23.01.1974
Efri deild: 49. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (1630)

174. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Hingað til hefur menntun starfsmanna við verslun og skylda starfsemi hér á landi næstum eingöngu farið fram við einkaskóla. Þessir skólar eru tveir, Verslunarskóli Íslands, sem rekinn er á vegum einkaverslunarinnar, og Samvinnuskólinn, sem samvinnuhreyfingin rekur. Síðan hafa á síðari áratugum bæst við verslunardeildir við ýmsa gagnfræðaskóla, en sú menntun, sem þar er veitt, getur naumast talist sérhæfð viðskiptamenntun.

Það hefur lengi ljóst verið, að það fyrirkomulag, að þessum þætti menntunar og starfsþjálfunar sé eingöngu sinnt af einkaskólum, fær vart staðist til frambúðar. Þörfin fyrir sérmenntað fólk í verslun og skrifstofustörfum fer mjög vaxandi með breyttum atvinnuháttum, og jafnframt vex nauðsyn á því, að svo sé búið um hnútana, að sú menntun og þjálfun, sem þetta fólk fær, sé sem staðbest. Á því eru hins vegar ýmsir hængir, að þessum kröfum sé hægt að fullnægja eins og æskilegt væri í einkaskólum. Kostnaður við skólahaldið eykst, eftir því sem kröfurnar vaxa, og þá er ekki um annað að ræða til þess að auka tekjur skólanna, eins og starfsþörfin krefur, en að hækka skólagjöld, sem falla á nemendur. En það er undantekning í íslensku skólakerfi, að nemendur, sem ætla sér störf í mjög fjölmennri starfsgrein, fái ekki aflað sér undirbúningsmenntunar nema í skólum, sem krefjast skólagjalda; reglan er sú, að sérskólar eru ríkisskólar, þar sem skólagjöld þekkjast ekki. Þar við bætist, að skólahald í skólunum, sem viðskiptamenn veita, hefur ekki getað farið fram án ríkisstyrks um langt árabil. Þessi ríkisstyrkur hefur farið all mjög vaxandi. Þegar þannig er um hnúta búið, er ekki auðvelt með málin að fara, með ákvörðun rekstrarstyrkjanna til þessara einkaskóla, þar sem ekki er við neinar lagareglur að styðjast. Af þessum ástæðum varð það að ráði, að sett var n. til að semja lagafrv. um framtíðarskipun verslunarmenntunar í landinu. Sú n. hefur skilað því frv., sem hér er lagt fram óbreytt.

Þar er kveðið á um verslunarmenntun á vegum ríkisins annars vegar og hins vegar gert ráð fyrir áframhaldi starfsemi einkaskólanna: Verslunarskóla og Samvinnuskóla, en skiptum þeirra og fjárveitingavalds ríkisins er skipað með lagareglum. Gert er ráð fyrir, að viðskiptamenntun á vegum ríkisins geti farið fram í mismunandi skólastofnunum, eins og segir í 6. gr. Er bæði gert ráð fyrir viðskiptanámsbrautum á framhaldsskólastigi, hvort heldur er í fjölbrautaskólum, menntaskólum eða framhaldsdeildum grunnskóla, og hins vegar sérskólum, sem alfarið eru stofnaðir til þess að mennta menn til starfa í viðskiptalífi. Svo er kveðið á í 7. gr., að hinn fyrsti sérskóli á ríkisins vegum til viðskiptamenntunar skuli stofnaður á Akureyri, og þykir það að athuguðu máli sjálfsagt, þar sem hinir viðskiptaskólarnir eru í landshlutum fjarlægum Norðurlandi og á Vesturlandi.

Í lagafrv. eru ákvæði um námsefni í viðskiptamenntun, þar sem kveðið er á um greiningu námsefnis í kjarna annars vegar og kjörsvið hins vegar. Í kjarna skulu vera þær námsgreinar, sem taldar eru sameiginleg undirstaða almennrar menntunar og viðskiptamenntunar sér í lagi, sem sé íslenska, stærðfræði, eitt Norðurlandamál, enska, vélritun, bókfærsla og hagfræði. Síðan skal gefinn kostur á kjörsviðum, eftir því sem ákveðið verður um námsbrautir í viðskiptamenntuninni. Við það er miðað, að nánari ákvæði um námseiningar og sérgreint nám verði settar í reglugerð.

Kveðið er á í 5. gr., hvaða helstu námsbrautir skuli standa til boða í viðskiptamenntunarskólum. Þar er um að ræða almenn skrifstofustörf, störf við bókhald, afgreiðslu- og deildarstjórnarstörf í verslunum, svo og almenn stjórnarstörf. Þar að auki er ráð fyrir því gert í sömu grein, að nemendur skuli með viðbótarnámi geta búið sig undir stúdentspróf auk hins sérhæfða náms í viðskiptagreinum. Í samræmi við þetta er gert ráð fyrir, að námið geti verið mismunandi langt eftir því, um hvaða námsbrautir er að ræða, þ. e. a. s. það geti tekið frá einu ári upp í fjögur ár.

Í 9. gr. eru svo ákvæði um stuðning ríkisins við rekstur Samvinnuskólans og Verslunarskóla Íslands, sem hefur eins og ég áðan sagði, átt sér stað um árabil, en án nokkurra skýrra fyrirmæla um, hvernig honum skuli háttað. Í 9. gr. er svo fyrir mælt, að rekstrarkostnað skólanna skuli greiða að fullu af ríkisfé, nema rekstrarkostnað heimavistar, þar sem hennar er þörf, en rekstur heimavistar skuli styrkja sem nemur 80% af kostnaði. Settur er einnig sá varnagli, að ríkisframlag megi að hámarki miða við kostnað í ríkisskólum á sama fræðslustigi. Síðan er ákvæði um framlag ríkisins til stofnkostnaðar kennsluhúsnæðis, sem byggt verður við þessa einkaskóla, eftir að lögin taka gildi, og er ráð fyrir því gert, að það sé að 80% greitt af ríkisfé. Sama á að gilda um heimavistarhúsnæði, þar sem ákveðið verður, að þess sé þörf. Svo er búið um hnúta, að styrkveitingar eru því háðar, að menntmrn. hafi samþykkt árlega áætlun um rekstrarkostnað þessara skóla og fé sé veitt á fjárl. fyrir stofnkostnaði. Loks er ákvæði um það í 9. gr., að framlög ríkisins skuli við það miðuð, að einkaskólar þessir starfi í samræmi við þá stefnu um viðskiptamenntun, sem fram er sett í frv. og þeim reglugerðum, sem settar kunna að verða samkv. því.

Ég vil taka fram, að alger samstaða var um þetta frv. í n., sem það samdi, en hana skipuðu bæði fulltrúar ríkisins og fulltrúar þeirra aðila, sem rekið hafa Verslunarskólann og Samvinnuskólann.

Legg ég svo til, herra forseti, að frv. verði eftir þessa umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.