22.01.1974
Sameinað þing: 45. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1726 í B-deild Alþingistíðinda. (1620)

76. mál, stytting vinnutíma skólanemenda

Flm. (Halldór Blöndal) :

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér er til umr., er í tveim liðum. Annars vegar er lagt til, að skipuð skuli n. til þess að athuga og leggja fyrir næsta Alþ. till. um, hvernig unnt sé að stytta daglegan vinnutíma skólanemenda þannig, að ekki sé ofboðið náms- og lestarþoli þeirra vegna 5 daga kennsluviku.

Ástæðan til þess, að lagt er til, að þessi athugun sé gerð, er sú, að á allra síðustu árum hafa skólarnir, einkum í Reykjavík, en einnig úti um landið, t. d. á Akureyri, orðið að taka upp 5 daga kennsluviku í æ ríkara mæli. Þetta hefur ekki verið gert vegna þess, að forráðamenn fræðslumála eða skólayfirvöld hafi óskað svo mjög eftir þessari breytingu, heldur er ástæðan sú, að á mörgum heimilum var orðið svo, að eini fjölskyldumeðlimurinn, sem varð að fara á fætur á laugardagsmorgnum og ganga til vinnu sinnar, var skólanemandinn. Þetta olli að sjálfsögðu margvíslegum erfiðleikum, og í ljós kom í foreldrakönnunum, — t. d. er mér kunnugt um það á Akureyri, — að meiri hluti foreldra óskaði eftir því, að sami háttur yrði á hafður í skólunum, að kennsludögum yrði fækkað í 5. Sú aðferð hefur verið höfð að skipta þeim kennslustundum, sem voru á laugardögum, á milli hinna daganna og lengja daglegan námstíma sem því nemur, og ég hygg, að í grunnskólafrv. sé einnig lagt til, að sá háttur verði hafður á.

Ég álít, að það sé síður en svo sjálfsagt að fara þannig að. Við, sem höfum fengist við kennslu í gagnfræðaskálum t. d., höfum orðið vör við, að hæfni nemendanna til að tileinka sér það, sem fram fer í kennslustundunum, er miklu minni, þegar líður á daginn, heldur en árla morguns. Við þetta bætist einnig, að eins og staðið hefur verið að stundaskrá og kennslan hefur verið skipulögð í skólunum, er engin hliðsjón höfð af því, að ég ætla í flestum skólum, að þannig sé reynt að raða saman námsgreinum, að skapi sem minnst umskipti frá einni námsgrein til annarrar. Ég get nefnt það sem dæmi, að ég ætla, að það sé álitið, að það taki um 25 mínútur fyrir nemanda að skipta frá einu tungumáli til annars í námi, þannig að fullur árangur verði af. Víða mun þó sá háttur hafður á, að mismunandi tungumál séu kennd aðeins með 5 mínútna hléi á milli, stundum kannske þrjú í röð.

Eins og kennslu er nú háttað í gagnfræðaskólum og raunar í flestöllum skólum á Íslandi, er hafist handa kl. 8 að morgni og síðan haldið áfram til kortér yfir 12 eða 25 mín. yfir 12 viðstöðulítið. Það er í mesta lagi, að gefnar eru 5 mínútna, og einu sinni að vísu 15 mínútna frímínútur til þess að gefa nemendum kost á því að rétta úr sér og hvíla sig. Ég hygg, að þessi frítími, sem þarna er á milli kennslustunda, sé allt of lítill. Ég ætla, að ef við, sem hér erum inni, ætluðum okkur að leggja stund á einhver ný fræði, margvísleg fræði, mundum við haga námi okkar öðruvísi en svo að taka á þessum tíma, frá kl. 8 til hádegis, fyrir kannske 4–5 ólíkar námsgreinar, ensku einar 45 mín., fara síðar yfir í stærðfræði, svo yfir í dönsku, sögu, svo eðlisfræði. Ég hygg, að fullorðið fólk, sem orðið er vant og jafnvel þjálfað í að tileinka sér nýja hluti, eigi fullerfitt með að gera þetta og mundi kjósa að fá sér á þessum tíma lengra hlé og einhverja næringu, rétta betur úr sér. Síðan er þessum unglingum gefin klukkustund til matar, síðan er þeim ætlað að halda áfram að starfa í skólunum til kl. 3–4. Þeim er svo sett fyrir meira og minna í öllum þessum námsgreinum. Niðurstaðan hefur orðið sú, að það er einungis á færi þeirra nemenda, sem skarpastir eru og best að sér, að ljúka þeirri heimavinnu, sem ætlast er til af þeim, og er þá vinnutími þeirra oft orðinn lengri en allra annarra í fjölskyldunni. Í sumum tilfellum verður það mjög mikið vinnuálag, sem kemur á þessa unglinga, t. d. hjá þeim unglingum, sem einnig leggja stund á tónlistarnám, taka þátt í margvíslegri félagsstarfsemi og eru virkir að því leyti.

Ég hef borið þetta mál og þessa till. undir ýmsa reynda skólamenn, og allir þeir, sem ég hef talað við, eru mér sammála um, að það þurfi mjög mikillar athugunar við, hvað hægt sé að krefjast af unglingum, að þeir sitji lengi samfellt í skóla, ef ætlast sé til af þeim, að þeir leggi líka mikla vinnu í heimanám. Ég er ekki með þessum orðum mínum að leggja til, að heimanám sé lagt niður. Mín hugsun er sú, að það megi ná betri árangri með því, að nemendurnir séu styttra í skólanum á degi hverjum og námsgreinar færri, sem fengist er við hverju sinni, og reynt sé að taka námið í meiri áföngum og ljúka af tilteknu námsefni kannske hluta af vetri. Ég ætla, að þannig fari a. m. k. þeir að, sem eru orðnir fullorðnir, að þeir sökkvi sér niður í fá viðfangsefni í einu. Ég ætla einnig, að það muni unnt að spara verulega í menntakerfinu með því að huga að því, hvort ekki sé hægt að bæta vinnubrögðin í skólunum. En eins og við vitum, eru skóla- og menntamálin nú orðin einhver þyngsti bagginn í ríkisfjárlögunum, og veitir sannarlega ekki af því, að við athugum það og gefum því gaum, hvort ekki sé hægt að koma þar við meiri vinnuhagræðingu, meiri vinnusparnaði og jafnframt ná meiri árangri.

Fyrir allmörgum árum, — það er fyrir mitt minni, — var árlegur námstími nemenda lengdur úr 7 mánuðum í 8, að ég ætla. Það hafa sagt mér skólastjórar, sem muna þetta úr sínu starfi, að þeir hafi búist við því, að nú mundi þeim takast að koma miklu meira námsefni í nemendurna, þar sem þeir fengju nú einn mánuð í viðbót, það bættist einn mánuður við skólaárið. Þegar þeir líta til baka og yfir farinn veg, líta á þann námsárangur, sem náðist, þegar mánuðirnir voru bara 7, og sjá svo árangurinn núna, þá hugsa ég, að þeir séu flestir sammála um, að meiri námsárangur hafi ekki náðst á þessum 8 mánuðum en náðist á 7.

Nú er lagt til í grunnskólafrv., að enn skuli árlegur námstími lengdur og nú í 9 mánuði, úr 8½, eins og er t, d. árlegur námstími í gagnfræðaskólum. Ég er alls ekki sannfærður um, að slík lenging skólatímans muni skila sér í bættum námsárangri nemenda nema að mjög takmörkuðu leyti. Við verðum að gá að því, að þarna erum við komnir inn á annað mál og að mörgu leyti mjög alvarlegt, og það er, að okkur, sem aldir erum upp í skólum, hættir til þess að gera lítið úr því uppeldislega gildi, sem felst í vinnunni og því að standa að verki með fullorðnu fólki. Ég hygg, að það sé mjög hollt öllum unglingum að kynnast atvinnulífi þjóðarinnar, bæði til sjávar og sveita, og eins og fram kemur í síðari lið þáltill. okkar hv. 5. þm. Norðurl. v., leggjum við til, að nemendum verði gefinn kostur á að velja milli efstu deilda skyldunáms og vinnu undir eftirliti fræðsluyfirvalda, enda verði fullorðinsfræðsla efld. Ástæðan til þess, að þetta er lagt til. er sú, að við kennarar verðum oft varir við það, að unglingar í efstu bekkjum skyldunámsins eru mjög andsnúnir og ég vil segja fjandsamlegir skólastarfinu. Þeir geta ekki fallist á, að þjóðfélagið hafi rétt til að skipa þeim á skólabekk, því að þeir vilja kannske miklu heldur fara til sjós eða vinna að bústörfum eða gera við bifreiðar eða hvað sem nöfnum tjáir að nefna, og þeir sætta sig ekki við þetta. Þetta kemur fram í viljaleysi þeirra til að tileinka sér skólastarfið. Og svo er önnur hlið á þessu máli. Flest börn, sem ganga í fyrsta skipti í skóla, eru full eftirvæntingar og áreiðanlega mjög fýsandi þess að fá að læra, lesa, reikna, teikna og gera allt, sem nöfnum tjáir að nefna. Fyrst í stað, meðan lítils er af þeim krafist, eiga börnin þar góðar stundir og hlakka til að fara í skólann. En brátt líður að því, að viðhorf barnanna til skólans breytast. Sum börn byrja að heltast úr lestinni, og eftir því sem börnin eldast, skólagangan lengist, fara þau að finna, að skólinn er farinn að leggja fyrir þau alls konar námsefni, sem allir vita, bæði þau, kennararnir, fræðsluyfirvöldin, allir, að börnin hafa engan möguleika til að ráða við. Börnin eru að vísu látin mæta í skólunum á hverjum einasta degi, og ef þau eru ófús til að koma, vilja heldur vera úti á götu og leika sér en ganga í skólann og sitja þar undir svo skemmtilegri iðju, sem það er að fást við verkefni, sem þau hafa enga möguleika til að ráða við, þá er send á þau barnaverndarnefnd, skólastjóri, foreldrafundur og allt, sem nöfnum tjáir að nefna. Þegar komið er upp í gagnfræðaskóla, 1. og 2. bekk, er þessi hópur orðinn nokkuð stór, sem enga möguleika hefur á því að fylgjast með. Þessir unglingar eru vanir martröðinni, þeir mæta eftir sem áður til prófa, vita, að einkunnabækurnar munu engan gleðja á heimilinu, þegar þeir koma heim. Þeir fá að halda áfram að mæta í skólunum eftir prófin. Kennarinn er fyrir löngu búinn að gefast upp á því að kenna kennslubækurnar, því að það þýðir ekkert. Það hefur engin kennslubók verið samin fyrir þetta fólk. Sú uppeldisaðferð, sem um aldir hefur reynst best á börn og unglinga, að veita þeim uppörvun í námi og starfi, er ekki viðhöfð. Það er ekki hægt að hvetja börn til náms, sem hafa enga möguleika á því að tileinka sér það, sem þau eru að fást við. Það er ekki nokkur leið. Ofan á þetta bætist virðingarleysi fyrir verklegu námi í skólanum, og þau börn, sem gætu kannske náð verulegum árangri á því sviði, fá ekki tækifæri til þess, einfaldlega af því að skólarnir bjóða ekki fram verklegt nám, sem mundi nægja þessum unglingum. Niðurstaðan af þessu hefur því orðið sú, að unglingarnir fyllast mjög fjandsamlegu hugarfari gagnvart skólunum. Þetta fjandsamlega hugarfar gagnvart skólunum færist svo yfir á allt þjóðfélagið og á sinn mikla þátt í að skýra þau unglingavandamál og þann glæpafaraldur, sem við eigum nú að stríða við í hinu borgaralega þjóðfélagi. Það kemur skýrt fram, að í strjálbýlinu, þar sem börnin eru nær athafnalífinu, sjávarútveginum og landbúnaðinum, er miklu minna um þessi vandamál. Þá fá unglingarnir fullnægingu í því að vinna að þessum störfum. Ég hef m. a. rætt þessi mál við uppeldisfræðinga, sem vinna á vegum fræðsluyfirvalda, og þeir hafa fallist á þær skoðanir mínar, að að verulegu leyti eða a. m. k. að sumu leyti megi rekja unglingavandamálið, glæpahneigðina og andstöðuna við þjóðfélagið til þess, að unglingarnir eru í skólanum aldir upp til andstöðu við skólana, fræðsluyfirvöldin og fullorðna fólkið.

Í þessu sambandi bendi ég á, að námsstjórar, — ég man nú ekki, hvort það eru 4 eða 5, í Noregi hafa lagt til. að nemendum í efsta bekk eða efstu bekkjum skyldunáms skuli gefið tækifæri til að velja á milli þess að vera í skóla eða náms undir eftirliti fræðsluyfirvalda. Ástæðurnar eru þær sömu og ég hef rakið hér á undan. Nú kann einhver að ætla, að með þessu sé ég að draga úr því, að unglingum gefist kostur á að búa sig undir lífið með frekari skólagöngumenntun, með því t. d. að setjast í iðnskóla eða þar fram eftir götunum. Það er síður en svo. Eins og ég sagði áðan og eins og orðað er í till., er gert ráð fyrir því að tengja saman vinnu og skóla og að vinnan sé undir eftirliti fræðsluyfirvalda. Álít ég, að rétt sé að gefa unglingunum kost á því að setjast á skólabekk, eftir að þeir hafa unnið í 1–2 ár eða jafnvel síðar, og efla mjög fullorðinsfræðsluna. Það er engum til gagns, að unglingar sitji á skólabekk án þess að tileinka sér neitt, sem þar fer fram.

Ég hygg, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þetta mál. Fræðslulögin eru nú í undirbúningi, og má raunar segja, að þau séu á lokastigi. Við kennarar margir erum mjög uggandi yfir því, hvert stefnt er með grunnskólafrv. Ég reyndi m. a. að vekja máls á þessum atriðum og ýmsum öðrum, þegar sú sendinefnd, sem gerði víðreist um landið, kom til Akureyrar og ræddi grunnskólafrv., en fékk heldur lítil svör. Á síðasta Alþingi fluttum við hv. 5. þm. Norðurl. v. þáltill., sem gengur í svipaða átt og sú, sem ég hef nú gert grein fyrir, og byggist algerlega á sömu forsendum.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég rétt aðeins geta þess, að meðan ég átti kost á því að kenna við þann gagnfræðaskóla í Reykjavík, þar sem sjóvinnudeild var starfandi, og kenndi þeim nemendum, sem þar voru, fann ég fljótt, að það var allt öðruvísi að kenna þessum hóp en mörgum öðrum, vegna þess að þessir strákar höfðu markað sér ákveðna stefnu. Þeir ætluðu sér að verða sjómenn, og þeir voru reiðubúnir til þess að leggja á sig töluvert erfiði og læra margt það, sem mætti koma þeim að haldi í því námi. Ég viðurkenni að vísu, að þeir voru ekki mjög áhugasamir um íslenska stuðlasetningu og kærðu sig kannske lítið um að vita, hvort lýsingarorð væri hliðstætt, hálfhliðstætt eða sérstætt, og fannst það lítið koma við sjómennsku. Ég féllst á þetta með þeim, og við komumst að góðu samkomulagi um að gera ekki allt of mikið úr svona atriðum, heldur tala um önnur atriði, sem komu þeim meira við. Það voru mjög ánægjulegar stundir, sem ég átti með þessum strákum. Ég hygg, að með því að gera meira að þessu og með því að gefa nemendunum kost á því að tengja þannig saman atvinnulífið og skólann, getum við náð ótrúlega miklum árangri. Þessir strákar fengu mikla útrás í því að hnýta net, og þeir fengu að vitja um hrognkelsanet hérna úti í firðinum með sjóvinnukennaranum. Þeir skiptust á að fara til að vitja um netin á kvöldin og fengu í soðið. Þetta gaf mjög góða raun, og við eigum að ganga lengra í þessu.

Hér er lagt til, að til þess að athuga um þessi mál verði skipaður einn maður frá eftirtöldum aðilum: Alþýðusambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Stéttarsambandi bænda, Félagi ísl. iðnrekenda, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Félagi skólastjóra gagnfræðaskóla, Landssambandi framhaldsskólakennara, Félagi háskólamenntaðra kennara, Sambandi ísl. sveitarfélaga, og menntmrh. skipi svo einn mann í nefndina.

Eins og þessi till. um nefndarskipun ber með sér, er ég þeirrar skoðunar, að það geti haft margt gott í för með sér og leitt til margvíslegra nýjunga, sem eru hollar fyrir skólastarfið, ef fulltrúum atvinnuvega og stéttarfélaga og skólamönnum verði gefinn kostur á því að vinna saman og skiptast á skoðunum um þessi mál. Fræðslulöggjöfin þarf að vera í stöðugum undirbúningi og endurskoðun. Við þurfum að breyta námsefni og aðhæfa það breyttum tíma. En því miður er það einkenni skóla að vera heldur íhaldssamir, og þótt það sé starf kennara að troða í aðra, verður að segjast eins og er, að þeir eru svolítið seinir á sér að tileinka sér nýjungar, nema þeir megi til. Ég held þess vegna, að það geti verið hollt, að nefnd sem þessi starfi saman og kennarar kynnist með þeim hætti þeim störfum, sem breytt þjóðfélag krefst.