22.01.1974
Sameinað þing: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

175. mál, vegagerð

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason) :

Herra forseti. Það er ekkert efamál, að það er mikið kappsmál fyrir alla Íslendinga að standa þannig að málum, að unnt sé að leggja varanlega vegi um landið á eins ódýran og. hagkvæman hátt og unnt er. Nú hefur Sverrir Runólfsson um alllangt skeið talið sig hafa þá aðferð, sem gæti stuðlað að því, sem að ofan greinir, þ. e. a. s. að gera vegagerð ódýrari og hagkvæmari. Þessi aðferð hefur verið reynd, að mér skilst, m. a. í Alaska og Kanada, þar sem veðurskilyrði ættu að vera svipuð og hér. Hann hefur, eins og þingheimi er kunnugt, látið oft í sér heyra og haft uppi ýmiss konar viðræður. En þessi viðleitni Sverris, sem hefur nú staðið, að mér skilst, á þriðja ef ekki fjórða ár, virðist ekki hafa borið mikinn árangur, því að það virðist allt standa við það sama.

Ástæðan fyrir því, að ég kem hér upp og varpa fram til hæstv. samgrh. þeim spurningum, sem eru á þskj. 278, er ekki sú að ég telji mig geta dæmt um gildi vegagerðar téðs manns, heldur af því að ég hef hugboð um, að þarna blandist inn í eitthvert tregðulögmál embættisbáknsins. Ég hef því viljað spyrja hæstv. samgrh. þessara spurninga, sem óþarft er að lesa upp, til þess að reyna að fá nánari grein fyrir stöðunni 1 þessu máli, hvort hér sé ekki vert, að hæstv. ráðherra grípi í taumana. — Ég skal ekki hafa þennan formála lengri.