23.01.1974
Neðri deild: 53. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

134. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Vegna þess, sem kom fram síðast í ræðu hæstv. fjmrh., og reyndar enn fremur vegna þess, sem áður hafði komið fram, þegar hann minntist á skatta sjómanna, tel ég rétt að rifja nokkuð upp gang þeirra mála nú á síðustu árum. Ég held, að hæstv. ráðh. geri sér ekki grein fyrir samhengi þessara mála, svo sem vert væri, sérstaklega þó ekki þegar hann og aðrir hæstv. ráðh. hafa nú um margra vikna skeið rætt við fulltrúa launþega og væntanlega þá líka fulltrúa sjómanna, sem nú standa í kaup- og kjaradeilum við sína vinnuveitendur, en hafa jafnframt gert þá grundvallarkröfu til ríkisvaldsins, að breytt verði núverandi formi skattalaga, m. a. til þess að breyta þeirri kenningu núverandi stjórnarflokka, að þeir eigi að taka svo og svo mikið, eins og gert er núna, af þjóðinni og þ. á m. af launþegum og ráðstafa því sjálfir. Með kröfum verkalýðsfélaganna hefur þessari kenningu stjórnarflokkanna verið mótmælt. Almenningur sjálfur vill hafa þetta fé í sínum höndum og nota það eftir geðþótta, en ekki láta það vera í höndum misviturra ráðh.

Þegar breyting var gerð á tekjustofnalögunum á sínum tíma af núv. hæstv. ríkisstj., voru m. a. þær breytingar gerðar um skattfríðindi sjómanna, að felld voru niður fríðindi, sem sjómenn höfðu haft, í sambandi við útsvör til sveitarfélaganna. Það var fellt niður, ekki aðeins til fiskimanna, heldur og til farmanna, en farmenn höfðu unnið sér þessi réttindi m. a. í samningum á löngu árabili. Það hafði skeð í þó nokkur skipti, að þessi fríðindi áunnust í sambandi við mjög erfiða: vinnudeilur. Ríkisvaldið skarst í leikinn og lagði þetta fram sem sitt framlag til að leysa þessar erfiðu deilur. Um það leyti, sem þessi lög vorn til umr. hér á Alþ., taldi þessi fjölmenna launþegastétt sig þurfa að fara í vinnudeilu til að herða að vinnuveitendum í sambandi við kröfur sínar um kaup og kjör. Hún þurfti að standa í verkfalli um 5 vikna skeið. Hæstv. ríkisstj, stóð upp og þakkaði fyrir sig skömmu síðar og afnam þessi fríðindi, sem þessi stétt manna hafði haft um nokkurra ára skeið og hafði áunnið sér í fyrri samningum og fyrri kaup og kjaradeilum. Hins vegar er rétt, að hæstv. ríkisstj. lagði til í sambandi við lög um tekjuskatt og það var samþ. hér á þingi, að fiskimenn fengju 8% brúttófrádrátt. Þetta er alveg hárrétt. Vegna þess að þetta er ríkisstj. hinna vinnandi stétta, er rétt að benda á það dæmi líka. En þetta kemur þannig fram, að hásetinn, sem hefur 500 þús. kr. brúttóárslaun, fær 40 þús. kr. frádrátt samkv. þessari kenningu ríkisstj. hinna vinnandi stétta. Skipstjóri, sem hefur 4 millj. í árslaun, fær 320 þús. kr. Er það furða, þótt jöfnuðurinn eigi að ráða áfram hjá þessum hv. herrum.

Þá vil ég gjarnan rifja upp fyrir hæstv. ráðh. og sérstaklega hæstv. fjmrh., — ég veit, að hann hefur hlaupið úr salnum, vegna þess að hann þekkir þetta allt, — í sambandi við sjúkrasamlagið, vegna þess að þetta átti allt að vera fyrir hinn almenna borgara, sem þar var gert, að sjómannastéttin hafði um langt árabil notið þeirra fríðinda í gegnum fyrri samninga og hefðir, að útgerðirnar greiddu sjúkrasamlagsgjaldið fyrir sjómenn. Nú skal ég fúslega viðurkenna, að ekki veitti af að taka þennan pinkil af útgerðunum. En hvað var gert um leið? Jú, auðvitað, þessi pinkill kom á skattgreiðendur í gegnum tekjuskattinn, þannig að stjórnarvöldin tóku þessi fríðindi af sjómönnum, en lögðu þennan pinkil á þá aftur í gegnum tekjuskattinn. Þetta er í stórum dráttum saga hæstv. núv. ríkisstj. í sambandi við skattfríðindi sjómanna. Um hitt verður að gera kröfu til núv. hæstv. ríkisstj., að hún fari að tjá sig eitthvað um það, hvað hún ætli sér í þessum málum, hvað hún geri í sambandi við kröfur verkalýðsfélaganna. Það má vera, að það sé spilaður einhver pólitískur hókus-pókus hjá ákveðnum fjölda þeirra, sem þar fara með mál í dag. Ég er hins vegar viss um, að hinn stóri meiri hl. í launþegahreyfingunni hér á Íslandi mun ekki una því öllu lengur að heyra hvorki ábyrgt boð frá vinnuveitendum né neitt ábyrgt frá núv. hæstv. ríkisstj. Ég er hræddur um, að ef ekki heyrist eitthvað í sambandi við skattamál frá ríkisstj. og eins og ég sagði áðan: ábyrgt boð frá vinnuveitendum, þá muni eitthvað frekar heyrast á næstunni frá vinnandi fólki á Íslandi í sambandi við kaup og kjaramál þess.