22.01.1974
Sameinað þing: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (1596)

Umræður utan dagskrár

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Eins og þingheimi er kunnugt, ber hæst nú í íslenskum þjóðmálum hin svokölluðu varnarmál. og kemur stefna núv. ríkisstj. í þeim málum fram í málefnasamningnum, þar sem meginatriðið er það, að varnarsamningurinn skuli vera endurskoðaður — tekinn til endurskoðunar eða uppsagnar í því skyni, að varnarliðið hverfi af landi brott í áföngum. Nú eru liðnir þeir sex mánuðir, sem ætlaðir eru samkv. samningnum til viðræðna við Bandaríkjamenn, en enn virðist ekki bóla á niðurstöðum í þessu efni. Seinagangurinn í þessu máli er afar óheppilegur, og hann kemur fram í því, að því virðist frestað æ ofan í æ að taka lokaviðræður við Bandaríkjamenn, og síðast í gær heyrði ég á skotspónum, að þeim fundi, sem ætlaður var með Íslendingum og Bandaríkjamönnum nú í vikunni, hefði verið frestað fram til mánaðamóta eða e. t. v. lengur, og óvíst sé, hvort þetta verði lokafrestunin. Þessi seinagangur veldur því, að málið allt verður miklu erfiðara viðfangs og óljóst, hvert stefnir.

Annað atriði kemur hér líka til. Það er sú hula, sem hvílir yfir öllu þessu máli, þannig að ég tala nú ekki um þm. eins og mig, og á það kannske við um alla þjóðina, henni er með öllu óljóst, hvert stefnir í þessu máli.

Þetta tvennt, seinagangurinn og hulan, veldur því að ala á ýfingum með þjóðinni, flokkadráttum, og ef svo heldur áfram sem horfir, þá má vel vera, að stjórnarflokkarnir reynist ekki þess megnugir að leysa þetta mál. eins og málefnasamningurinn segir til um. Þess vegna hef ég kvatt mér hljóðs utan dagskrár, og ber fram 4 fsp. til hæstv. utanrrh. í þeirri von, að hann greiði nokkuð úr þeirri hulu, sem hvílir yfir þessu máli. Þessar 4 fsp. vil ég nú lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

1. Hvaða tillögur hafa Bandaríkjamenn komið með í þeim viðræðum, sem átt hafa sér stað um endurskoðun eða uppsögn varnarsamningsins?

2. Hvaða tillögur hyggst ríkisstj. leggja fram í þeim viðræðum?

3. Hyggst ríkisstj. ekki standa við ákvæði málefnasamningsins um brottför hersins í áföng um?

4, Hvenær má vænta þess, að ríkisstj. leggi fyrir Alþ. til samþykktar niðurstöður sinar og till. um endurskoðun eða uppsögn varnarsamningsins?