21.01.1974
Neðri deild: 52. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

177. mál, undirbúningsfélag fiskkassaverksmiðju

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Frv. til l. um stofnun undirbúningsfélags að fiskkassaverksmiðju hefur verið í undirbúningi í iðnrn. nú um alllangt skeið og um það mál hefur verið fjallað hér á landi um æðimörg ár. Hér er áreiðanlega um að ræða mál, sem er bæði mikilvægt fyrir sjávarútveg okkar og iðnað, en það er á mörgum sviðum mjög mikilvægt að tengja saman hagsmuni þessara tveggja atvinnugreina.

Það er kunnara en svo, að um það þurfi að fara mörgum orðum, að innlendur markaður fyrir iðnaðarvörur er yfirleitt lítill, ef borið er saman við markaði hjá hinum stærri þjóðum. Það er aðeins á fáum sviðum í íslensku athafnalífi, þar sem um er að ræða sambærilega markaði og gerist meðal stóru þjóðanna. Sjávarútvegur okkar er ein af þessum undantekningum. Þar er um að ræða tiltölulega stóran markað fyrir margs konar iðnaðarvörur, sem unnt ætti að vera að framleiða hér á landi og renna á þann hátt fleiri stoðum undir íslenskan iðnað samhliða því, að sjávarútveginum væri séð fyrir nauðsynlegri þjónustu. Hin nánu tengsl landsmanna allra við fiskveiðar ættu að verka hvetjandi á þróun nýrra lausna og nýrrar tækni, er stuðlað gæti að því, að hér risi upp öflugur útflutningsiðnaður tengdur bæði sjávarútveginum, iðnaðinum og þjóðinni allri til hagsældar.

Á undanförnum árum hefur meðferð á fiski oft verið til umr. hér á landi, og hafa þessar umr. verið óvenjulega miklar hin síðari ár, m. a. í sambandi við auknar kröfur um hreinlæti og vöruvöndun frá helstu viðskiptaþjóðum okkar. Í þessu sambandi hafa fiskkassar gjarnan verið nefndir. Sumarið 1969 var á vegum Fiskimálasjóðs, Ferskfiskeftirlitsins og Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna gerð tilraun með notkun fiskkassa um borð í vélskipinu Andvara frá Vestmannaeyjum. Þeir Hjalti Einarsson verkfræðingur, Kjartan B. Kristjánsson rekstrartæknifræðingur og Sigurður Haraldsson skólastjóri, höfðu með höndum framkvæmd tilraunarinnar. Hér fer á eftir tilvitnun úr skýrslu þeirra þremenninganna, með leyfi hæstv. forseta:

„Ferskur fiskur hefur, eins og kunnugt er, takmarkað geymsluþol og skemmist fljótt, sé ekki rétt með hann farið. Varðveisla hans, frá því að hann kemur í skip þar til hann er unnin í landi, er því nokkurt vandaverk, sérstaklega að sumarlagi. Fjölmargar tilraunir hafa farið fram á undanförnum áratugum til þess að kanna, hvernig auka megi geymsluþol fisksins, og hafa niðurstöður ávallt sýnt, að hann helst því lengur í vinnsluhæfu ástandi, því minna hnjaski sem hann verður fyrir og því fyrr og því betur sem hann er kældur. Sú meðferð á fiski, sem hér er algengust um borð í veiðiskipum, við löndun og í fiskmóttökuhúsum, er á ýmsan hátt ekki vel til þess fallin að varðveita hráefnisgæði, og kemur það oft fram í litlu geymsluþoli aflans og lélegri nýtingu hans í vinnslu.

Endurbætur á meðferð aflans hafa því mörg undanfarin ár verið ofarlega á dagskrá hjá hlutaðeigandi aðilum, og í því sambandi hefur oft verið bent á, að notkun fiskkassa sé ein af þeim leiðum, sem árangursríkust muni reynast. Ýmsir aðilar hafa reynt að innleiða notkun fiskkassa undir aflann, bæði í fiskiskipum og fiskvinnslustöðvum, en með takmörkuðum árangri. Þannig keypti Fiskimálasjóður árið 1960 nokkur hundruð álfiskkassa til landsins og fól Ferskfiskeftirlitinu að reyna að fá áhafnir fiskiskipa til að nota þá undir aflann. Tilraun þessi mistókst, þar sem enginn fékkst til að taka þessa kassa um borð í veiðiskip, og höfnuðu kassarnir víðs vegar í landi hjá fiskvinnslustöðvum, þar sem þeir hafa síðan verið við ýmiss konar notkun.

Á undanförnum 2–3 árum hefur skilningur á nauðsyn þessa máls farið mjög vaxandi, og ýmsar jákvæðar aðgerðir komu til framkvæmda. Í júlímánuði 1968 beittu t. d. Fiskiðja Sauðárkróks h. f., ásamt Útgerðarfélagi Skagfirðinga h. f. sér fyrir tilraunum með notkun fiskkassa, en stjórn hennar höfðu þeir Björgvin Ólafsson og Ívar Baldvinsson á hendi. Skýrsla um þessa tilraun var birt í Ægi 15. sept. það ár. Síðan á þorskvertíðinni 1969 hefur enn fremur vélbáturinn Þorgeir GK 73 oft lagt upp afla hjá Miðnesi h/f, Sandgerði, sem geymdur hefur verið í plastfiskkössum. Starfsmenn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna hafa fylgst með þessari tilraun. Jákvæður árangur fékkst af báðum þessum tilraunum, svo langt sem þær náðu.“ — Hér með er lokið tilvitnun í skýrslu þeirra þremenninganna, sem ég nefndi hér áðan.

Ýmsar ályktanir má draga af þeirri tilraun, sem gerð var með notkun fiskkassa í Vestmannaeyjum sumarið 1969. Niðurstöður þessarar tilraunar er að finna á við og dreif í skýrslu fiskkassanefndar, sem dreift var hér á þingi til hv. þm., um leið og þetta frv. var lagt fram skömmu fyrir jól. Þessar niðurstöður verða ekki endurteknar hér, en aðeins drepið á helstu kosti og ókosti við kassanotkun.

Aðalkostur við notkun fiskkassa, miðað við stíur, var hærri pakkanýting á kassafiski. Meira fékkst í neytendapakkningar, geymsluþolið var meira, rýrnun varð minni, gæði aflans urðu betri, þ. e. a. s. betra mat, tekjur af framleiðslunni urðu meiri og húsrými í móttöku notaðist betur. Aðalókosturinn við notkun fiskkassa, miðað við stíur, var meiri vinna og meiri stofnkostnaður, þar af leiðandi meiri rekstrarkostnaður. Aðalkostnaðaraukinn var tengdur löndun og þvotti á kössunum, og var hér um nokkrar upphæðir að ræða. Einnig má nefna, að fiskur í kössum tekur meira rúm í lest en fiskur í stíu. Fiskkassanefnd telur, að með markvissu og samstilltu átaki megi draga svo úr þessum ókostum, að a. m. k. sumra þeirra verði ekki vart að neinu verulegu marki. Raunar telur nefndin, að með hagræðingaraðgerðum megi koma á nýrri aðferð við meðferð á fiski, sem gjörbreyti núverandi vinnubrögðum, bæði til góðs fyrir hráefnið, sem unnið er úr, og þá menn, sem við sjávarútveg vinna.

Ljóst er, að hér er um mjög stórt og mikilvægt verkefni að ræða og einstakt tækifæri til að fá úr því skorið, hvers tvær stærstu atvinnugreinar okkar íslendinga, sjávarútvegur og iðnaður, eru megnugar, ef þær snúa sér í alvöru að því að vinna saman að ákveðnu viðfangsefni.

Þrátt fyrir þær tilraunir og umr. um kassa, sem ég hef áður getið um, sýnist sitt hverjum, og spurningunni um það, hvort íslenskur sjávarútvegur tæki upp fiskkassa við togveiðar, var lengi vel ósvarað. Á miðju ári 1972 tóku þessar línur þó að skýrast. Þá lá ljóst fyrir, að hluti nýju skuttogaranna mundi taka upp fiskkassa. Fyrir valinu urðu norskir 90 lítra kassar úr plasti.

Eins og fram kemur í aths. með frv., skipaði ég nefnd hinn 30. nóv. 1972 til þess að athuga þá möguleika, sem kynnu að felast í því fyrir íslenskan iðnað, ef notkun fiskkassa yrði veruleg hér á landi á næstunni. Verkefni nefndarinnar var í stærstum dráttum eftirfarandi:

1) Að kanna hugsanlega þörf útgerðarinnar fyrir fiskkassa.

2) Að gera frumathugun á því, hvort hagkvæmt geti talist að hefja hér á landi framleiðslu á fiskkössum.

3) Að gera áætlun um, hvernig best verði staðið að framkvæmd þessa máls.

Í n. voru skipaðir: Hörður Jónsson verkfræðingur, sem jafnframt var formaður n., Arnmundur Backman lögfræðingur, Bergur Sigurbjörnsson viðskiptafræðingur, Hjalti Einarsson verkfræðingur og Þorleifur Jónsson viðskiptafræðingur.

Nefndin skilaði skýrslu um starfsemi sína til rn. í apríl 1973, en var þá falið að halda áfram störfum og skilaði, eftir að hafa haft samráð og samvinnu við iðnrn. og sjútvrn., drögum að því frv., sem hér er lagt fram. Í skýrslu sinni leggur n. áherslu á eftirfarandi:

1) Fiskkassar leysa ekki allan vanda. Taka þarf upp nýtt kerfi í meðferð á fiski, þar sem kassar eru aðeins einn þátturinn.

2) Innlent fiskkassafyrirtæki tengt sjávarútvegi hefur betri aðstöðu til þess að leysa vandann en erlent plastkassafyrirtæki og mun frekar stuðla að þróun í tækni við meðferð á fiski hér á landi.

3) Fleiri hluti en fiskkassa er unnt að framleiða með sömu vélum og fiskkassa, svo sem flutningapalla, línubala og margt fleira.

Nefndin bendir og á, að líklegt megi telja, að markaður muni verða fyrir um 500 þús., fiskkassa, en að endurnýjunarþörf á ári sé um 15–20%. Þar sem hver kassi kostar innfluttur yfir 1000 kr. og fer raunar hækkandi, er um geysimikla fjárfestingu að ræða. Rétt er að geta þess, að ýmsar leiðir má fara til þess að áætla stærð markaðs fyrir fiskkassa, og er líklegt, að mörgum þyki 500 þús. kassar há tala, en á það skal bent, að á s. l. rúmu ári hafa verið fluttir inn um 150 þús. fiskkassar frá Noregi. Það má og nefna, að takist vel til með notkun þessara kassa, er líklegt, að jafnvel fleiri en togbátar taki upp fiskkassa. Kassanotkun við síld- og loðnuveiðar kemur til álita, fáist gott verð fyrir aflann. Geta má þess, að n. hefur leitað til Fiskifélags Íslands um athugun á markaði fyrir fiskkassa, og hefur stofnunin verið beðin að athuga nánar og gagnrýna, ef þörf þykir, markaðsspá n. Einnig hefur Fiskifélagið verið beðið að athuga, hve mikið vandamál aukin geymslurýmisþörf í lestum skipa vegna notkunar fiskkassa hefði í för með sér. Ekki liggur fyrir álit Fiskifélagsins um stærð markaðs, en hins vegar virðist ekki vera um að ræða veruleg vandamál samfara því, að fiskkassar nýta ekki lestarrýmið eins vel og þegar stíur eru notaðar. Er þá miðað við báta um eða yfir 200 lestir.

Nefndin telur, að rekstrargrundvöllur sé fyrir innlent fyrirtæki, er framleiddi fiskkassa. Stofukostnaður er áætlaður 85 millj. kr., fastur kostnaður um 30 millj. kr. og breytilegur kostnaður 70 millj. kr. Athuganir benda til þess, að framleiðsla á fiskkössum og öðrum hliðstæðum varningi, svo sem flutningapöllum, geti orðið vel arðbært fyrirtæki.

Rétt er, að það komi fram hér, að eitt innlent fyrirtæki, Plastiðjan Bjarg á Akureyri, hefur framleitt fiskkassa í tilraunaskyni, en vélakostur fyrirtækisins er þannig enn sem komið er, að ekki er unnt að framleiða á samkeppnishæfu verði mikinn fjölda af kössum. Tæplega kemur þó til álita að framleiða fiskkassa úr öðrum efnum en plasti, og er af þeim sökum bent á þýðingu þess, að framleiðandi í plastiðnaði með nokkra reynslu, þekkingu og hugmyndir í sambandi við framleiðslu fiskkassa sé eignaraðili að hugsanlegu fyrirtæki. Í aths. frv. og skýrslu n. er rætt um, hvaða kosti Plastiðjan Bjarg hafi upp á að bjóða í þessu sambandi. Litlu er þar við að bæta, en benda má sérstaklega á markmið fyrirtækisins, sem er að veita fötluðu fólki atvinnu og nýta þar með þýðingarmikið vinnuafl. Hægt væri að tíunda margt um gildi endurhæfingarstarfsemi úti á landsbyggðinni, bæði vegna byggðaþróunarsjónarmiða og eins sparnaðar fyrir ríkissjóð, en ekki verður farið út í það hér. Hins vegar má koma fram, að framleiðsla í svo miklum mæli sem hér um ræðir gæti orðið mikil lyftistöng og tryggt að verulegu leyti stöðugleika fyrir þessa starfsemi.

Þeir erlendir kassar, sem hingað hafa verið fluttir, hafa ýmsa ókosti, svo sem þá, að þeir eru of stuttir fyrir fisk veiddan við Suðurland, og einnig er ekki unnt að stafla þeim saman. Verði íslenskt fiskkassafyrirtæki að veruleika, mun verða reynt að bæta úr þessum göllum.

Til viðbótar því, sem fram kemur í frv. og aths. þess, svo og skýrslum n., er rétt að taka eftirfarandi fram:

Skýrsla n. er, eins og fram hefur komið, dagsett í apríl 1973. Ýmislegt hefur breyst síðan, svo sem verð á vélum og ýmsar kostnaðarstærðir. Engu að síður má telja líklegt, að heildarmyndin hafi ekki raskast mikið frá því, sem dregið er upp í skýrslunni, þar eð verð kassanna hefur breyst að sama skapi. Olíuskortur sá og sú spenna, sem nú ríkir í iðnaðarlöndunum, getur leitt til ýmiss konar erfiðleika. Mikið er rætt um það, að plasthráefni hafi hækkað í verði og séu sum hver ófáanleg. Í þessu sambandi má benda á, að vel geti svo farið, að auðveldara reynist að fá hráefni til framleiðslu á fiskkössum en að flytja inn tilbúna fiskkassa og því sjávarútveginum í hag að athuga þetta mál. ef hinir innfluttu 150 þús. kassar gefa rétta mynd af hugsanlegri þróun. Einnig má í þessu sambandi geta þess, að hráefnaframleiðandinn, sem Plastiðjan Bjarg er í sambandi við, hefur upplýst, að olíukreppan muni ekki breyta neinu um það, að hún geti fengið nægilegt hráefni til framleiðslunnar. Á það verður hins vegar að leggja áherslu, að það verður eitt af verkefnum hins nýja undirbúningsfélags, ef stofnað verður, að fá úr því skorið, hvort hér er hætta á ferðum eða ekki. Þá má og nefna, að afgreiðslufrestur á vélum er langur og því líklegt, að línurnar hafi skýrst nokkuð, áður en til endanlegrar ákvörðunar kemur.

Eins og fyrr segir, hefur um nokkurt skeið verið rætt mikið um fiskkassa og hugsanlega notkun þeirra hér á landi. Með frv. því um stofnun undirbúningsfélags fiskkassaverksmiðju, sem hér liggur fyrir, er gerð till. um að hefja þetta mikilvæga mál af umræðustigi yfir á stig raunhæfra athugana og aðgerða. Það, sem hér að framan hefur verið rakið, og þau gögn, sem þm. hafa í höndum, ættu að gera þeim ljóst, að þeir hafa nú tækifæri til að stuðla að þýðingarmikilli tilraun til að koma á nýjum vinnubrögðum í sjávarútvegi og efla um leið íslenskan iðnað. Það er samróma álit þeirra, sem um þetta mál hafa fjallað, að það þoli ekki mikla bið. Þess vegna vonast ég til, að það fái skjóta og góða meðferð þingsins.

Fyrirkomulag á undirbúningsfélagi þekkja menn. Það hafa tvívegis áður verið samþykkt lög um undirbúningsfélög af þessu tagi, í fyrra skiptið í sambandi við hugsanlega olíuhreinsunarstöð og í síðara skiptið í sambandi við þörungavinnslu á Vestfjörðum. Fyrri nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri tímabært að efna til olíuhreinsunarstöðvar hér, en hin síðari vann mjög rösklegt starf, sem hefur leitt til þess, að Alþ. samþykkti skömmu fyrir jól lög um þörungavinnslu á Vestfjörðum, eins og kunnugt er. Fyrirkomulag þess undirbúningsfélags, sem hér er gerð till. um, er af sama tagi, að öðru leyti en því, að hér er ekki mælt neitt fyrir um það, að ríkisvaldið þurfi að eiga meiri hluta í þessu undirbúningsfélagi, en hins vegar lögð sú skylda á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að slíkt félag skuli stofnað. Í því sambandi skiptir að sjálfsögðu mjög miklu máli, að takist að fá þar til samvinnu ekki aðeins það plastframleiðslufyrirtæki, sem ég gat um áðan, heldur einnig forustumenn í sjávarútvegi.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.