19.12.1973
Neðri deild: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (1540)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal verða við þeim tilmælum að vera stuttorður. — Við eyddum í það löngum tíma og allmikilli vinnu í hv. sjútvn. d. að reyna að finna einhvers konar samkomulagsgrundvöll í þessu viðkvæma máli. Að lokum virtist hann vera fundinn. En þá komu auðvitað aftur þrákálfarnir úr Vesturlandskjördæmi, sem virðist vera haldnir mjög mikilli þráhyggju. Sendinefndir Vestlendinga komu til okkar æ ofan í æ, en aldrei með sömu skoðunina. Þeir margbreyttu sinni afstöðu, og sömu mennirnir skrifuðu undir þrenns konar till.

Hv. 4. þm. Vesturl., Friðjón Þórðarson, vitnaði í fundinn, sem haldinn var hjá Farmanna- og fiskimannasambandinu. Það var búið að segja honum, að á þessum fundi var enginn fulltrúi frá smábátaútveginum hér við Faxaflóa, allt saman fínir lordar á varðskipum og stórum togurum.

Hv. þm. hélt því fram, að það væri verið að fara með togarana inn í fjörðinn. Hefur hann ekki skoðað kort? Hvar hafa þessir menn verið? Það er hvergi farið inn í fjörðinn, þetta er langt fyrir utan fjörðinn, og eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, var sniðið af okkar upphaflegu hugmyndum í þessum efnum. Það er ekki farið lengra núna að norðan en sem svarar 65° 05', í staðinn fyrir að við höfðum hugmyndir um að rýmka fyrir togurunum alla leið vestur að Bjargtöngum. Ég get ekki séð, að þeir hafi neitt meiri rétt til að veiða í Kolluálnum, sem gera út frá Breiðafirði, heldur en þeir, sem fiska í troll þar fyrir utan.

Þessi hv. þm. eyddi í það nokkrum tíma að tala um einhverja almenna reglu Um 12 mílur fyrir togarana, eins og hún hefði verið. Ég er hræddur um, að þessi almenna regla sé alls ekki í frv., eins og það lítur út núna. (FÞ: Lestu grg. með frv.) Hv. þm. þarf ekki að benda mér á að kynna mér þetta frv., ég er búinn að gera það og það miklu betur en hann. En ég vil benda hv. þm. á, að fyrir Suðurlandi öllu er farið inn að 6 mílum, auk þess er farið á Selvogsbankanum inn að 4 mílum frá grunnlínum og út af Faxaflóanum norður fyrir Kolluálinn sömuleiðis í okkar till. og í frv. að 6 mílum.

Ég veit, að það er alveg þýðingarlaust að fara að rekja nokkur rök eða ætlast til, að þessir herrar, hv. þm. af Vesturlandi, taki yfirleitt nokkrum sönsum eða geti komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut. Það hefur reynslan sýnt í samskiptum við Vestlendingana, bæði þm. og aðra.

Ég vil að lokum aðeins minnast á till. Sverris Hermannssonar, sem mér finnst ekki vera merkilegar. Sú fyrri er um, að Fiskifélagið skuli tekið inn í 10 gr. með Hafrannsóknastofnuninni. En ég vil benda hv. þm. Sverri Hermannssyni á það, að í lok 10. gr. segir, að togveiðiheimildir samkv. tölul. nr. 1–8 skuli jafnan vera tímabundnar og auk umsagnar Hafrannsóknastofnunarinnar skuli ráðh. leita umsagnar Fiskifélags Íslands eða annarra aðila, þegar honum þyki ástæða til, þannig að þetta atriði er í rauninni þegar í frv.