21.01.1974
Efri deild: 48. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

169. mál, námslán og námsstyrkir

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég á að vísu sæti í þeirri n., sem væntanlega mun fá þetta frv. til meðferðar, en þó vil ég nú þegar við 1. umr. drepa á tvö atriði í frv., sem mér þætti gott að fá álit hæstv. menntmrh. á, í öðru tilfellinu túlkun eins ákvæðis og í hinu tilfellinu er um að ræða, hvernig meta skuli aðstöðu manna til að endurgreiða lánin.

Það er þá í fyrsta lagi, að í 6. gr. frv., 2. málsgr., er í niðurlagi rætt um möguleika foreldra eða fósturforeldra til að styrkja námsmann til náms, og skal hafa hliðsjón af þessum möguleikum og miða við efnahag foreldra eða fósturforeldra, nema aðstæður geri slíka hliðsjón óeðlilega. Um þetta atriði langar mig til að spyrja, hvort það mundi vera talið óeðlilegt að viðhafa slíka hliðsjón, þegar um er að ræða gifta námsmenn. Við vitum, hvað það er orðið altítt nú, að fólk sé gift, búið að stofna heimili, eignast börn, löngu áður en það lýkur framhaldsnámi, og mér þætti gott að fá upplýst, hvort í slíkum tilvikum eigi enn að miða við stuðning foreldra eða fósturforeldra, þegar fólk er e. t. v. búið að vera gift í mörg ár með heimili og börn.

Síðara atriðið, sem ég vildi gjarnan hreyfa, er 1. málsgr. í 7, gr. frv., þar sem talað er um vexti af lánunum. Þar segir, að vextir af A-lánum, þeim almennu lánum, sem virðist, að allir eigi aðgang að, skuli vera jafnháir almennum innlánsvöxtum banka á hverjum tíma, en vextir af viðbótarlánunum, B-lánunum, skuli vera 3% lægri. Hvað sem má segja um upphæð vaxtanna og samanburð við þær reglur, sem gilda og gilt hafa, þá skal ég ekki fara út í það atriði að svo stöddu, en fljótt á litið sýnist mér, að það væri eðlilegra að miða vextina af viðbótarlánunum við það hvaða möguleika námsmaðurinn hefur til tekjuöflunar, eftir að hann hefur lokið námi. Við vitum, að nám eins og t. d. læknisnám gefur mönnum möguleika til að hafa allháar tekjur, þegar þeir hafa lokið námi, og þá sýnist eðlilegt, að miðað sé frekar við tekjumöguleikana, þegar um er að ræða vexti af viðbótarlánum. Það má segja sem svo, að það megi jafna þetta nokkuð með því að stytta greiðslutímann, fækka þeim árum, sem skuldin á að greiðast á. En ég vil gjarnan heyra rökstuðning fyrir þessum mismun á vöxtum af viðbótarlánunum miðað við A-lánin eða almennu lánin. Mér sýnist, að þetta hljóti nokkuð að velta á því, hvaða tekjumöguleika menn hafa, þegar þeir hafa lokið náminu, en ekki, hvaða möguleika foreldrar þeirra eða fósturforeldrar hafa haft til að styrkja þá til náms, meðan á náminu stóð.