20.12.1973
Neðri deild: 51. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1685 í B-deild Alþingistíðinda. (1570)

Umræður utan dagskrár

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Það liggur nú ljóst fyrir, að hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið að taka út af dagskrá tollskrárfrv. það, sem samþykkt hafði verið í Ed. Ástæðan er auðvitað sú, að þetta tollskrárfrv., eins og það er úr garði gert, hefur bersýnilega ekki þingfylgi í hv. Nd. Eins og þm. er kunnugt og vita gjörla, mun vera alger samstaða meðal allra þm. í öllum flokkum, að tollalækkanir, eins og gert var ráð fyrir í frv., eru sjálfsagðar og meira að segja bráðnauðsynlegar. Hins vegar hafði ríkisstj. þann háttinn á að smeygja inn í þetta frv. heimildarákvæði um hækkun söluskatts um 1%. M. ö. o.: hún ætlaði svo að segja inn um bakdyrnar að hækka álögur á almenning.

Með þessu er einnig sýnt, að ríkisstj. virðist ekki hafa vilja til að standa við þá samninga um tollalækkun, sem fyrir liggja við EFTA. En það, sem er e. t. v. mergurinn málsins, og það alvarlegasta er það, að núv. ríkisstj. hefur ekki meirihlutafylgi lengur í hv. Nd. Hún getur ekki rekið þá stefnu í landsmálum, sem hún kýs. Hún getur ekki tekist á við þann vanda í efnahagsmálum, sem nú blasir við, og þess vegna hlýtur að vakna sú spurning, hversu lengi þessi stjórn hyggist halda um stjórnvölinn.

Mín skoðun er sú, að samkvæmt venjulegum þingræðisreglum eigi þessi stjórn að fara frá, annað væri að sjálfsögðu valdníðsla, enda mun raunin verða sú, að ef stjórnin situr, þá tærist hún smám saman innan frá, ef hún getur gert það fremur en orðið er, og þannig mun upplausnin verða alger eftir mjög skamman tíma. Frá öllum sjónarmiðum séð er æskilegast og jafnframt þingræðisleg skylda þessarar ríkisstj. að segja af sér.

Ég vil spyrja hæstv. forsrh., hvort hann telji kleift að takast á við þann gífurlega vanda, sem fram undan er í efnahagsmálum, og hafa ekkert bolmagn til þess að geta ráðið ferðinni eða gert þær úrbætur, sem hann og hans stjórn telja æskilegar og nauðsynlegar. Er þjóðinni fyrir bestu, að stjórn, sem getur ekki stjórnað málunum, sitji áfram, eða á stjórn að sitja setunnar vegna eingöngu? Þetta er mergurinn málsins. Þess vegna vil ég vænta þess, að hæstv. forsrh. skýri hv. þd. frá því, hvort hann telji undir núverandi kringumstæðum rétt, að núv. stjórn sitji áfram.