22.01.1974
Sameinað þing: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (1611)

175. mál, vegagerð

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Í fyrsta lagi er spurt: „Hvað líður framkvæmdum á þeim vegarkafla, sem Sverri Runólfssyni var skammtaður á Kjalarnesi?“ Því er til að svara varðandi þennan lið fsp., að með bréfi til Sverris Runólfssonar, sem var dags. 13. apríl 1972, bauð Vegagerðin honum að leggja 1 km langan tilraunakafla með þeirri aðferð, sem hann nefnir „blöndun á staðnum“. Tilboð þetta til Sverris var gert með samþykki samgrn. sökum þess, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að Sverrir hafði oftsinnis opinberlega lýst yfir, að hann gæti lagt margfalt ódýrari og betri vegi en Vegagerð ríkisins og þeir verktakar, sem hér hafa unnið að vegagerð á undanförnum árum, og þetta eigi að gerast með því að nota efnið í vegarstæðinu og m. a. mýrarjarðveg.

16. ágúst s. l., þegar Sverrir Runólfsson hafði fengið til landsins tæki, sem nefnt hefur verið blöndunarvél. var honum boðið að velja úr þremur vegarköflum af Vesturlandsvegi á Kjalarnesi. Hann valdi sjálfur nyrsta kaflann, sem liggur milli Ártúnsár og Tíðaskarðs, og er sá kafli rúmur km á lengd. Jafnframt var honum tilkynnt, að þegar hann legði fram verklýsingu og kostnaðaráætlun, svo sem venja er um alla verktaka, sem sýndi, að gæði og kostnaður væru eitthvað nálægt því, sem gerist um þá vegi, sem lagðir hafa verið á Suðvesturlandi að undanförnu, mætti hann hefja framkvæmdir. Ráðgjafarfyrirtækinu Mat s/f, sem hefur haft eftirlit af hálfu Vegagerðarinnar með framkvæmdum verktaka við lagningu hraðbrauta á undanförnum árum, var falið að meta verklýsingu og kostnaðaráætlun Sverris. Hefur þeim borist verklýsing frá Sverri, en engin kostnaðaráætlun. Hins vegar er verklýsingin svo ófullkomin, að ekki er unnt að gera kostnaðaráætlun eftir henni. — Þetta er svar mitt við 1. liðnum.

Í öðru lagi er spurt: „Hefur Vegagerð ríkisins ekki tök á að útvega þau vegavinnutæki, sem vantar til að framkvæma þetta verk, ef undan er skilin sú hrærivél, sem Sverrir Runólfsson flutti til landsins frá Kanada?“ Við þessu er það að segja, að Vegagerð ríkisins tilkynnti Sverri þegar í sumar, að nokkrar vinnuvélar í eigu Vegagerðarinnar, sem hann hefur falast eftir, standi honum til boða, hins vegar verði hann að fá leigðar hjá vinnuvélaeigendum þær vélar, sem Vegagerðin tekur að jafnaði á leigu hjá þeim hinum sömu, en Vegagerðin mundi sjá um greiðslur vegna þeirra. Einn stærsti vinnuvélaeigandi landsins hafði í haust samband við Vegagerðina og gaf þá í skyn, að ekki væri neitt því til fyrirstöðu að leigja Sverri vélar, ef hann ætti þær lausar, þegar vinna hæfist við vegarlagninguna. Af þessum sökum þykir mér, og öðrum þeim, sem um þetta mál hafa fjallað, ólíklegt, að tilraun Sverris strandi á skorti á vinnuvélum.

Í þriðja og síðasta lagi er spurt: „Væri ekki sú aðferð, sem Sverrir Runólfsson vill beita við vegagerð, heppileg á söndum Suðurlandsundirlendis, t. d. á Þorlákshafnarvegi? Ef svo er, væri ekki vert að fela honum þar vegagerð, a. m. k. í tilraunaskyni?“ Um þetta er það að segja, að burðarlag í vegum hér á landi hefur til þessa yfirleitt verið byggt á möl eða grjótmulningi. Á það jafnt við um malarvegi og vegi með bundnu slitlagi. Þar sem nothæf möl er fjarri vegarstæði, eins og á sér stað á sumum söndum sunnanlands, t. d. Rangárvöllum og Mýrdalssandi, áítur Vegagerð ríkisins, að kostnaður við gerð burðarlags með sandi með íblöndun sements eða annars bindiefnis geti e. t. v. orðið samkeppnisfær við aðflutt malarefni. En þá er óhjákvæmilegt að leggja á það strax bundið slitlag úr olíumöl eða malbiki, þar sem burðarlagið spænist upp ella. Þetta hefur ekki verið athugað til hlítar, m. a. vegna þess, að umferð er enn þá ekki það mikil á ofangreindum söndum sunnanlands, að þar sé ráðgerð vegarlagning með bundnu slitlagi, en aðferð Sverris byggist, eins og mönnum má ljóst vera, á því, eins og að ofan greinir.

Varðandi notkun þessarar aðferðar við endurbyggingu Þorlákshafnarvegar er þess að geta, að fjórði hluti vegarins frá Hveragerði í Þorlákshöfn liggur um sandorpið hraun. Í vegáætlun 1974 og 1975 eru veittar samtals 13 millj. kr. til endurbyggingar á þessum hluta vegarins. Fjárveiting þessi er þó ekki miðuð við veg með bundnu slitlagi, þar sem umferð þar hefur ekki enn náð því marki, að vegurinn flokkist til hraðbrauta, þegar gildandi vegáætlun var samþ. á Alþingi. Kemur því aðferð Sverris ekki til greina þar að óbreyttri fjárveitingu. Hins vegar hefur umferð um þann hluta Þorlákshafnarvegar, sem endurbyggja skal samkv. vegáætlun í ár og næsta ár, aukist það mikið á s. l. ári, að hann á að fara í flokk hraðbrauta. Ef fjárveiting til vegarins verður aukin við endurskoðun vegáætlunar fyrir árin 1974 og 1975 í samræmi við breyttan vegaflokk, þ. e. a. s. hann yrði þá hraðbraut, kæmi til álita að bera báðar aðferðirnar við gerð burðarlags saman við útboð verksins, þannig að Sverrir byði „blöndun á staðnum“, en aðrir verktakar hina hefðbundnu aðferð. Eðlilegt virðist þó, að Sverrir ljúki framkvæmdum við þann tilraunakafla, sem honum hefur staðið til boða og hann þegið af fúsum og frjálsum vilja, áður en til annarra framkvæmda kemur með aðferð hans.

Geta má þess einnig, að engir verktakar hafa á undanförnum árum í tilboðum sínum í hraðbrautarframkvæmdir boðið gerð burðarlags með aðferð Sverris, þó hún sé þeim vel kunn. Ástæðan er vafalaust sú, að hún hafi reynst dýrari en hefðbundin gerð burðarlags úr möl. Það útilokar þó ekki, að aðferð Sverris komi til greina, þar sem sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, eins og ég hef vikið að.