21.01.1974
Efri deild: 48. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

169. mál, námslán og námsstyrkir

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. beindi til mín spurningum um tvö atriði frv., og mun ég leitast við að gera grein fyrir afstöðu minni til þeirra.

Fyrsta atriðið var, hvort það væri minn skilningur, að heimilisstofnun eða hjónaband námsmanns væri ein af þeim aðstæðum, sem átt væri við, þegar rætt væri í niðurlagi 6. gr., um þær aðstæður, sem geri hliðsjón til möguleika umsækjanda til fjárhagsstuðnings frá foreldrum eða fósturforeldrum óeðlilega. Það er minn skilningur og ég tel skilningur n., sem frv. samdi, og það mun koma fram í aths., ef ég man rétt, að hjúskapur námsmanns, heimilisstofnun, teljist ekki til þeirra aðstæðna, sem geri óeðlilegt að gera ráð fyrir fjárhagsstuðningi foreldra eða fósturforeldra, sem svo eru efnum búnir. Aðstæður, er gera slíka hliðsjón óeðlilega, verða sambandið milli námsmanna og þessara aðstandenda. Það getur verið með þeim hætti, t. a. m. ef foreldrar reyna að hafa óeðlilega rík áhrif á það, hvaða nám námsmaður velur, og nota fjárhagsaðstöðu sína til þess, setja honum kosti, í hvaða nám hann færi. Þetta er hugsanlegt dæmi, sem ég fyrir mitt leyti tel gera hliðsjón af efnahag foreldra óeðlilega.

Þá var hitt atriðið um vaxtamuninn. Hv. þm. taldi fyrir sitt leyti, að eðlilegast hefði verið að hafa vextina af B-lánunum, viðbótarlánunum, sem þeir eiga að njóta, sem ekki hafa möguleika á fjárhagsstuðningi aðstandenda, breytilega eftir því, hvernig tekjumöguleikar hlutaðeigandi námsmanna séu að námi loknu. Til þessa er tillit tekið í öðru atriði, sem varðar lánakjörin, ekki vöxtunum, sem er gert ráð fyrir að séu á hverjum tíma 3% lægri en almennir innlánsvextir, heldur, eins og ég held ég hafi tekið fram í framsöguræðu, er það greiðslutíminn, sem ætlast er til að geti verið mismunandi, þegar um hann er samið milli lánasjóðs og námsmanns. Tekið skal tillit til þess, hversu mikil heildargreiðslubyrðin er, en hún getur verið mjög tilfinnanleg eftir langt nám, og hins vegar þess, hverjir tekjumöguleikar námsmannsins eru, eftir að hann tekur til starfa. Þarna er sem sagt leitast við að gefa svigrúm til þess að taka tillit til einstaklingsbundinna aðstæðna. Hins vegar hefur ekki verið talið rétt að hafa vaxtakjörin sjálf breytilegri en þetta, að þau séu af viðbótarlánunum alltaf 3% lægri en af almennu lánunum.