verið samið. Þessi framsetning hefur jafnframt þann kost, að hún gefur notendum tollskrárinnar betri yfirsýn yfir væntanlegar breytingar á tollum, eins og þær koma til með að verða á næstu árum.

Eins og segir í grg. með frv., hefur Ísland skuldbundið sig til að fella niður tolla í áföngum af innfluttum iðnaðarvörum, sem jafnframt eru framleiddar hér á landi, samkv. sérstakri áætlun, sem er að finna bæði í EFTA-samningum og samningi Íslands við Efnahagsbandalagið. Gagnvart EFTA átti fyrsti þáttur þessarar tollalækkunar sér stað hinn 1. mars 1970, en þá voru tollar á verndarvörum frá EFTA-löndum lækkaðir að meðaltali um 30% frá því, sem þeir voru í ársbyrjun á sama ári. Sams konar lækkun gagnvart Efnahagsbandalaginu tók gildi 1. apríl s. l. Hinn 1. jan. 1974 og síðan árlega fram til 1. jan. 1980 skulu tollar á sömu vörum lækka um 10% af upphaflegum tolli á ári, þar til þeir eru fallnir niður 1. jan. 1980.

Þar sem framleiðsla á ýmsum vörutegundum hefur hafist innanlands, frá því að síðasta heildarendurskoðun tollskrárinnar fór fram, hefur þurft að taka upp nýja EFTA- og Efnahagsbandalagstolla á ýmsum vörutegundum, og ber frv. þess nokkur merki.

Í frv. er gert ráð fyrir lækkun almennra tolla á verndarvörum, þ. e. frá löndum, sem standa utan EFTA og Efnahagsbandalagsins. Ljóst er, að tolla þessa verður að lækka samhliða því, að EFTA- og Efnahagsbandalagstollar lækka smám saman, enda gæti mikill tollmunur leitt til óeðlilegrar viðskiptaþróunar. Engin hugmynd er hins vegar sett fram um það, hvaða tollmunur teljist hæfilegur í lok tollalækkunartímabilsins, en gert er ráð fyrir, að hann yrði mismunandi eftir vörutegundum. Í stað þess er sett fram till., sem miðar að því, að tollamunurinn aukist ekki í tollflokkum, sem bera 12% almenna tolla eða hærri. Til skýringar fylgir frv. tafla, sem sýnir breytingar þessar, og er taflan fskj. I með frv.

Aðalþáttur endurskoðunar þessarar, eins og fyrr segir, er tillögugerð um lækkun tolla á vélum og hráefnum til iðnaðar. Gerir frv. almennt ráð fyrir, að tollar af vélum og hráefnum falli alveg niður í tveimur jöfnum áföngum, hinum fyrri 1. jan. 1974 og hinum síðari 1. jan. 1974. Eru allar lækkanir látnar standa á heilum prósentum. Þannig verður 1. jan. 1974 7% tollur að 4% tolli, 15% tollur að 7% tolli, 21% að 10%, 35% að 18% o. s. frv. Þessi almenna regla er þó ekki án undantekninga, þar sem ýmsar vörur eru jöfnum höndum notaðar til iðnaðarframleiðslu og til almennrar neyslu eða fjárfestingar. Hefur í þeim tilvikum orðið að vega og meta hvort tveggja í senn: tekjulækkunaráhrifin fyrir ríkissjóð og mikilvægi viðkomandi vöru fyrir einstakar iðngreinar. Hefur þá í sumum stórum vöruflokkum verið farið bil beggja og gert ráð fyrir nokkurri lækkun, en þó ekki eins mikilli og gert er ráð fyrir á hreinum hráefnum. Er nánar vikið að þessu atriði í grg. með frv.

Það er álit fróðra manna, að gildandi fjáröflunartollum verði ekki haldið til frambúðar, hátollastefnan heyri nú sögunni til. Saga hátollastefnunnar verður ekki rakin hér, en bent skal á kafla í grg. þar að lútandi og þær ástæður, sem liggja því til grundvallar, að brýna nauðsyn ber til að stefna að fráhvarfi frá henni á næstu árum. Með frv. er hins vegar stigið lítið spor í rétta átt með lækkun tolls á mörgum vörutegundum, sem bera 100% toll, í 80%, og er þar einkum um að ræða borðbúnað, búsáhöld, grænmeti, ávexti og krydd. Nokkuð er um till. í frv. til lækkunar á tollum, sem ekki er bein afleiðing þeirra atriða, sem fyrr hefur verið lýst. Þar má m. a. nefna, að gerðar eru till. um lækkun tolla á ljósmyndavélum úr 50% í 35%, og er þar nokkuð komið til móts við óskir Ljósmyndarafélags Íslands. Jafnframt er lagt til, að tollur á leifturljósatækjum til atvinnuljósmyndara lækki í 15%, svo og að tollur á ljósmyndavélum 3 kg og þyngri verði 4%. Slíkar ljósmyndavélar munu þó almennt frekar vera notaðar í iðnaði en hjá atvinnuljósmyndurum. Þar að auki er lagt til að tollur á kvikmynda- og sýningarvélum fyrir 16 mm filmur og stærri lækki í 165%, en slíkar vélar munu nær eingöngu notaðar í atvinnuskyni. Að lokum er lagt til, að tollur á stækkunar- og minnkunarvélum fyrir ljósmyndir verði lækkaður úr 50% í 7% og tollur af tækjum og áhöldum til notkunar í ljósmynda- og kvikmyndavinnustofum í 7%. Verður að telja, að með þessu sé komið eins langt til móts við hagsmuni atvinnuljósmyndara og atvinnukvikmyndatökumanna og kostur er að svo stöddu.

Þá gerir frv. ráð fyrir, að breytt verði ákvæðum 45. tölul. 3. gr. tollskrárinnar, þannig að eftirgjöf aðflutningsgjalda til handa leigubifreiðarstjórum og ökukennurum verði aukin, eða úr mismun 90% og 70% tolla +50 þús. kr. eftirgjöf í 40%. Almennur tollur á fólksbifreiðum er 90%. Jafnframt er gert ráð fyrir, sendiferðabifreiðastjórar með sendiferðabifreiðaakstur að aðalstarfi geti notið sömu eftirgjafar, en til þessa tíma hefur slíkt ekki verið hægt fyrir sendiferðabifreiðar með hliðargluggum, þar sem þær hafa verið í 90% tolli. Sendibifreiðar án hliðarglugga hafa hins vegar verið í 40% tolli, og verður engin breyting þar á. Enn fremur er gerð till. um, að hafi sömu aðilar akstur að aukastarfi, verði heimiluð eftirgjöf aðflutningsgjalda um 25% eða tollur lækki úr 90% í 65%, og mun fjmrn. setja nánari reglur um framkvæmd þessara ákvæða.

Í frv. er enn fremur gert ráð fyrir, að tollur á gleraugnagleri lækki úr 20% í 15% og á gleraugnaumgjörðum úr 50% í 15% til samræmis við tolla af ýmsum hjúkrunar- og lækningavörum.

Enn fremur er lagt til, að tollur af endurskinsmerkjum verði lækkaður úr 70% í 21% og tollur af öryggisólum í bifreiðar fyrir börn lækki úr 65% í 20% til samræmis við toll af öryggisbeltum.

Áður hefur verið minnst á lækkun tolla á smyglnæmum vörum. Þar er um að ræða tollalækkanir á ilmvötnum og sjónaukum, jafnframt því sem segja má, að myndavélar falli undir þennan flokk vara. Segja má, að þessar vörur séu sökum hárra aðflutningsgjalda ekki keyptar sem skyldi hér á landi, heldur í tollfrjálsum verslunum heima eða erlendis. Gert er ráð fyrir, að ilmvötn lækki úr 100% tolli í 35% og sjónaukar úr 80% í 35% toll. Í þessu sambandi er vert að benda á, að á árinu 1972 nam innflutningur til landsins á ilmvötnum 5 millj. kr. að cif-verðmæti, á sama tíma sem tollfrjáls innflutningur til fríhafnarinnar á sömu vörum nam 19 millj. kr. Fyrrgreindar tölur gefa glöggt til kynna, að hér er um mjög óeðlilegt ástand að ræða, sem almennt hefur haft mjög neikvæð áhrif á verslun með þessar vörur hér á landi. Segja tölur þessar þó ekki allt, þar sem töluvert af ilmvötnum er án efa keypt af ferðamönnum í erlendum fríhöfnum og flutt þannig til landsins án greiðslu gjalda.

Erfitt er að segja nákvæmlega til um áhrif tollalækkana þessara á tekjur ríkissjóðs. Á grundvelli innflutnings frá miðju ári 1972 til miðs árs 1973 er tekjumissir lauslega áætlaður 535 millj. kr., en á grundvelli áætlunar innflutnings 1974 615 millj. kr. Má flokka lækkanirnar í stórum dráttum þannig: Vélar og hráefni til iðnaðarins 325 millj. kr., verndarvörur 235 millj. kr. og fjáröflunartollar 55 millj. kr. Ekki skal farið í neinar grafgötur með það, að tekjumissi af þessum stærðargráðum verður að bæta ríkissjóði með öðru móti.

Á sínum tíma, þegar Ísland gerðist aðili að EFTA, var þeim tollalækkunum, sem þá var ráðist i, mætt með hækkun á söluskatti um 3½ stig. Eftir atvikum verður að telja eðlilegt, að þessum tekjumissi verði mætt á sama hátt, og verður þess vegna, eins og nú er komið inn í frv. sjálft, gert ráð fyrir að hækka söluskatt um 1% til að mæta þessu tekjutapi.

Einstakar breytingar, sem frv. felur í sér að öðru leyti, tel ég ekki ástæðu til að fara nánar út í hér. Þegar frv. kemur til kasta fjh.- og viðskn., á hún kost á því, að þeir menn, sem að samningu þess hafa unnið, komi á fund n. og athugi málið með henni.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. deildarinnar.