19.12.1973
Neðri deild: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

159. mál, Seðlabanki Íslands

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég geri ekki ráð fyrir því, að það þurfi að tala mikið fyrir þessari till. eftir það sem flm. hefur þegar gert. Ég býst við því, að hann sé búinn að sannfæra alla um það, hvernig eigi að greiða atkv. í málinu. En ég vildi aðeins segja í sambandi við það, sem hann sagði um mína afstöðu, og hún hefur að vísu verið alleinkennileg í þessu máli.

Þegar till. hans lá hér fyrir til breytinga á því frv., sem hér var um að ræða, þar sem var um að ræða samkomulagsfrv. úr Ed. varðandi það, hvernig með skyldi fara skráningu á gengi ísl. krónu, þá greiddi ég atkv. gegn till. hans um að setja inn í frv. gersamlega óskylt mál, jafnvel þó að það þýddi það, að verið væri að auka valdsvið mitt, af því að mér fannst þetta mjög afkáralegt á allan hátt og óeðlilegt.

En þegar málið kom til Ed., fór ég mjög eindregið fram á það við Ed.-menn, að þeir samþykktu frv. eins og það væri, til þess að ekki yrði farið að hrekja frv. á milli deilda enn einu sinni, því að það, sem skipti hér aðalmáli, væri að fá lagalega heimild fyrir því, hvernig mætti skrá gengi íslenskrar krónu, því að ef þetta frv. dagaði uppi, yrði að lækka gengi krónunnar um næstu áramót nokkurn veginn niður í það gengi, sem þessi hv. þm. fann ástæðu til að segja sig úr sínum flokki út af á sínum tíma. Það er þá ekki nein heimild til þess að hafa þá gengisskráningu, sem er í dag.

Nú fer ég enn fram á það við þessa d., að hún samþykki frv. ekki í þeim búningi, sem ég óskaði eftir að það yrði samþ. í Ed., heldur að hún samþykki það í þeim búningi, sem það er nú. (Gripið fram í.) Af því að meginatriði málsins er, að aðalatriðið fáist samþykkt, en ekki sá fíflagangur, sem hér hefur verið hafður í frammi í sambandi við tillöguflutning hv. 3. landsk. þm. Hann hefur flutt frv. um það efni, sem till. hans fjallar um. Það er sjálfsagt, að það frv. verði afgreitt hér á eðlilegan hátt, en ekki blandað í þetta frv. Ég skil í rauninni þessa tilburði hans hér eingöngu í þá átt, að hann sé að berjast fyrir því að reyna að koma fram ákveðinni gengislækkun. Spurningin er bara, hvort honum tekst það.