21.01.1974
Efri deild: 48. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1696 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

169. mál, námslán og námsstyrkir

Jón Árnason:

Herra forseti. Það var nokkuð tímanlega á yfirstandandi þingi, sem var látið í það skína af sumum úr stjórnarliðinu, að þess væri að vænta, að lagt yrði fram það frv. til laga um námslán og námsstyrki, sem hér er nú til 1. umr. Eigi að síður leið tíminn fram undir jólin, án þess að bólaði á þessu frv., og með tilliti til þess, hvað dráttur var orðinn mikill á því, að mál þetta kæmi fyrir þingið, flutti ég á þskj. 178 frv. til l. um breyt. á lögunum um námslán og námsstyrki. Frv. var flutt með sérstöku tilliti til þess, að ákveðin menntastofnun, sem ekki hefur notið styrks eða námslána úr sjóðnum, gæti komist undir ákvæði laganna, og eins og kom fram í grg. með frv., var sérstaklega að því hugað að veita nemendum í Fiskiðnskóla Íslands umræddan rétt.

Nokkru eftir að ég hafði flutt þetta frv., nokkrum dögum síðar, flutti hæstv. sjútvrh. frv. til l. um breyt, á lögum nr. 7 frá 31. mars 1967, um námslán og námsstyrki. Það frv. var, mátti segja, að efni til nákvæmlega það sama og ég hafði flutt, ætlunin að bæta þar við nemendum við fiskiðnskólann. En orðalag 1. gr. þess frv., sem ég flutti, var almennara eðlis. Ég taldi, að rétt væri að hafa orðalagið á þann hátt, að ekki þyrfti að flytja frv. um breyt. á þessum lögum í hvert skipti sem um var að ræða nýja kennslustofnun, sem svipað stæði á um og þær námsstofnanir, sem námslán gátu fengið samkvæmt eldri lögum, og einnig fannst mér eðlilegt, að orðalagið væri þannig, að það ætti jafnt við um innlendar og erlendar kennslustofnanir.

Varðandi frv., sem hér liggur fyrir, finnst mér að það vanti á, að þar séu a. m. k. skýr ákvæði um, að þessi kennslustofnun, sem hæði ég og hæstv. sjútvrh, höfðum í huga, þeir nemendur, sem þar um ræðir, geti fallið undir ákvæði 1. gr. frv., sem hér liggur nú fyrir, nema því aðeins að nemendurnir væru búnir að ná 20 ára aldri og gætu sérstaklega sannað, að þeir hefðu brýna þörf fyrir, að fá umrætt lán. Hér segir, með leyfi forseta í 3. tölulið:

„Lánasjóði er heimilt að veita lán öðrum námsmönnum, sem náð hafa 20 ára aldri og geta sannanlega ekki stundað nám sitt að öðrum kosti vegna fjárhagsaðstæðna.“

Ég vil fara fram á, að sú hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, líti á frv. mitt, sem hér liggur fyrir, þegar hún tekur þetta mál til afgreiðslu, og geri þær leiðréttingar, sem nauðsynlegar eru á þessu frv., til þess að sérstakar sannanir, sem þarf að leggja fram í þessu tilfelli varðandi það, sem ég las hér áðan, þurfi ekki til að koma. Ég vil líka segja í sambandi við 20 ára ákvæðið, sem þarna er, að mér finnst það ekki ná neinni átt. Við vitum, að nemendur við gagnfræðaskóla ljúka námi almennt, þegar þeir eru 17 ára eða um það bil, og þá snúa þeir sér oft að þessum skólum, sem tilheyra atvinnulífinu. Við vitum einnig, að það er oft svo um þá, sem stunda nám við þessa skóla, að þeir eru búnir að stofna heimili, þegar þeir fara í skólann, og segir sig sjálft, að þeim veitir ekki af frekar en öðrum að eiga aðgang að slíkum lánum eins og hér er um að ræða, á meðan þeir stunda framhaldsnám.

Ég skal svo ekki á þessu stigi orðlengja frekar um þetta frv. Ég taldi rétt að vekja athygli á þessu strax við 1. umr. málsins. Ég á ekki sæti í þeirri n., sem fær málið til meðferðar, en vænti þess, að hún taki til sérstakrar athugunar það, sem ég hef hér að vikið.