22.01.1974
Sameinað þing: 45. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

76. mál, stytting vinnutíma skólanemenda

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki bæta mörgum orðum við ræðu frsm. og fyrri flm. Till. þessi á þskj. 82 er flutt til þess, að fram fari athugun á þeim vanda, sem skapast hefur vegna þess, að tekin hefur verið upp svokölluð 5 daga vinnuvika í skólum og námsefni 6 daga vinnuviku þjappað saman á 5 daga. Af þessu hefur sprottið vandamál, sem lýst var af hv. frsm. áðan, og ég vil ítreka það, að ekki er víst, að hér sé rétt stefnt. Ég er raunar þeirrar skoðunar, að hér sé stefnt í öfuga átt, vegna þess að það er sama hvort um er að ræða börn, unglinga eða fullorðið fólk, þá taka einstaklingarnir ekki við nema takmörkuðu magni af fræðslu á hverjum degi, og ef fræðslan á að verða of mikil verður árangurinn í öfugu hlutfalli við tilganginn og allt skólastarfið fer úr skorðum. Þess vegna hygg ég, að betra hefði verið að halda 6 daga kennsluviku í skólum, reyna þannig að nota veturinn sem best og halda kennslumagninu á hverjum degi innan hæfilegra marka, til þess að nemendur gætu með góðu móti innbyrt það.

En megin ástæðan til þess, að ég kom hér upp í ræðustólinn að þessu sinni, er sú, að ég hef undir höndum grg. frá hinum merka skólamanni, Snorra Sigfússyni fyrrv. námsstjóra, — grg., sem hann hefur tekið saman í sambandi við 5 daga skólaviku. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þessa grg., vegna þess að ég ætla, að hún sé gagnlegt innlegg í þessi mál, og ég vænti þess, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, taki hana til athugunar. Þessi grg, er svo hljóðandi:

„Í uppsiglingu virðist nú það nýstárlega fyrirbrigði í málefnum og starfi barnafræðslunnar í landinu, að skóli skuli aðeins starfa 5 daga vikunnar, sé þetta gert vegna 5 daga vinnuviku verksmiðjufólks og verslunarfólks og annarra starfsstétta, sem ákvæði um 5 daga vinnuviku ná til. Um þetta má taka fram eftirfarandi til íhugunar:

1. Barnaskóli er ekki atvinnufyrirtæki. Hann er til kominn vegna barnanna og lýtur því allt öðrum lögum og starfsháttum.

2. Það er öllum, sem til þekkja, vel kunnugt, að námsefni það, sem nú er á námsskrá barnaskóla, er ærið nóg viðfangsefni skólaárið með 6 daga skólaviku. Nú virðist sem auka eigi námsefnið, en jafnframt stytta námstímann. Þetta er rangt gegn öllum meginþorra barnanna.

3. Stytting á skólaviku úr 6 dögum í 5 daga hlýtur að verða til þess, að annaðhvort sé dregið úr námsefninu eða skólavikunum fjölgað.

4. Að leggja 6 daga námsefni á 5 daga, eins og nú er háttað aðstæðum, má með réttu teljast fráleitt. Það lengir vinnutíma barna úr hófi fram, þ. e. þeirra, sem eitthvað ráða við námsefnið. Hin, sem ætla má, að séu í miklum meirihluta, munu hvorki hafa löngun né getu til þess að leggja fram slíka vinnu og fylgjast með. Þeim verður skólinn að litlu gagni, nema þá til þess að venja þau á vanrækslu. Hér er því um að ræða mikilvægt uppeldisatriði, sem veita þarf athygli, og jafnframt heilsufræðilegt atriði líka. Enda mun svo fara, að skóli, sem slíkt gerir, mun hljóta að verða þess var, að áhuginn á náminu fjari bráðlega út.

5. Það hlýtur að vera mikilvægt fyrir okkur að nota veturinn vel við fræðslu- og skólastarf. Með því eina móti verður hægt að draga úr löngu skólaári, sem jafnan er og hefur verið þyrnir í augum manna að vonum. Og það mun hæpið, svo að ekki sé fastar að orði kveðið, að 9 mánaða skólaár verði tekið upp í sveitum eða smærri þorpum fyrst um sinn, enda á það varla rétt á sér þar, a. m. k. í því formi, sem skólar eru nú. Þó kann að vera, að 5 daga skólavika geti átt þar við undir vissum kringumstæðum, en að reglu má ekki gera hana fremur en annars staðar. Og það er líka hugsanlegt, að einsettir barnaskólar geti að skaðlausu eða skaðlitlu unnið aðeins 5 daga vikunnar.

6. Með löggjöf þarf að koma í veg fyrir það, að 5 daga skólavika verði að reglu, sem hver og einn geti tekið sér að vild, heldur þurfi til þess leyfi yfirstjórnar fræðslumála, sem sé því aðeins veitt, að ekki skaði nemendur og nám og verði til þess að lengja skólaárið. Veturinn ber okkur að nota vel, svo að fremur sé hægt að slaka á vor og haust.“

Þannig hljóðar grg. þessa margreynda og merka skólamanns, og í henni eru mörg andmæli gegn því, að þessi regla verði tekin upp, hvað þá að hún verði fest í lög. Ég skal ekki bæta fleiru við þetta, svo að neinu nemi. Ég hef áður á þessu þingi talað um skólamál, en skólamál og skólastarf þarf að reyna að færa í það horf, að sem mestur árangur náist og um leið að sem mestrar hagkvæmni sé gætt fyrir þjóðfélagið, bæði í framlögðu fjármagni og eins hvað það snertir að spara tíma skólanemendanna sjálfra. Og þó að sú grg., sem ég hef hér flutt og er samin, eins og ég sagði af Snorra Sigfússyni, fjalli einkum um barnaskólana, á þetta ekki síður við, að ég hygg, um gagnfræðaskólastigið.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar. Ég vildi eingöngu koma þessari grg. hér á framfæri.