19.12.1973
Neðri deild: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1663 í B-deild Alþingistíðinda. (1525)

159. mál, Seðlabanki Íslands

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Það er upp kominn berlegur ágreiningur milli hv. þd. um það mál, sem hér liggur fyrir, því að í meðferð þessarar hv. þd. var bætt við frv. nýrri mgr., sem hljóðaði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Allar meiri háttar framkvæmdir á vegum bankans eru háðar sérstöku samþykki beggja, ráðh. og bankaráðs.“

Hv. Nd. skildi, hvað var hér á ferðum, og samþykkti þetta. Síðan gerðist það í Ed., að vaskleikamaður mikill formaður Sjálfstfl., Geir Hallgrímsson, ruddist fram á völlinn af undarlegum ástæðum, sem mér eru ekki kunnar, og lagði til, að þetta yrði fellt, og með því mikla þingfylgi, sem þessi skörungur hefur, var frvgr. lögð að velli. Síðan kemur málið aftur til Nd., og ég hygg, að það sé ekki vert að sætta sig við þessa niðurstöðu, því að hér liggur meira að baki en menn kannske almennt gera sér grein fyrir.

Það er nú orðið áliðið kvölds, og ég skal ekki fara að rekja langa sögu, en þessi gr., sem kom inn í frv. í Nd., á rætur sínar að rekja til þess, að Seðlabankinn bugðist ráðast í miklar byggingarframkvæmdir, sem fróðir menn telja, að muni varla kosta minna en hálfan milljarð, þegar allt kemur til alls, væntanlega öllu meira, ef efnahagsmálin þróast eins og gera má ráð fyrir, og enginn virðist geta stöðvað þetta. Allir voru varnarlausir gagnvart því ofurvaldi, sem þessi mikla stofnun, Seðlabankinn, hefur í þjóðfélaginu, allir voru stikkfrí. Síðan mátti taka annað dæmi um ofurvald þessarar stofnunar hér í hv. Nd. í gær þegar kom í ljós, að Seðlabankinn hafði hækkað almenna vexti á s. l. sumri gegn vilja hæstv. viðskmrh. eða a. m. k. var hann persónulega andvígur slíkri vaxtahækkun. Aðrir ráðh. létu kannske álit sitt uppi. En það er bersýnilegt, að þessi stofnun, Seðlabanki Íslands, er eins og einhver ófreskja fyrir handan og ofan það eðlilega, þinglega vald, sem er í þessari stofnun.

Ég get ekki stillt mig um að koma með dálítið grátt gaman í þessu sambandi. Það er það, að stjórnarflokkarnir blessaðir hafa í sínum málefnasamningi „að endurskoða löggjöf Seðlabankans“, en það bólar náttúrlega ekki mikið á þeirri endurskoðun. Þeir hafa líka í huga að sameina banka, en ekki virðist örla á því. Nú fer fram fyrir augliti alþjóðar mikill gamanleikur. Það er verið að koma ákveðnum manni fyrir í einhverjum banka. Í raun og veru hefur verið farið frá Búnaðarbanka til Seðlabanka til Útvegsbanka og gengið svo á milli, eins og kaupin gerast á eyrinni. Spurningin er sú, hvort ekki væri hægt að stofna sérstakan Guðmundarbanka, svo að hægt væri að koma téðum manni fyrir. — En það er dálítið ömurlegt í þessu þjóðfélagi okkar, hvernig málin geta í raun og veru þróast. Það á að endurskoða bankakerfið, endurskoða Seðlabankann, og svo fer fram sá dæmalausi skrípaleikur, sem á sér stað í sambandi við það, sem ég nefndi áðan. Það hlýtur að vera kominn tími til, að þm. fari að gera eitthvað í þessum efnum.

tillgr., sem kom hér inn í frv., var með ákaflega saklausu yfirbragði: „Allar meiri háttar framkvæmdir á vegum bankans eru háðar sérstöku samþykki beggja, ráðh. og bankaráðs.“ Ekki er nú þetta mjög ströng klásúla: „Allar meiri háttar framkvæmdir“. Og svo stynur þingheimur undan ofurvaldi þessa téða banka. En þegar á að fara að gera einhverjar smálagfæringar á þessu, þá hlaupa menn frá og vilja ekki standa að þeim. Af hverju? Þetta skil ég ekki.

Ég lít á málin þannig, að ef þetta heldur svona áfram í bankamálunum, í sambandi við Seðlabankann og þennan skrípaleik, sem nú fer fram fyrir opnum tjöldum í sambandi við ákveðna bankastjónastöðu, þá endar þetta með sprengingu. Það gerir það með því að halda þessu öllu svona niðri. Ef hv. þm. hafa ekki skilning á því, að svona lagað getur ekki gengið lengur. Og það er ekkert, sem rífur niður þingræðið og lýðræðið í landinu eins og slíkur hegðunarmáti, sem á sér stað núna með kaup og sölur í sambandi við ákveðið bankastjóraembætti. Sannleikurinn er sá, að það virðist stundum eins og ráðh. og þm. búi í fílabeinsturni. Hvað haldið þið í raun og veru, að þjóðin segi um þetta?

Ég skal ekki hafa þessi orð lengri. Þessi fyrrv. frvgr. er með allra vesældarlegasta móti og ákaflega kurteisleg. Það er aðeins, að það eigi að hafa samráð við ráðh., ef ráðist er í meiri háttar byggingar, og ég á bágt með að skilja það, að sjálfur hæstv. bankamrh. skuli leggjast gegn þessu. Hann virðist ekki hafa áhuga á að fá frekari völd í þessu efni, hann virðist ekki hafa frekari áhuga á að ráða mikið um vaxtahækkun, en hann virðist hafa áhuga á að koma ákveðnum manni fyrir í einhverjum banka. Það eru nútímaleg stjórnmálavísindi. Og það er dálítið merkilegt, að þeir menn, sem eru að tala um áætlunarbúskap og forgangsröðun verkefna, skuli loka augunum fyrir því mikla fjármagni, sem bankarnir fjárfesta að eigin geðþótta, meðan ríkisstofnanir og aðrir stynja þungan undir því, hve lítið fjármagn þær fá og hve erfitt er um vik. Ég vil nú benda hæstv. bankamrh. og hans liði, sem hefur áratugum saman talað um bankavaldið, á, að það gefst nú örlítið tækifæri að byrja á því að sýna, að hugur fylgi máli, og fá aðra menn, hv. þm., sem skilja og hafa vilja til að gera eitthvað í þessu máli, til að stinga aðeins við fæti. Enn þetta er aðeins byrjunin, vona ég.

Ég skal ekki hafa þessi orð lengri. Ég vil leyfa mér að leggja fram hér að nýju fyrir hv. d. sams konar mgr. og áður var í þessu frv., áður en það var sprengt í Ed., og bið því hæstv. forseta að leita afbrigðu um þetta efni.