22.01.1974
Sameinað þing: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1712 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

161. mál, endurskoðun olíusölunnar

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Spurt er: „Hvað líður endurskoðun á skipulagi olíusölu í landinu.“ Og í öðru lagi: „Hvenær er þess að vænta, að hugsanleg endurskipulagning á olíudreifingunni geti komið til framkvæmda?“

Eins og fram kom í grg. hv. fyrirspyrjanda, er honum kunnugt um það, að viðskrn., skipaði 29. okt. 6 manna n. til þess að hafa með höndum endurskoðun á olíuskipulaginu í landinu. Þessi n. hefur enn ekki skilað störfum. Ég hef nýlega rætt við formann n., og segir hann mér, að enn sé n. að vinna úr þýðingarmiklum upplýsingum, sem hún hefur aflað sér, auk þess sem hún hefur rætt ýmsar leiðir til breytinga á núverandi olíuskipulagi, og getur n, ekki sagt um það á þessu stigi, hvenær hún verði tilbúin að skila áliti sínu til rn., svo að á þessu stigi málsins er ekki hægt að segja um það, hvenær lagðar verða fyrir Alþ, till, til breytinga á núverandi fyrirkomulagi. En í því erindisbréfi, sem n. fékk, var lögð á það rík áhersla, að n. kæmi till. sínum svo tímanlega á framfæri, að hægt væri að leggja till. hennar fyrir þetta þing eða fyrir vorþingið.

Það er enginn vafi á því, að það er ástæða til að huga að breytingum í olíuskipulaginu í landinu. Álit um það hefur oft komið fram á Alþ., og það var auðvitað vegna þess, sem stjórnarflokkarnir tóku inn í málefnasamning sinn þetta ákvæði, að fara skyldi fram þessi athugun. Ég er á þeirri skoðun, að gera þurfi hér á grundvallarbreytingu. En till. um það hafa oft komið fram á Alþ., og því er nauðsynlegt að reyna nú til þrautar í þeirri n., sem vinnur að athugun á þessu máli, að kanna, hvort hægt sé að mynda nægilega sterkan meiri hl. hér á Alþ. til að koma fram breytingum á þessu skipulagi.

Ég get sem sagt ekki svarað þessum spurningum, sem hér liggja fyrir, á annan hátt en þann, sem fyrirspyrjandi mátti vita. Endurskoðunin stendur yfir, n. hefur ekki lokið störfum, það hefur verið lögð á það áhersla, að hún skili sem fyrst. Þegar till. hennar liggja fyrir, er ætlunin að leggja málið fyrir Alþingi.