22.01.1974
Sameinað þing: 45. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1721 í B-deild Alþingistíðinda. (1615)

54. mál, eignarráð á landinu

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Till. sú, sem nú er til umr., fjallar um eignarráð íslensku þjóðarinnar á landinu, gögnum þess og gæðum. Þm. Alþfl. hafa flutt slíkar till. þing eftir þing, og miklar umr. hafa spunnist um efni þeirra, bæði á Alþ. og utan þess. Er því ekki ástæða til að lesa tillgr. Efni hennar er hv. þm. án efa kunnugt.

Undanfarna 2–3 áratugi hefur öllu mannkyni orðið það ljóst, sem framsýnir menn hafa lengi bent á, að sambúð manns og náttúru er að komast á hættulegt stig. Vegna offjölgunar og stóraukinnar tækni er svo komið, að náttúran hefur orðið fyrir margvíslegum spjöllum, og allt umhverfi mannsins hefur mengast, svo að ólíft verður á jörðinni að skoðun sérfræðinga eftir fáa mannsaldra, haldi svo áfram sem verið hefur. Víðtæk hreyfing hefur farið af stað til þess að stöðva þessa óheillaþróun, og hafa Sameinuðu þjóðirnar þar tekið forustu.

Sömu ástæður, offjölgun mannkynsins, stóraukin tækni og til viðbótar mikil neysla hinna auðugu þjóða, hafa valdið því, að skortur er á mörgum hráefnum, eldsneyti og matvælum og verðlag allt hefur farið ört hækkandi. Hrikalegar deilur og jafnvel ófriður hafa sprottið af kapphlaupi um minnkandi auðlindir jarðarinnar. Af því, sem Íslendingum er nærtækt, má nefna landhelgismál sem dæmi um auðlindastríð, en það er aðeins hluti af baráttu, sem nær pólanna á milli um yfirráð og eign hafsins og hafsbotnsins. Ein afleiðing þessarar þróunar hefur orðið sú, að hvarvetna er fólki nú ljósara en nokkru sinni fyrr, hversu verðmætt landið er sjálft. Þeir, sem efni hafa, seilast eftir jarðeignum, sumir þeirra til að eignast friðland utan þéttbýlis, aðrir til að ná undir sig hlunnindum eða til þess eins að ávaxta fé sitt. Afleiðingin blasir við augum. Eftirsókn eftir jörðum fer sívaxandi og verð þeirra síhækkandi, en hinn landlausi meirihluti hefur minnkandi tækifæri til að njóta náttúrunnar eða tengjast henni.

Við Íslendingar höfum ekki farið varhluta af þessari þróun. Enda þótt eyðilegging náttúru og mengun umhverfis sé skemmra á veg komin hér úti á mörkum hins byggilega heims en í mörgum öðrum löndum, höfum við gert okkur hætturnar ljósar og hafið gagnsókn með nýskipan náttúruverndarmála og aukinni baráttu gegn mengun, sem þó er enn harla óskipuleg. Við höfum einnig gert okkur ljóst, hvílíkir fjársjóðir orkulindir landsins eru fallvötn og jarðhiti, og nú keppast allir um að mæla með aukinni hagnýtingu þeirra. Augu okkar hafa um síðir opnast fyrir því, hversu fáránlegt það er að flytja dýra olíu umhverfis hálfan hnöttinn til þess að hita hús Íslendinga, sem búa ofan á gufukötlum sjálfrar jarðarinnar, ef svo má að orði komast.

Þegar hugsað er um þessar auðlindir, vatnsorku og jarðhita, í sambandi við orkukreppu mannkynsins í dag, og hinar hrikalegu afleiðingar hennar, hlýtur að verða ljóst, að hér er um sameiginlegt mál allrar þjóðarinnar að ræða. Á þessu sviði getur ekki verið um að ræða smámunalega sérhagsmuni einstaklinga, heldur verður þjóðin að líta á þessi mál og landið allt sem eina órjúfanlega heild. Þess vegna er sá skilningur einn hugsanlegur, að þjóðin eigi þá orku, sem finnst í iðrum jarðar eða fæst úr hinum meiri fallvötnum landsins. Þetta mál kemur ekki lengur pólitískum kennisetningum við. Hér er aðeins höfðað til heilbrigðrar skynsemi. Þeir einstaklingar, sem halda til streitu óeðlilegum sérhagsmunum og vilja græða á þeim vanda, sem steðjar að mannkyninu öllu og þar með okkur Íslendingum, geta ekki átt samleið með réttlátum og sjálfsögðum viðhorfum alls þorra þjóðarinnar. Með þessum orðum er ég ekki að traðka á stjórnarskránni. Við verðum að sýna henni tilhlýðilega virðingu, jafnvel ákvæðum, sem eru afsprengi 18. og 19. aldar hugsunarháttar, en eiga ekki eins vel við aðstæður á ofanverðri 20. öld. Við tökum ekki sannanlegar eignir af borgurunum án bóta. En við skulum reyna að finna eðlilegan grundvöll fyrir mat á eignum og miða ekki við markaðsverð, sem byggist á ógæfu og hörmungum annarra eða ófyrirsjáanlegum og sérstökum aðstæðum. Ég trúi því ekki, að höfundar stjórnarskrárinnar hafi sérstaklega ætlað að vernda braskgróða eða annað óeðlilegt verðgildi eigna, enda var slíkt fátítt í þeirra tíð.

Fyrstu tveir liðir í till. okkar jafnaðarmanna fjalla um eignarrétt á landi. Segir í 1. liðnum, að allt hálendi landsins og óbyggðir, að svo miklu leyti sem skýlausar eignarheimildir annarra aðila en ríkisins liggja ekki fyrir, sé lýst alþjóðareign, enda skýrt kveðið á um mörk þeirrar eignar. Um þetta atriði hefur verið mikið rætt, og er ljóst, hvert vandamálið er. Okkur flm. er eins og öðrum kunnugt, að víða um landið telja hreppar eða jafnvel einstakir jarðeigendur sig eiga mikil afrétta- og óbyggðalönd. Við leggjum aðeins til, að hafið verði það starf, sem mun taka langan tíma og mikla vinnu, að ákvarða eftir réttum, löglegum leiðum, hverjir hafi ótvíræðan eignarrétt og hverjir ekki. Þetta er ábending um sjálfsögð vinnubrögð. Auðvitað verður lýðveldið Ísland að fá úr þessu skorið og því fyrr, því betra. Nokkurra áratuga töf getur kostað þjóðina stórar fúlgur fjár í framtíðinni, því að fyrr eða síðar hlýtur þjóðarheildin að eignast þessi lönd.

2. liður till. er vafalaust hinn þýðingarmesti. Þar segir, að sú grundvallarregla skuli mörkuð, að allt land verði með tímanum almannaeign (eign ríkis eða sveitarfélaga, við leggjum það að jöfnu), en bújarðir megi ganga kaupum og sölum til búrekstrar, meðan bændur kjósa þann hátt fremur en hafa lönd sín í erfðafestu frá ríkinu. Ríki og sveitarfélögum verður hins vegar að tryggja forkaupsrétt að öllu landi.

Eins og nærri má geta, hafa andstæðingar þessa máls notað sér þennan lið óspart og ekki verið vandir að meðulum. Hefur mátt heyra um allt land, að það sé tilgangur jafnaðarmanna með till. þessari að þjóðnýta allt land. En látið er vera að segja bændum frá því, að það sé ekki ætlunin með till. okkar að þjóðnýta jarðir þeirra. Þetta er þó meginatriði. Við teljum, að viðhorf til bóndans, sem yrkir landið og býr á því, skipti miklu meira máli heldur en til annarra jarðeigenda. Þess vegna höfum við undanskilið bújarðir, en leggjum hiklaust til þjóðareign á öllu öðru landi. Við viljum útiloka þá, sem nota peninga sína til að kaupa land, en vilja ekki sjálfir búa á því. Við viljum útiloka alla landspekúlanta, sem sækjast eftir hlunnindum og öðrum verðmætum í þeirri von, að jarðarkaup séu besta fjárfesting, sem til er á verðbólgutímum. Við viljum útiloka alla, sem vilja ávaxta auð sinn á landi án þess að bætta neinu, án þess að yrkja eða bæta jörðina. Við viljum hins vegar verja hlut bóndans, sem býr á landinu og yrkir það, og við viljum greiða fyrir honum á allan hátt, ef hann vill heldur eiga land sitt en taka það á leigu frá ríkinu. Og við viljum greiða fyrir því, að slíkt land geti haldist í erfðafestu. Þyrfti þó að íhuga margvísleg lög, sem stuðla að því, hvernig landi er stundum skipt við erfðir og að bóndi hverrar kynslóðar verður stundum að kaupa jörðina að nýju, oft frá bræðrum og systrum. En þetta er annað mál, sem athuga þarf á öðrum vettvangi.

Jarðabraskið, sem nú á sér stað, er hættulegt fyrir alla þjóðina. En það er framar öllu hættulegt fyrir bændastéttina og alla íbúa, alla byggð í strjálbýli í landinu. Núv. ríkisstj. hefur nokkuð sýslað með þessi mál og lagt fyrir Alþ. tvö frv., sem það snerta, frv. til jarðalaga og frv. til ábúðarlaga. Bæði frv. eru skref í rétta átt, og bæði viðurkenna þau í raun og veru veigamikinn hluta af því, sem fram hefur komið í till. okkar jafnaðarmanna undanfarin ár. Þess vegna fagna ég þessum frv., enda þótt ég vilji að mörgu leyti ganga lengra en þau gera og áskilji mér allan rétt hvað þau snertir.

Kunnugt er, að þessi frv. ríkisstj. hafa valdið hinum furðulegustu jarðakaupum, sem ætlað er að öðlast gildi á undan frv. Þetta er auðvitað ekki sagt höfundum frv. til lasts, heldur hróss, en sýnir vandann, sem við er að et,ja. Í sambandi við umr. um þessi frv. hafa bæði landbrh. og fleiri þm. látið sér um munn fara mörg ummæli, sem styðja megintilgang till. okkar jafnaðarmanna ótvírætt, þegar nánar er athugað. Ég skal þó ekki tilfæra slík ummæli, þau liggja nú prentuð á borðum þm. í umræðuhluta þingtíðinda. Þó get ég ekki látið hjá líða að nefna, að í frv. til ábúðarlaga, sem liggur fyrir Nd., er enn þá talað um landsdrottna og leiguliða. Það er augljóst, að höfundar þessa frv. hafa enn ekki gert sér ljóst, á hvaða öld þeir lifa. Það er næsta furðulegt, að svokölluð vinstri stjórn, sem situr við völd á Íslandi seint á 20. öld, skuli flytja á Alþingi frv. um landsdrottna og leiguliða. Ef einhverjir hafa haldið, að núverandi stjórnarsinnar væru vinstri sinnaðir framfaramenn, sýnir þetta atriði, a. m. k. svo langt sem það nær, að það er mikill misskilningur.

Ætla mætti, að nú væri kominn tími til þess að afnema þessi hugtök og allt, sem þau tákna, og það eru vinstri menn að gera í löndum um allan heim, en ekki að lögfesta þau á nýjan leik, eins og hér á að gera. Íslenska ríkið verður auðvitað aldrei landsdrottinn, meðan lýðræði er í landinu, enda þótt það kunni að leigja mönnum eða gefa kost á jörðum, m. a. til reynslu, en það ætti að selja þeim bændum, sem óska eftir að fá land til þess að búa á því, það jarðnæði sem þeir þurfa. Ég tel að nú sé rétti tíminn til að setja lög um, að ríkið eignist allar jarðir smám saman nema þær, sem bændur vilja eiga sjálfir og búa á eða nýta. Þetta þarf ekki að gerast í einni svipan og getur sjálfsagt ekki gerst í einni svipan. Það má setja reglur um, að ríkið kaupi jarðir, þar sem ábúendur eða væntanlegir ábúendur fást ekki til að kaupa þær. Hvað sem kostar á að taka jarðir úr eigu þeirra, sem ekki búa á þeim eða hagnýta þær til búskapar eða landbúnaðarframleiðslu og eiga þær aðeins sem fjárfestingu og í ágóðaskyni. Landið á að vera eign þjóðarinnar. Ef lög í þá átt verða samþ. af okkar kynslóð, mun okkur verða þakkað það um langa framtíð.

Um 3.–5. lið till. þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Þeir hafa verið mikið ræddir, og þau atriði eru flestum ljós. Þar er gert ráð fyrir, að stöðuvötn og fallvötn og allur jarðvarmi undir 100 m dýpi verði lýst alþjóðareign og öll verðmæti í jörðu, á landi og landgrunni, sem finnast fyrir atbeina ríkisins eða leyfi ríkisins þarf til að leita eftir, skuli teljast eign ríkisins.

Í 6. lið er sagt, að glöggt skuli kveðið á um, hvernig landareign eða landnytjar færist úr einkaeign í eigu ríkisins eða sveitarfélaga og hvernig bætur skuli reiknast fyrir.

Í lokagrein segir, að kveðið skuli á um umgengnisskyldur við landið og viðurlög við spjöllum. Kann að vera, að nýleg náttúruverndarlög séu í þeim efnum nægileg, en aldrei verður of oft um það kveðið.

Herra forseti. Ég hygg, að frumherjar jafnaðarstefnunnar hafi á sínum tíma flutt ýmsar hugmyndir, sem voru svipaðar þeim, er við nú leggjum fram. En í þá tíð reyndist vera um draumsýn að ræða, sem mjög litlar undirtektir fékk. Nú flytjum við þessar till. á nýjan leik af fullkominni alvöru. Þetta er það, sem okkar tímar þurfa á að halda, og engin önnur lausn er fullnægjandi á vandamálum samtíðar okkar varðandi auðlindir, landið og landnýtingu. Við getum því aðeins leyst hin alþjóðlegu átök um auðlindir, að þjóðirnar standi saman og sýni hver annarri sanngirni í lausn málsins. Við getum því aðeins fundið lausn á landhelgismálum, að við stöndum saman. Við getum því aðeins fundið lausn á vandamálum okkar innanlands, að við leggjum á hilluna allt jarðabrask og allar spekúlasjónir og gerum okkur ljóst, að við verðum að koma nýrri skipan á sameiginleg afnot þjóðarinnar af landinu. Bændurnir sem yrkja jörðina og búa á henni, njóta forréttinda. Íbúar þéttbýlisins, sem vikum saman komast ekki út af malbikinu, eiga þar einnig mikinn rétt. Öll þjóðin á að njóta landsins, en jarðeigendur o spekúlantar verða að víkja.

Herra forseti. Ég harma, að svo mikilsvert mál skuli ár eftir ár ekki hljóta afgreiðslu Alþingis. Ég legg til, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn, í þeirri von, að hún verði afgreidd þar og samþykkt á þinginu.

Ég vona, að alþm. geri sér ljóst, að við lifum seint á 20. öld og erum nú að setja lög, sem mörg þurfa að gilda fram á 21. öldina. Vandamál samtíðar okkar krefjast þess, að við mætum þeim bæði af stórhug og framsýni.