21.12.1973
Sameinað þing: 43. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1689 í B-deild Alþingistíðinda. (1582)

Varamenn taka þingsæti

Forseti (Eysteinn Jónsson):

Mér hefur borist svo hljóðandi bréf:

„Reykjavík, 17. jan. 1974.

Þorvaldur Garðar Kristjánsson, ritari þingflokks sjálfstæðismanna, hefur í dag ritað á þessa leið:

„Samkv. beiðni Magnúsar Jónssonar, hv. 2. þm. Norðurl. e., sem nú er sjúkur, leyfi ég mér með skírskotun til 138. gr. l. um kosningar til Alþ. að óska þess, að 1. varamaður hans, Halldór Blöndal kennari, taki á meðan sæti hans hér á Alþ.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt.

Ásgeir Bjarnason,

forseti Ed.

Halldór Blöndal hefur áður setið þingbekk á þessu þingi og þarf því eigi að skoða kjörbréf hans, og býð ég hann velkominn til starfsins.

Þá hefur borist svo hljóðandi bréf:

Reykjavík, 17. jan. 1974.

Helgi F. Seljan, 6. landsk. þm., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Þar sem ég vegna veikinda mun ekki geta sótt þingfundi á næstunni, leyfi ég mér að biðja um fjarvistarleyfi og með skírskotun til 138. gr. l. um kosningar til Alþingis að óska þess, að 1. varamaður landsk. þm. Alþb., Stefán Jónsson kennari, taki sæti á Alþ. í forföllum mínum.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt.

Ásgeir Bjarnason,

forseti Ed.

Stefán Jónsson hefur sömuleiðis setið á þingi á þessu kjörtímabili, og býð ég hann velkominn til starfa.

Þá hefur enn fremur borist svo hljóðandi bréf: „Reykjavík, 21. jan. 1974.

Þorvaldur Garðar Kristjánsson, ritari þingflokks sjálfstæðismanna, hefur ritað mér á þessa leið :

„Samkv. beiðni Gunnars Gíslasonar, 2. þm. Norðurl. v., sem nú er forfallaður vegna vanheilsu, leyfi ég mér með skírskotun til 138. gr. l. um kosningar til Alþ. að óska þess, að 1. varamaður hans, Eyjólfur Konráð Jónsson ritstjóri, taki á meðan sæti hans á Alþingi.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt.

Gils Guðmundsson,

forseti Nd.

Eyjólfur Konráð Jónsson hefur setið þingbekk á þessu kjörtímabili og kjörbréf hans verið samþykkt, og býð ég hann velkominn til starfs.