23.01.1974
Efri deild: 49. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

169. mál, námslán og námsstyrkir

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki furða mig á því, þótt hv. 6. þm. Reykv. gengi illa að finna í ræðu minni í fyrradag svar við spurningu sinni, því að í ljós kemur, að ég hef misskilið spurningu hv. þm. hrapallega, og bið ég afsökunar á því. Ég tók spurninguna þannig, að hv. þm. spyrði að því, hvort ekki væri unnt að losna við vaxtamismuninn með því að hafa breytilegan greiðslutíma eftir breytilegri greiðslubyrði af lánunum, og ég þóttist vera að svara því. En sjálfsagt er að greiða úr því máli, sem hv. þm. spyr um, eftir því sem mér er unnt að skýra það í stuttu máli.

Meginrökin fyrir mismunandi vöxtum af A-lánum og B-lánum eru þau, að A-lánin eru hin almennu lán, sem veitt eru eftir mati á fjárhag og og aðstæðum námsmannsins eins. B-lánin koma til viðbótar, eru veitt með hliðsjón af þeim fjárhagsstuðningi, sem talið er eðlilegt, að foreldrar geti veitt námsmanni. í raun og veru eru B-lánin því beinlínis hugsuð til þeirra, sem lakar eru efnum búnir, og ætluð til þess að uppfylla að fullu margumrædda umframfjárþörf þeirra, sem lakar teljast settir. Þeir, sem hljóta B-lán, verða því að námi loknu að öðru jöfnu með mun hærri greiðslubyrði af námsskuldum heldur en þeir, sem aðeins hafa þurft A-lána með á sínum námsferli.

Af þessum sökum er talið, að þar sem strangara aðstöðumat fer fram, áður en B-lán eru veitt, þá séu rök fyrir því að hafa vexti af þeim lægri. En eins og ég tók fram við fyrri umr., er þar að auki gert ráð fyrir því, að sjóðsstjórn semji við námsmenn að námi loknu um greiðslutímann og hann verði miðaður við, hversu námsskuldin er há og greiðslubyrðin þar af leiðandi þung fyrir hvern námsmann.