21.01.1974
Neðri deild: 52. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

168. mál, lífeyrissjóður sjómanna

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir að flytja þetta frv. nú, því að það er rétt, sem hann segir, að það er orðið mjög brýnt að fá fram breytingar á lögum um þennan lífeyrissjóð. Eins og hann skýrði frá í máli sínu, er orðið óviðunandi fyrir þá gömlu menn, sem lífeyri taka úr sjóðnum, að vera jafnframt á eftir í lífeyrisgreiðslum og lífeyrisþegar annarra sambærilegra sjóða, sem þó eru miklu yngri að árum og verr stæðir fjárhagslega en þessi fjárhagslega sterki sjóður.

Ég hef nú ekki séð þær till., sem hæstv. ráðh. var að segja frá, að borist hefðu frá yfirmannasamtökunum. Ég hef hins vegar heyrt ávæning af, að þeir legðu mikið upp úr því, að hægt yrði að verðtryggja frekar lífeyrisgreiðslur sjóðsins en fyrirhugað er með frv. þessu, en vil samt halda því fram, að það spor, sem hér er stigið, sé bæði markvert eða þýðingarmikið fyrir þá, sem lífeyrisgreiðslurnar eiga að hljóta.

En það eru fleiri atriði, sem að hefur verið fundið í lögum þessum og þyrfti að athuga um leið. Ég held, að flestir þm. hafi fengið bréf frá Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda, þar sem þeir kvarta mjög undan því óréttlæti, sem þeim er búið miðað við útgerðarmenn hinna smærri skipa, vélbátanna, en lífeyrisgreiðslur eru þar samningsbundnar af ákvæðum, föstum upphæðum, nánast af kauptryggingu viðkomandi manna, en á togurunum eins og á farskipunum eru greiðslur beggja aðila, bæði launþegans og útgerðarmannsins, af heildartekjunum. Þarna er auðvitað um mikinn mun að ræða. Nú hef ég ekki getað fallist á þá skoðun Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda, að það ætti að flytja þessar lífeyrisgreiðslur allar niður á flöt þess, sem er greitt af á vélbátunum. Hins vegar verð ég að viðurkenna, að það er mikið óréttlæti í því fólgið að mismuna þessum tveimur útgerðarformum á þennan veg. Þarna verður að finnast einhver lausn á og samræma þessar greiðslur af öllum þeim mönnum, til sjóðsins borga. Ég held hins vegar, að þessar greiðslur séu allt of lágar af þeim mönnum, sem á bátaflotanum eru. Við getum t. d. litið á þær greiðslur, sem ætlaðar eru af skipstjóra. Þær eiga að miðast við mánaðarlaun, sem eru rúmar 40 þús. kr. Sjá allir, að þetta nær ekki nokkurri átt og er ekki í nokkru samræmi við þær greiðslur, sem ættu að vera af þessum mönnum til sjóðsins, enda segir í frv. þessu, að þessir menn séu á sínum bestu árum, þegar þeir hafa mestu og hæstu tekjurnar, að vinna sér inn stig, sem komi þeim til góða, þegar þeir fara að taka lífeyri úr sjóðnum. Ég vil beina því til n., að þetta atriði verði athugað mjög ítarlega.

Enn fremur finnst mér rétt, að athugað verði í síðustu mgr. 2. gr., að þar hefur nokkuð verið hert á ákvæðum, sem eru í gildandi lögum. Ég minnist þess, að fyrir nokkrum árum flutti ég breyt. við þessi lög, það frv. var samþ., og þar voru ákvæði um, að sjómenn, sem í land færu til að vinna að ýmsum hagsmunamálum fyrir sjómenn, sem störfuðu á skipunum, gætu átt áfram aðild að sjóðnum. Þetta er hert nú og aðeins talað um þá, sem standa að samningum um kaup og kjör sjómanna. En það vita allir, að það er á mörgum öðrum sviðum, sem samtök, ekki aðeins sjómanna, heldur og launþegastéttanna allra, hafa orðið að ráða til sín menn, bæði sérfræðinga og svo menn úr eigin röðum til þess að gegna margs konar störfum, allt frá því að reka listasafn og vinna að skólum samtakanna og einnig að öðrum stofnunum og hagsmunum þeirra margvíslegum. Þetta atriði vildi ég einnig biðja hv. n. að taka til athugunar.

Eins og hæstv. ráðh. tók fram, er ein meginbreytingin sú, að reynt er að koma nokkuð á móti ósk bæði þessara sjóðfélaga og annarra um leið, fitjað upp á leið til að koma á móti óskum annarra lífeyrisþega hér á landi um verðtryggingu sins lífeyris. Það kemur fram í grg. með frv., að það er gífurlegt hagsmunaatriði, sem þarna er um að ræða. Þegar við horfum á þær upphæðir, sem um er getið, að t.d. opinberum starfsmönnum eru greiddar úr sameiginlegum sjóði landsmanna til þess að tryggja þeim lífeyri samkv. verðlagi hvers tíma, þá er hér um gífurlega miklar upphæðir að ræða og hlýtur að teljast einn aðalþátturinn í því að gera störf þessa fólks og atvinnu þannig, að það geti verið ánægt hjá sínum atvinnurekanda, ríkinu. En þessi krafa hefur komið fram frá mörgum öðrum launþegahópum, að þeir fái við þetta að búa einnig, að hið opinbera taki þátt í þessum greiðslum einnig til þeirra sjóða. En ég er hræddur um, að þegar það mál sé skoðað niður í kjölinn, hljóti allir að viðurkenna, að það sé nær óviðráðanlegt fyrir ríkissjóð. Hins vegar er verið að reyna að koma þarna nokkuð á móti þessari ósk, og sjálfsagt er að reyna það hjá þessum sjóði, því að hann er líklega einn sá sterkasti fjárhagslega af þessum frjálsu lífeyrissjóðum, og það er gert með því stigakerfi, sem þarna er skýrt. Þá eru biðtímaákvæðin stytt mjög og þeim breytt, og er líka geysilega þýðingarmikið fyrir þá, sem að sjóðnum standa.

Ég vildi aðeins nú við 1. umr. koma þessum aths. fram og beina þeim til hv. n., sem fær málið til athugunar, að hún taki þessar ábendingar mínar til velviljaðrar athugunar um leið og þær aðrar, sem fram koma eða hafa komið, eins og boðað hefur verið.