22.01.1974
Sameinað þing: 45. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1725 í B-deild Alþingistíðinda. (1616)

54. mál, eignarráð á landinu

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Till. þessi er nú flutt í hið þriðja sinn, eins og lýst var af hv. frsm. Ég skal ekki að þessu sinni fara út í efnislegar umr. um till. Þegar hún lá fyrir síðasta Alþingi, fóru fram allítarlegar umr. um þetta mál, og lýsti ég þá skoðunum mínum og sterkri andstöðu við þær hugmyndir, sem till. er byggð á. Mér nægir því að vitna til þeirra umr, um afstöðu mína til þessa máls. Ég skal einungis taka það fram, að afstaða mín er óbreytt.

Ég lít svo á, að það sé mjög óeðlilegt, að Alþingi taki ekki endanlega afstöðu til máls eins og þessa, láti það liggja í nefnd tímum saman og afgreiði það ekki þing eftir þing. Ég hef það mikið traust á hv. Alþ., að það taki nú á sig rögg og afgreiði þessa till., afgreiði hana með þeim hætti, sem er í samræmi við skoðun mína, og felli till. Þessi till. fer, eins og ég lýsti á síðasta Alþ., gersamlega í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar. Enda þótt flm. hennar lýsi því yfir nú, að það sé ekki meining hans eða hans félaga að traðka á stjórnarskránni, þá talar till. sjálf sínu máli. Það er til vansæmdar fyrir Alþ. að láta slíkt stórmál sem þetta velkjast þing eftir þing, láti till., sem er hin mesta þjóðnýtingartill., sem borin hefur verið fram í sögu Alþingis, velkjast þing eftir þing, án þess að hún sé afgreidd. Ég tek því mjög undir síðustu orð flm., að þessi till. verði nú tekin til afgreiðslu í n. og á Alþ. sjálfu, og ég treysti því, að hún verði felld.