19.12.1973
Neðri deild: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Mér er líklega óhætt að byrja mál mitt með því að vitna í orð hv. 3. landsk. þm., sem sagði, að upp væri kominn ferlegur ágreiningur á milli d. eða eitthvað á þá leið. Máske er það of sterkt til orða tekið, vegna þess að ég hafði ekki trú á því, að varðandi það, sem samþykkt hafði verið hér í eina tíð með jafnmiklum meiri hl. og gert var, tækist að snúa mönnum eða heilaþvo þá á þessari stuttu leið frá Ed. til Nd. á þann veg, sem hægt var að gera í því máli, sem var hér til umr. á undan þessu.

Hæstv. forseti d. hefur beðið um, að menn stytti mál sitt í sambandi við þetta mál. Í sjálfu sér er það orðið svo kunnugt, að það þarf ekki að fara út í það í smáatriðum, og ég mun ekki gera það. Ég minni hins vegar á, að að viðhöfðu nafnakalli fór fram atkvgr. um það eina atriði, sem ég flyt brtt. um á þskj. 311. Fór sú atkvgr. þannig, að 31 sagði já eða meiri hl. allra alþm., 5 sögðu nei, 3 greiddu ekki atkv. og einn var fjarverandi. Fyrir þann, sem hefur verið fjarstaddur þar til nú, get ég upplýst það, að brtt. mín er fólgin í því að gefa reykvískum, hafnfirskum og keflvískum sjómönnum á hinum minni fiskibátum sama rétt og öðrum fiskimönnum allt í kringum landið. Það er blekking, sem kom fram við umr. í Ed., það er ekki verið að opna Faxaflóann fyrir neinum veiðum. Það er verið að gefa þessum sjómönnum sama rétt til að geta fallið undir þær heimildir, sem ráðh. og Hafrannsóknastofnunin hafa samkv. frv. nú, til þess að stunda þessar veiðar, ef það er talið fært frá fiskifræðilegu sjónarmiði. Um hitt, held ég, að sé ekki að ræða, að efnahagslega og félagslega sjónarmiðið sé til staðar, því að það getur ekki verið, að Alþ. viðurkenni til lengdar, að einn lítill staður geti ráðið öllu á móti hinum stærri, jafnvel þó að það komi fram mjög sterk rök þaðan, þegar við verðum að viðurkenna, að þau rök eru ekki sterkari en það, að þau standast ekki gagnvart því, sem okkar fiskifræðingar eða menn, sem mest vit hafa á þessum veiðum, segja um málið sjálft. Þar á ég við þetta: Hvað er það, sem eyðileggur aflann í Faxaflóa? Er það ákveðið veiðarfæri, eða er það eitthvað annað? Það er staðreynd, að fiskur hvarf úr Faxaflóa að miklu leyti á árunum 1969–1970. En veturinn 1971 fékkst einmitt samþykkt algert bann við öllum veiðum í Faxaflóanum hér á Alþ., en að viðhöfðum miklum blekkingum, bæði innan þings og utan. Ég skal koma aðeins að því síðar.

Þessi fiskur, t. d. ýsan, ef við snúum okkur að því, hvarf ekki aðeins hér í Faxaflóa, hún hvarf víðast hvar á ýsuveiðisvæðum allt í kringum landið. Þetta var að sjálfsögðu vegna þess fyrst og fremst, að árgangur sem átti að vera kominn þá í veiðarnar, hafði brugðist og jafnvel tveir, og auk þess telja sumir fiskifræðingar, að straumar og þó sérstaklega sjávarhiti hafi breytt sér. Þetta eru staðreyndirnar, sem liggja fyrir, af hverju þetta hafi verið, en ekki það, hvort fiskurinn hafi verið drepinn í þetta veiðarfærið eða hitt, enda vitum við meira um þessi mál í dag en áður, og auðvelt er fyrir þá, sem heimildirnar eiga að veita, að halda veiðunum frá svæðinu í Faxaflóa, þar sem smáfiski er, og því hef ég aldrei borið á móti, að það eru stór svæði í Faxaflóa, þar sem smáfiski er og engar veiðar á að leyfa, ekki einu sinni trillubátunum með sportveiðifærin frá Akranesi. Það er ekkert betra fyrir lítinn fisk að drepast á lóð heldur en í dragnót. Það er a. m. k. mitt álit.

En friðunarmennskan er orðin svo allsráðandi hér, að ég get ekki annað en vitnað til viðtals, sem var í Vísi í dag, við einn um jólamatinn. Hann var spurður að því, hvort hann mundi borða rjúpur á jólunum: Nei, nei, nei, nei, ég er á móti því, að rjúpur séu skotnar. — Nú má vel vera, að þetta gangi út yfir aðrar skepnur og svo komi næst, að það verði ekki borðað lambakjöt, vegna þess að fólk sé á móti því, að lömbum sé slátrað á haustin. Nú er svo komið, að sumir menn eru svo uppfullir af friðunaráhuga í sambandi við fiskinn, að það má ekki drepa fisk og ég tala nú ekki um að borða hann, ef hann er tekinn í ákveðið veiðarfæri. Nóg um það, segir hv. 5. þm. Vesturl.

Tvennt annað hefur verið vitnað í í sambandi við afstöðu Ed.-manna til þessa máls. Það er nýlokið Farmanna- og fiskimannasambandsþingi. Það var eftirtektarverð afstaða, sem tekin var á því þingi — það þekki ég mæta vel, því að ég gekk á milli þeirra fulltrúa, þegar þinginu var lokið, og spurði, hvaðan þeir hefðu þekkingu til að taka þessa afstöðu. Ég veit, að menn, sem aldrei hafa á fiskiskip komið og sátu það þing, hafa ekki meira vit á þessu máli en sumir hv. þm. En þeir fiskimenn, sem það þing sátu, voru eingöngu úr röðum skipstjórnarmanna, sem nótaveiðar stunda, og þeirra, sem stunda veiðar á hinum stærri togurum. Smáútvegsmenn við innanverðan Faxaflóa eða annars staðar um landið áttu ekki einn einasta fulltrúa á því þingi. Kem ég þá kannske að stærstu blekkingunni, er oft hefur verið vitnað til, en það er útvegsmannafundur í félagi þeirra hér í Reykjavík á sínum tíma, sem mikið var vitnað til. Þeir dragnótaandstæðingar, sem berjast hvað harðast gegn þessari heimild handa hæstv. sjútvrh., — og hef ég þó trú á því, að sumir hefðu þá trú á honum, að hann fari ekki of langt í leyfum sínum, þegar heimildin er í hendi hans og þó ekki eingöngu hans, heldur og Hafrannsóknastofnunarinnar, vitna sumir til þessara stuðningsmanna hins algera banns, þeir vitna til þessa fundar, og af því að ég minntist á hann áðan, ætla ég að koma aðeins nánar inn á hann.

Atkvæðafjöldi í þessu félagi er þannig, að hann er bundinn smálestatölu skipa þess útgerðarmanns, sem í félaginu er, smálestatölu þeirra skipa, sem hann ræður yfir. Þeir, sem réðu afstöðunni gegn miklum meiri hl. einstaklinga úr smáútgerðarröðum, voru þeir menn, sem fara með upp í 20 atkv. hver, eins og Einar Sigurðsson í Vestmannaeyjum, sem hefur ekki landað einum einasta fiski af bátum sínum í Reykjavík áratugum saman. Og þannig var með þá alla, sem voru á móti þessum smáútgerðarmönnum. Það voru mennirnir, sem lönduðu úr sínum skipum í öðrum verstöðvum: Grindavík, Vestmannaeyjum, komu aðeins með sína báta til Reykjavíkur til þess að láta þá liggja hér milli jóla og nýárs, — mennirnir, sem stunduðu nótaveiðar, loðnu- og síldveiðar, alls staðar annars staðar heldur en kom til góða fólkinu, sem býr við Faxaflóa. Er að furða, þó að það sé vitnað oft til þessa fræga fundar. Það vill svo til, að ég á í fórum mínum atkvgr. frá þessum fundi, hverjir voru þar mættir og fyrir hverja eru greidd atkv. Það var einn aðili, sem hafði á sínum vegum marga báta, sem greiddi atkv. með þeim smáútgerðarmönnum. Það var Ingvar Vilhjálmsson útgerðarmaður, vegna þess að skip hans hafa alltaf landað hér í Reykjavík, og hann veit, hvað þetta þýðir fyrir atvinnulíf hér í bænum, fyrir frystihúsin og fyrir þá neytendur, sem þurfa á fiskinum að halda.

Ég hef ekki komið inn á í þessum umr. og ekki talið rétt að draga það fram, hvað þetta einhliða bann hefur haft að segja fyrir þau skip og þá menn, sem stunda þennan atvinnuveg. Hefur nokkur reynt að taka saman, frá því að þetta alhliða bann var sett á, hvað það hefur haft í för með sér af slysum, ekki aðeins slysum vegna sjósóknar suður fyrir Garðskaga og Reykjanes að vetri til eða vestur fyrir Jökul, heldur og dauðaslys, og skip, sem farist hafa? Það verður kannske rannsóknarefni fyrir suma að telja það saman. En ég fullyrði, að ef Alþ. ætlar að mismuna smábátafiskimönnum svo sem Ed. nú hefur ákveðið að gera, þá held ég, að það verði ekki komist hjá því fyrir ríkisstj. og þá sérstaklega Alþ. að borga þessum mönnum stórkostlegar skaðabætur og helst þó að kaupa bátana af þeim, vegna þess að þeir fá ekki að gera þá út annars staðar, enda er þegar komin fram sú skoðun sumra manna: Ef þeir geta ekki bjargað sér annars staðar en í Faxaflóanum, þessir bátar, þá eiga þeir ekki að vera til. — Þetta las ég í einu blaðinu nú um daginn eftir velmetinn fyrrv. togaraskipstjóra. En ég held, að þetta atriði hljóti að verða að koma til athugunar hjá þinginu, þótt síðar verði á vetrinum, ef það verður ekki viðurkennt, að þeir eigi að hafa sama rétt og aðrir. Meira að segja Ed. hefur gengið á móti óskum þeirra, sem minni bátana eiga og á þeim róa, og ég mun ekki gera neinar brtt. þar við, því að ég veit, að það eru nákvæmlega sömu vandræðin hjá þessum mönnum annars staðar um landið. En þar hefur verið komið á móti þeim, og þeir hafa þó það í vonum, að ef okkar fiskifræðingar leyfa, þá geti þeir notað hagkvæmustu veiðarfærin hverju sinni.

Ég skal ekki, herra forseti, tefja tímann frekar í sambandi við þetta mál, og ég skal ekki fara að endurtaka mín fyrri orð um álit mitt á frv. sjálfu, álit mitt á því, að það sé vitlaust upp byggt, og kannske álit mitt á sumum hv. þm., sem mest tala um friðun, en hafa minnst vit á henni og halda, að smáfiskur sé yfirleitt hér uppi við landsteina, en hann sé ekki til utan ákveðinnar hringlínu, sem fundin sé, þegar sirkli sé stungið í mitt landið og svo dreginn hringur í kringum það. Þetta er mikill misskilningur. Með einhliða og afturhaldskenndum sjónarmiðum á þessum sviðum er kannske verið að skemma meira fyrir ákveðnum útgerðarformum eða við skulum frekar segja veiðarfærum heldur en með nokkru öðru.

Það hefur komið fram enn ein blekkingatilraunin í sambandi við þetta: Þessi skip hafi alltaf verið á framfæri aflatryggingasjóðs. — Þetta er algerlega rangt. Þessir bátar fengu úr aflatryggingasjóði, þegar afli brást 1969 og 1970, síðan ekki söguna meir og einfaldlega ekki á vetrarvertíð, vegna þess að þeir eru undir allt öðrum reglum, — af því að þeir eru að sjálfsögðu úr Reykjavík, — heldur en bátar, sem gerðir eru út frá plássunum við suðurströndina.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri. Ég mun greiða atkv. með brtt. Sverrir Hermannssonar á þskj. 297, en till. á þskj. 306 mun ég greiða atkv. á móti, því að það er á móti því samkomulagi, sem gert var í sjútvn. Nd., sem lagði sig í framkróka um að ná samkomulagi, til þess að málið næðist fram, áður en við færum í jólafri. Ég vænti þess, að þingheimur standi með í því að fella þá brtt., en samþykkja hins vegar till. okkar á bskj. 311.