21.01.1974
Efri deild: 48. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

169. mál, námslán og námsstyrkir

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Þegar breyting var gerð á l. um námslán og námsstyrki vorið 1972, var m. a. samþ. bráðabirgðaákvæði á þá leið, að menntmrh. skuli beita sér fyrir endurskoðun þeirra l. og að því skuli stefnt, að henni sé lokið, áður en þing komi saman haustið 1972.

Ekki varð af því, að þessi endurskoðun ætti sér stað á þeim tímafresti, sem þarna var bent á. En n. var sett til að gegna þessu endurskoðunarstarfi í okt. 1972. Form. hennar var skipaður Árni Gunnarsson deildarstjóri í menntmrn., en aðrir nm. Gunnar Vagnsson form. stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, Þorsteinn Vilhjálmsson lektor og Stefán Pálsson starfsmannastjóri.

Þessi n. tók þegar til starfa og ákvað í upphafi að óska eftir því, að heimilað yrði, að hún kallaði sér til ráðuneytis fulltrúa samtaka þeirra námsmanna, sem njóta fyrirgreiðslu af fé úr Lánasjóði íslenskra námsmanna. Það var heimilað, og urðu námsmannasamtök við því að tilnefna slíka fulltrúa, sem fylgdust með starfi n. og höfðu tækifæri til að láta í ljós sjónarmið sín og umbjóðenda sinna.

Nefndin hefur síðan skilað því frv., sem hér er lagt fyrir, óbreytt eins og hún gekk frá því, að undanskildu einu atriði, sem varðar vaxtakjör af námslánum og grein verður gerð fyrir, þegar þar að kemur í þessari framsögu.

Hv. alþm. er fullkunnugt um, hversu mjög fjárveitingar til aðstoðar við námsmenn hafa aukist ár frá ári og einna örast hin síðustu ár. Er ljóst, að með vaxandi reynslu af störfum Lánasjóðs íslenskra námsmanna eru vaxandi möguleikar á að búa svo um hnútana, að þetta fjármagn komi að sem mestu gagni, og jafnframt ber nauðsyn til að sjá um, að námsaðstoðin komi þar niður, sem til er ætlast.

Enn fremur er alþm. um það kunnugt, að töluverð ásókn hefur verið af hálfu þeirra námsmannahópa, sem starfað hafa utan kerfis lánasjóðsins, að komast einnig innan vébanda hans og verða aðnjótandi þeirra lána og styrkja, sem þar er um að ræða.

Tvö meginsjónarmið sem n., sem endurskoðaði l., þurfti að taka til greina í starfi sínu, voru því, hversu lánveitingum og styrkveitingum af sjóðsins hálfu bæri að haga, og sömuleiðis, hve stórt verksvið sjóðsins ætti að réttu lagi að vera, hvaða námsmannahópar ættu að eiga aðgang að fyrirgreiðslu Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Það er álit nm. og álit mitt, að n. hafi eftir vonum getað búið svo um hnúta með því frv., sem hér er lagt fyrir, að sem mest festa sé í úthlutun námsaðstoðarinnar og að matið á þörfum umsækjenda um námslán og námsstyrki sé sem nákvæmast.

Í núgildandi l. er verksvið Lánasjóðs íslenskra námsmanna afmarkað þannig, að upp eru taldar þær námsstofnanir, þar sem námsvist veitir nemendum rétt til að hljóta námsaðstoð af fé lánasjóðsins. N., sem þetta frv. samdi, ákvað að hverfa frá þessari framsetningu og hefur í staðinn sett í 1. gr. frv. almenna reglu um, að námsaðstoð af því fé, sem veitt er til Lánasjóðs íslenskra námsmanna, skuli heimil íslenskum námsmönnum til framhaldsnáms, sem krefst a. m. k. 13 ára undirbúnings. Hér er við það miðað, að meginreglan sé sú, að námsaðstoð af hálfu lánasjóðsins komi þá fyrst til greina, þegar lokið er framhaldsnámi, sem svarar til stúdentsprófs. En eins og kunnugt er, þá eru uppi ráðagerðir um, að með breyttu kennslufyrirkomulagi verði unnt að stytta námstíma til stúdentsprófs, og með tilliti til þess er tekið fram í þessari frumvarpsgrein, að verði breyting á lengd almenns undirbúningsnáms, sem krafist er til háskólanáms, sé heimilt að breyta með reglugerð því lágmarki, sem þarna er sett fram, þ. e. a. s. 13 ára undirbúningsnámi.

Að auki er í 2. lið 1. gr. gert ráð fyrir, að nemendum skóla, sem ekki falla undir þessa almennu skilgreiningu, en eiga nú þegar aðgang að lánasjóðnum, sé veitt sú aðstaða áfram með því að nefna beinlínis stýrimannaskóla, vélskóla og framhaldsdeild búnaðarskóla.

Einnig er heimildarákvæði um, að lán megi veita öðrum námsmönnum, sem hafa ekki lokið því 13 ára undirbúningsnámi, sem gert er ráð fyrir, ef þeir uppfylla þau skilyrði að hafa náð 20 ára aldri og geta sannanlega ekki stundað nám að öðrum kosti vegna fjárhagsástæðna.

Loks er tekið fram í 1. gr., að heimilt sé að veita aðstoð til náms erlendis, sem fullnægir ekki skilyrðum 1. málsgr. um lengd undirbúningsnáms, ef því námi er þannig háttað, að ekki er unnt að stunda hliðstætt nám hér á landi. Hér er í rauninni um það að ræða að færa í lög reglu, sem stjórn lánasjóðsins hefur fram að þessu fylgt í starfi sínu, þótt ekki séu um slíkt ótvíræð ákvæði í gildandi lögum.

Þegar að því kemur að ákveða, með hverjum hætti skuli dreifa því fjármagni, sem er til úthlutunar fyrir milligöngu lánasjóðs, er rétt að líta aðeins út fyrir starfssvið hans eitt sér. Fjárhagsaðstoð ríkisins við námsmenn er að meginframlagi í tveim hlutum: annars vegar sú, sem fer um Lánasjóð íslenskra námsmanna, en hins vegar sú, sem veitt er af þar til skipaðri nefnd af fjárveitingu, sem fer til jöfnunar á námskostnaði með tilliti til búsetu.

Í upphafi var þannig um hnúta búið, að framlög úr lánasjóðnum voru nær eingöngu til háskólastúdenta eða annarra námsmanna á hliðstæðu stigi, þó að námsmannahópurinn hafi smátt og smátt stækkað. Framlög til jöfnunar á námsaðstöðu eru hins vegar til þeirra, sem lokið hafa skyldunámi, en eru á framhaldsskólastiginu milli skyldunáms og háskóla. Fer ekki milli mála, að enn sem komið er, er aðstoðin við skjólstæðinga lánasjóðsins, þ. e. a. s. nemendur á háskólastigi og þá, sem þar næst ganga, mun ríflegri en aðstoðin við nemendur á framhaldsskólastiginu milli skyldunáms og háskóla.

Í umr. á opinberum vettvangi um þessi efni, um námsaðstoðina og námsaðstöðuna, hafa allháværar raddir heyrst frá námsmönnum, þar sem annars vegar er knúið fast á um það, að fjárhagsaðstoð af hálfu lánasjóðsins nemi því, sem kallað er full umframfjárþörf námsmanna, þ. e. a. s. muninum á reiknuðum námskostnaði annars vegar og aflafé námsmanna hins vegar. Sömuleiðis hafa ýmsir aðilar í námsmannahópnum gerst talsmenn þess, að stefnt verði alfarið að því, að upp verði tekin námslaun. Er nokkuð mismunandi, við hvað menn eiga með því. Sumir vilja miða við námslaun allt frá því að skyldunámi lýkur og þangað til sérnáminu, sem um er að ræða, er lokið.

Ég vil fyrir mitt leyti gera grein fyrir afstöðu minni til þessara hugmynda.

Það er þá að segja um kröfuna um, að fullnægt sé fyllilega umframfjárþörfinni margnefndu, að ég tel, að ekki sé verjandi að fullnægja algerlega fjárþörf þess hópsins, sem lengra er kominn á námsbrautinni, meðan óumdeilt er, að miklu lakar er gert við þann hópinn, sem er á leiðinni frá skyldunámi að háskólastigi. Þar verður mun meiri jöfnuður á að komast en enn hefur tekist, áður en hægt er að ræða það í alvöru að mínum dómi, hvort réttmætt og fært sé að veita hverjum og einum námsmanni á háskólastigi þá fullnaðarúrlausn, sem nemur umframfjárþörfinni. Hvað hugmyndina um námslaun snertir, þá er ég fyrir mitt leyti henni mótfallinn. Ég tel, að námslaun mundu fyrr eða síðar leiða til þess, að ríkisvaldið, sem komið væri með námsmannahópinn alfarið á laun hjá sér, mundi gerast allt of afskiptasamt um starfsval, starfssvið og námsmarkmið þess hóps, sem þar með væri kominn á laun hjá ríkinu. Ég tel að heppilegra sé það fyrirkomulag, sem hér ríkir og ríkir í þeim löndum, sem búa við svipað fyrirkomulag á skólakerfi og launakerfi og við, að ríkisvaldið veiti námsmönnum á framhaldsskólastigi verulega fyrirgreiðslu og aðstoð, en þeir séu sem frjálsastir að námsvali og starfsvali. Ég tel ekki heppilegt, hvorki frá sjónarmiði ríkisins né því síður frá sjónarmiði námsmannanna, að farið verði að fella námsval manna og starfsval að námi loknu í mjög rígbundið ríkiskerfi, eins og námslaunafyrirkomulagið býður heim að mínum dómi. Slíks eru og dæmi. Námslaun eru greidd í sumum löndum, en þá fylgja jafnan, þar sem ég hef spurnir af, allstrangar kvaðir um, að ríkisvaldið geti skipað mönnum á námsbrautir, eftir því sem það reiknar sínar þarfir, og síðan falið þeim að námi loknu ákveðin störf á ákveðnum stöðum, án þess að einstaklingurinn eigi mikið val um, hvort hann tekur því boði eða ekki.

Þetta vil ég segja almennt um þau grundvallarsjónarmið, sem ég tel, að mest hafi gætt í umr. um þessi mál.

Þá skal vikið að því fyrirkomulagi, sem lagt er til í frv. Þar er um að ræða mjög verulega breytingu frá þeim starfsháttum, sem hingað til hafa verið viðhafðir af hálfu lánasjóðs. Þeir eru á þann veg, að mikill meiri hluti námsaðstoðarinnar er veittur sem lán, en aðeins tiltölulega lítill hluti veittur í formi óafturkræfra styrkja, og er þar aðallega um að ræða ferðastyrki til þeirra námsmanna, sem þurfa að fara á milli landa til að sækja námið, sem þeir stunda. Nú er lagt til, að styrkveitingar af fé lánasjóðs verði verulega auknar og þá samkvæmt þeirri reglu, sem tekin hefur verið upp með sérstakri fjárveitingu til jöfnunar á námsaðstöðu eftir búsetu, þ. e. a. s. að lánasjóðurinn úthluti þeim námsmönnum, sem hann á að þjóna, í formi styrkja því fjármagni, sem þarf til að jafna aðstöðu þeirra, sem verða að sækja nám fjarri heimili sínu, að þeir standi ekki lakar að vígi en þeir, sem geta sótt námið heiman frá sér. Því er lagt til í 5. gr., að lánasjóður veiti þeim námsmönnum styrki, sem nauðsynlega verða námsins vegna að vista sig utan lögheimilis síns og fjarri foreldrahúsum, og það skal gilda um námsmenn á vegum lánasjóðsins eins og námsmenn, sem njóta styrkja af því fé, sem veitt er til jöfnunar á námsaðstöðu. Þau skilyrði verða að vera fyrir hendi, að hliðstætt nám verði ekki stundað frá heimili umsækjanda. Tekið er fram í 5. gr., að við ákvörðun þessa styrks skuli höfð hliðsjón af þeim umframkostnaði, sem af þessum ástæðum leiðir, svo og skólagjöldum, ef þeim er til að dreifa, en eins og kunnugt er eru skólagjöld æðihá í ýmsum erlendum skólum. Fer það þó mjög eftir löndum og á sérstaklega við um hinn enskumælandi heim.

Síðan er gert ráð fyrir, að lánveitingar lánasjóðs verði tvenns konar, en ekki að lánin verði öll af sama tagi, eins og verið hefur. Í frv. er lánunum skipt í tvo flokka: A-lán og B-lán. Við ákvörðun A-láns skal tillit tekið til fjárhagsaðstöðu námsmanns, bæði tekna hans og eigna, og einnig höfð hliðsjón af fjárbag maka námsmannsins. Við ákvörðun B-lánsins skal þar að auki hafa hliðsjón af möguleikum umsækjenda til fjárhagsstuðningsins frá foreldrum eða fósturforeldrum, miðað við efnahag þeirra, nema aðstæður geri slíka hliðsjón óeðlilega. Þetta er það ákvæði frv., sem ég veit til, að a. m. k. nokkur hluti námsmanna lítur illu auga, sem sé að við ákvörðun B-lánanna skuli hliðsjón höfð af möguleikum foreldra til að styðja afkvæmi sitt til náms. Telja þeir, sem þessu eru andvígir, að það sé í fyllsta máta óeðlilegt, að fólk, sem er orðið fulltíða, gjarnan búið að stofna heimili, skuli að nokkru gert að eiga námsstuðning undir fjárframlögum foreldra.

Ég get ekki fallist á þessa skoðun. Það er tvímælalaust, að það er hin almenna regla á Íslandi og hefur verið, að nær allir foreldrar, sem eiga börn í námi, láti styrk, beinan fjárhagsstuðning eða óbeinan af hendi rakna við þau, á hvaða aldri sem þessi börn eru, ef geta foreldranna á annað borð leyfir slíkt. Ef ekkert tillit væri tekið til þessarar staðreyndar um mismunandi aðstöðu námsmanna eftir efnahag foreldranna við ákvörðun opinbers stuðnings til námsmanna, væri í raun og veru verið að gera hlut þeirra, sem eiga efnaða aðstandendur, allmiklu betri en aðstöðu þeirra, sem komnir eru af efnaminna fólki. Ég fyrir mitt leyti tel engin rök til að líta fram hjá þessari ríkjandi reglu um stuðning foreldra við börn sin í námi, þegar ríkisvaldið á að ákveða, hvernig skipt skuli fénu, sem það leggur fram til námsaðstoðar.

Í ákvæðum um vaxtakjör lána, greiðslukjör og lánveitingar er um að ræða verulegar breytingar frá ríkjandi reglum. Til að mynda er gert ráð fyrir, að vextir verði mismunandi af A-lánum og B-lánum. A-lánin eru í rauninni hin almennu lán, sem flestir og raunar allir umsækjendur, sem á annað borð koma til greina, eiga aðgang að. Gert er ráð fyrir, að vextir af þeim verði miðaðir við almenn innlánsvaxtakjör hanka. Hins vegar er gert ráð fyrir, að vextir af B-lánum, sem eru þau lán, sem aðeins ganga til þeirra, sem sýnt geta fram á þörf á að fá uppborna fulla umframfjárþörf við námið, séu 3% lægri en vextirnir af A-lánum. Sömuleiðis er gert ráð fyrir verulegri breytingu á endurgreiðslutíma námslána. Við það er miðað, að sérstakur greiðslusamningur verði gerður við hvern lánþega, og skal reglan vera sú, að greiðslutíminn fari eftir heildarskuldinni, þeir, sem skuldi tiltölulega lágar upphæðir, skuli greiða þær á skömmum tíma, en þar sem námsskuldirnar eru þyngri, skuli unnt að semja um mun lengri greiðslutíma, þ. e. a. s. allt að 20 árum frá því að nám var hafið, eins og reglan er nú. Í áliti n. er við það miðað, að lánin greiðist að meðaltali á 12 árum, frá því að greiðslur hefjast, en endurgreiðslutími geti lengst í tvo áratugi, eftir því sem lánin hækka eða tekjumöguleikar lántakenda þverra.

Í sérstökum kafla frv. eru ákvæði um þá námsfyrirgreiðslu, sem nefnist kandídatastyrkir, þ. e. styrkveitingar til námsmanna, sem lokið hafa háskólaprófum, en hyggja á enn meira nám, til doktorsprófs eða annarra æðri prófa. Fyrirkomulag þeirra er mjög svipað því, sem nú ríkir. En ég vil taka fram, að uppi eru raddir um, að ástæða sé til að líta á þessar styrkveitingar í nánu samhengi við styrki og starfsemi Vísindasjóðs, sem styrkir námsmenn á svipuðu námsstigi og kandídatastyrkirnir ná til. Ég held, að allir aðilar séu sammála um, bæði þeir, sem fjalla um mál lánasjóðsins og Vísindasjóðs, að það eigi fullan rétt á sér, að litið sé á starfsemi beggja aðila á þessu sviði í samhengi, þótt ég skuli ekki fortaka, að nokkur skoðanamunur sé um, hver sé æskileg niðurstaða af þeirri athugun eða endurskoðun. Ég vil því ekki fyrir það girða, að á síðasta stigi þessa máls beri ég fram till. um breytingar á því fyrirkomulagi, sem hér er lagt til um kandídatastyrkina. En ég vildi ekki láta það, sem óathugað er í því efni, verða til þess að tefja meginefni málsins, sem er hin almenna námsaðstoð lánasjóðsins.

Síðan eru í frv. ýmiss ákvæði um stjórn og störf lánasjóðsins, sem öll miða að því að koma sem mestri festu á starfshætti. T. a. m. eru ákvæði um könnun, sem lánasjóðsstjórn skal skylt að gera á námskostnaði heima og erlendis, um ráðningu starfsfólks lánasjóðs og að skipunartími allra stjórnarmanna í lánasjóðsstjórn sé samræmdur, en hann hefur verið mismunandi hingað til. Öll beinast þessi ákvæði að því, að eftirlit og könnun á þeim atriðum, som leggja verður til grundvallar við úthlutun námslána og námsstyrkja, sé sem nákvæmast og traustast. Er þetta eðlilegt og nauðsynlegt. Þegar þess er gætt, hversu háar fjárhæðir það eru, sem lánasjóðurinn veitir, er ekki verjandi annað en að allt sé gert, sem unnt er, til þess að sjá um, að hin opinbera námsaðstoð, hvort sem er í formi styrkja eða lána, komi sem réttlátast niður. Þessi hlýtur að vera krafa skattborgarans, sem stendur straum af þessari fyrirgreiðslu, og það hlýtur einnig að vera krafa námsmanna, að þeir sitji allir við sama borð hvað opinbera aðstoð snertir.

Ég legg til. herra forseti, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. menntmn.