19.12.1973
Neðri deild: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1675 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ef hv. 5. þm. Vesturl. hefur skilið orð mín í minni fyrri ræðu á þann veg, að ég teldi, að þeir, sem væru hinir meiri friðunarsinnar, væru að valda dauða fiskimanna, sem reru á hinum smærri bátum héðan á innanverðum Faxaflóa, þá er það í sjálfu sér misskilningur. Hins vegar þekkir hann það mikið til sjómennsku, að hann hlýtur að skilja, að það er miklu meiri hætta yfir þeim mönnum, sem þurfa að róa á þessum litlu bátum, þegar þeir þurfa að sækja t. d. suður fyrir Reykjanes um hávetur eða vestur á Breiðafjörð. Og því miður eru dæmi um það, að á þessum litlu bátum hafi þeir farist og slys orðið á þeim hin síðari ár, vegna þess að þeir hafa orðið að sækja héðan. Þetta eru staðreyndir, sem liggja fyrir. Það kemur auðvitað engum til hugar að ætla neinum það, þó að hann vilji meiri friðun einhvers staðar og að sóknin verði öðruvísi, að hann hafi haft það í huga. Það er mikill misskilningur.

Hins vegar kom það glöggt fram í öllu máli þessa hv. þm., að hann er orðinn miklu meir á alheimsvísu heldur en landsvísu, því að hann kemur hér og heldur langa ræðu um mál, sem hann hefur ekki nokkra hugmynd um, hvað er. Hann segir: Hann, þessi skúrkur, 10. þm. Reykv., ætlar að opna Faxaflóann, og ég er á móti því. Ég tek undir orð hv. síðasta ræðumanns. Það er ekki verið að opna fyrir neitt í Faxaflóanum. Það er verið að opna fyrir það, að menn hér hafi sama rétt og aðrir um það, að ráðh. með Hafrannsóknastofnunina að baki hafi heimild til að láta fara fram einhverjar lítilsháttar veiðar hér í Faxaflóanum.

Svo ég komi aftur að því máli, skil ég ekki, hvað reykvískir eða hafnfirskir togarasjómenn hafa gert þessum hv. þm. Hann ætti manna best að vita það, — ég man a. m. k. eftir þeim árum, þegar var verið að klæða hann í svörtu peysuna og taka mynd af honum til að birta í Þjóðviljanum fyrir kosningar í Sjómannafélagi Reykjavíkur og hann fór nokkrum sinnum til sjós með doktor Ólafi Jenssyni á reykvískum togurum, að honum þótti gott að fara vestur í Kolluál, eins og raunar öllum togarasjómönnum, sem hafa stundað þar veiðar um áratugaskeið (JónasÁ: Hver er doktor Ólafur Jensson?) Doktor Ólafur Jensson, ég held, að það sé eini bankastjórinn, sem Alþb. á í dag, hann er í Blóðbankanum.

Ég spurði hv. þm. Friðjón Þórðarson að því áður í sambandi við þetta mál, hvað hans sveitarfélag næði langt til hafs? Hvaða rétt eiga sveitarfélögin á Snæfellsnesi fram yfir Reykjavík og Hafnarfjörð um að nýta mið sem eru langt úti í rúmsjó? Það er náttúrlega lögskýringaratriði fyrir lögfræðinga að segja okkur frá því og skýra það fyrir okkur, hvað þeirra réttur nær langt. Hvaða forgangsrétt hafa þeir aflað sér á umliðnum áratugum fram yfir þá, sem hafa sótt á hinum stærri skipum héðan frá innanverðum Faxaflóa? Ég veit ekki betur, — til þess að útskýra fyrir þessum hv. þm. það, sem hann ekki veit, — en þegar verið var að leita samkomulags í sjútvn. Nd., þá var upprunalega till. sú, að við leyfðum hinum stærri togskipum að veiða inn að 6 mílum, það væri höfuðregla allt að Bjargtöngum. En til þess að koma á móti Breiðfirðingum var lokað fyrir stærri skipin úr miðjum Breiðafirði og norður úr, en hins vegar leyft að fara aðeins grynnra að sunnanverðu, vegna þess að þar voru þeirra hefðbundnu mið, Kolluállinn (Gripið fram í: Af því að þar er fiskurinn.) Af því að þar er fiskurinn? Nú, ég veit ekki til þess, að nokkurt skip frá Reykjavík hafi verið gert út á umliðnum öldum til annars heldur en að veiða fisk. Ég veit ekki, hvað hv. þm. álítur um útgerð hér á Íslandi. Ég hélt, að öll skip færu til sjós til þess að afla. Ég veit, að það er annar afli, sem hann sækist eftir, þessi hv. þm. Það er atkvæðaöflun, sem hann er í á Snæfellsnesi. En hann er ekki að hugsa um, hver þáttur útgerðarinnar eða fiskimanna eigi að vera við nýtingu landhelginnar, það er auðheyrt.

Það var líka eftirtektarvert hjá hv. 5. þm, Vesturl., Jónasi Árnasyni, þegar hann var að tala um dauðaslysin og fór að minnast á röksemdir Breta, þegar togari fórst, mig minnir við Grænland eða alla vega langt vestur af Íslandi. Ég man nú ekki betur en ein röksemdin hjá hv. þm., — það hlýtur að hafa verið hjá honum líka, því að hann greiddi samningnum við Breta atkv. sitt, — ein höfuðröksemdin var sú í sambandi við gerð þess samnings, að hann væri gerður til þess að firra íslenska sjómenn og sérstaklega varðskipsmenn slysum, svo að hann ætti að muna eftir röksemdinni þaðan.

En það er líka eftirtektarvert, þegar hann talar um, að þeir kvarti, hinir minni bátar við Breiðafjörð, út af þeim svæðum, sem þeir fá samkv. þessu frv. Því endurtek ég enn einu sinni: Skyldu þeir ekkert þurfa að kvarta, hinir minni bátar við innanverðan Faxaflóa, eða er það eins og ég sagði áðan við þessa umr., er það alltaf þessi staðbundna föðurlandsást þm. fyrir sínu eigin kjördæmi, sem kemur fram hjá þeim? (JónasÁ: Ég tók það fram, að ég hefði einungis stutt það að takmarka sem mest veiðarnar á Breiðafirðinum.) Já, en um leið varstu með því að gefa Breiðafjarðarbátunum einkarétt til veiða við innanverðan Breiðafjörð, að vísu ekki með dragnót eða trolli, en allt aðrar veiðar, sem þeir gátu nýtt sér, þ. á m. skelfisk. Það fær enginn bátur frá Faxaflóa að koma og veiða skelfisk við innanverðan Breiðafjörð, það eru einkaveiðar þeirra Breiðfirðinga, og veit nú enginn heldur, hvenær þeir eignuðust þann sjó.

Herra forseti. Ég skal verða við ósk um að stytta þessar umr., en til viðbótar út af till. Sverris Hermannssonar í sambandi við Fiskifélagið vil ég undirstrika, að það eru ekki bara útgerðarmenn, sem eiga þar aðild núna. Það eru öll sjómannasamtökin í landinu og fleiri aðilar. Ég tel, að þegar Hafrannsóknastofnunin á að koma með hinar fiskifræðilegu röksemdir, þegar ráðh. spyr Hafrannsóknastofnunina um málið, þá mundi Fiskifélagið með þessa aðila koma með hin efnahagslegu og félagslegu rök. Ég álít, að þessi tvenn rök séu kannske ekki neitt síðri en hin fiskifræðilegu, og m. a. hef ég dregið þau fram vegna fiskimannanna hér við innanverðan Faxaflóa.