24.01.1974
Sameinað þing: 46. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1752 í B-deild Alþingistíðinda. (1643)

41. mál, fjárreiður stjórnmálaflokka

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég vil strax láta í ljós, að ég styð mjög eindregið þessa þáltill., sem hér er til umr. og lýtur að rannsókn og lagasetningu varðandi fjárreiður stjórnmálaflokka, þar sem Alþ. ályktar að fela ríkisstj. í fyrsta lagi að láta fara fram opinbera rannsókn á fjárreiðum og eignum stjórnmálaflokka og í öðru lagi að láta undirbúa og leggja fyrir Alþ. frv. til l. um fjárreiður stjórnmálaflokka og eftirlit með þeim.

Þessi þáltill. speglar þann vanda, sem hefur alls staðar komið upp í lýðræðisríkjum, og er fólginn í því að tryggja, að hið svokallaða peningalýðræði ráði ekki alfarið í þjóðfélaginu, heldur verði minnihlutahópum tryggður möguleiki á því að koma fram skoðunum sínum og standa jafnvígis hinum fjármagnssterku aðilum í þjóðfélaginu í sambandi við frjálsa skoðanamyndun og baráttu fyrir framförum í þjóðfélaginu. Þetta vandamál hefur verið leyst víða á marga lund, og ég hygg jafnvel, að hið sérstæða Watergatemál í Bandaríkjunum sýni þann vanda, sem ríkir í lýðræðisþjóðfélagi, og í Bandaríkjunum, þar sem peningalýðræðið er líklega hvað mest, eru þó hin þingræðislegu öfl búin að setja ákveðnar hömlur í sambandi við stjórnmálaflokka þar í landi og fjáröflun til þeirra. Í Bretlandi hafa verið settar ýmsar skorður við og aðhald eð stjórnmálaflokkunum, og á Norðurlöndum hafa þegar verið settar ýmsar reglur eða eru í athugun. Þetta varðar líka blöðin. T. d. eru ákveðnar reglur um fjármagn til blaða. Þetta vandamál, sem hér er til umr., er m. ö. o. angi af því alþjóðavandamáli í lýðræðisríkjum, sem allar þjóðir eiga við að glíma. Það er því eðlilegt, að Íslendingar taki þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar, því að í okkar þjóðfélagi blasir það við, að einn flokkur, Sjálfstfl., er langsamlega fjármagnssterkasti flokkurinn og rekur útbreiddasta og fjármegnssterkasta blað landsins. Er því ekki nema eðlilegt, að hér þurfi að reyna að tryggja, að minnihlutahóparnir fái nokkurt jafnrétti í því efni.

Ég er því alveg samþykkur þeirri stefnu, sem hefur verið uppi hér á Alþ., að veita eitthvert fé til blaða til að tryggja hina svokölluðu frjálsu skoðanamyndun. Ég tel líka eðlilegt, að stjórnmálaflokkunum eða þingflokkunum sé veittur einhver styrkur í sambandi við hina svokölluðu sérfræðilegu aðstoð. Hins vegar er því ekki að leyna, að þetta eru orðnar allmiklar upphæðir. Það eru 32 millj. kr., sem veittar eru til blaðanna, allra blaða, og það eru 6 millj, til þingflokka. Þetta gerir hvorki meira né minna en 38 millj. kr. af opinberu fé. Því verður ekki neitað, að hér er í raun og veru allt of lengt seilst. Ég hygg, að þarna búi að baki fyrirtæki m. a., sem heitir Blaðaprent og ýmsir aðilar hafa þurft að styrkja og standa undir. En það, sem ég tel ámælisvert og aðfinnsluvert, eru þær úthlutunarreglur, sem gilda í sambandi við þessi mál öll, og ég skal aðeins víkja að þeim.

Í fyrsta lagi eru 6 millj. kr. veittar til þingflokka, 6 millj. kr. fyrir sérfræðiaðstoð. Nú vill svo til, að það leikur vafi á því, hvort ég geti talist þingflokkur eða ekki, og ég hygg að deila megi um það lögfræðilega. En þetta klókindabragð hjá hinum stöðluðu þingflokkum hér í þinginu veldur því, að í þessu er ekki jafnrétti. Ég lít svo á, að þessar 6 millj, til sérfræðiaðstoðar ættu fyrst og fremst að koma þar, sem veruleg þörf væri fyrir, og vil ég benda á í sambandi við það, að stórir þingflokkar eiga að sjálfsögðu miklu auðveldara með að skipta verkefnum á milli þm. Það er ólíkt þægilegra fyrir Sjálfstfl. með sinn fjölda þm. að skipta málaflokkum milli þm. og reyna að sinna þeim þannig heldur en fyrir litla flokka. M. ö. o. tel ég, að þeir þyrftu ekki ýkjamikla sérfræðiaðstoð. Hins vegar er miklu erfiðara í fámennum þingflokkum og sérstaklega þegar maður rær einn á báti eins og ég. Mætti ætla, að ég þyrfti líka einhverja aðstoð, og segir sig sjálft, að ég þarf ekki síður aðstoð, heldur miklu fremur, þar sem ég þarf einn að sinna öllum málum. Þörfin er í raun og veru meiri, eftir því sem þingflokkur er minni. Ég tel, að með þessu tæknilega atriði, að binda þetta við þingflokk á þennan hátt, sé hér ríkjandi sá andi, að verið sé að halda uppi tryggingakerfi þessara gömlu flokka, sem ég hef verið að deila á. Ég tel því fráleitt, hvernig þessum 6 millj. kr. er úthlutað til sérfræðiaðstoðar við þingmennina, að því skuli hagað þannig að útiloka nánast einn þm. með þessu undarlega orðalagi. Og kannske verður þetta enn augljósara í sambandi við úthlutun blaðastyrks.

Í fyrsta lagi tel ég, að það nái ekki nokkurri átt að úthluta 32 millj. kr. til blaðanna. Ég tel, að það sé allt of langt gengið, og vil taka það fram. Hitt þykir mér einkennilegt og sýnir erfiðleikana í þessu máli, að samkvæmt fjárlögum átti nefnd að úthluta þessu fé, deila til blaðanna, og voru skipaðir í þessa n. fulltrúar frá þingflokkunum. En það kom í ljós, að þessi n. gat ekki komið sér saman um, hvernig ætti að úthluta þessu fé, gafst upp. Þess vegna var þessu vísað til fjmrn., sem úthlutaði því fé, sem var á síðustu fjárlögum, 18 millj. kr. Mér hefur skilist af því, sem ég hef kynnt mér, að í þessari n. sætu m. a. tveir menn, sem eru nú að bræða sig saman í svonefndan Jafnaðarmannaflokk, og ég get nefnt þá. Það er núv. form. Alþfl. og það er núv. félmrh. Þeir lögðust mjög gegn því, að það blað, sem ég stend að ásamt mínum félögum og heitir Nýtt land, fengi eina krónu til styrktar, þó að úthluta ætti 18 millj. til blaðanna. Þetta var jafnaðarhugsjónin, og ég vil frábiðja mig slíkri jafnaðarmennsku. Á hverju eiga þeir von, sem kjósa þessa menn sem brautryðjendur jafnaðarmennsku. Þetta sýnir hvert stefnir. En þetta er einn þáttur í því að reyna að leggjast á það, sem ég kalla frjálsa skoðanamyndun, og einhverjar nýjar hreyfingar í þjóðfélaginu. Þess vegna fór þetta til fjmrn., af því að þessir höfuðskörungar gátu ekki komið sér saman um í n. hvernig ætti að úthluta þessu, og jafnaðarmannaforingjarnir — þeim sé lof og dýrð — lögðu á það allt kapp að standa gegn því, að Nýtt land fengi nokkurn styrk eins og hin blöðin.

Í sambandi við þessa úthlutun langar mig að greina frá því, að það voru búnar til einhverjar úthlutunarreglur, að því er mér virðist, og ein var sú, að grundvallartala var að láta 600 þús. kr. fara til þingflokka. Það var stofngjaldið. Nú er ekki verið að veita sérfræðilega aðstoð við þingflokka, heldur er hér verið að tryggja frjálsa skoðanamyndun í landinu. Það er grundvallareining, 600 þús. kr. til þingflokka. Það er eins og þingflokkarnir séu einir allra aðila með skoðanamyndun. En þetta var náttúrlega lausnarorð, því að þá var hægt að tryggja, að þingflokkarnir, sem hér væru fyrir, fengju 600 þús., kr. sem eina grunneiningu, en um leið var hægt að tryggja, að sú hreyfing, sem ég stend að, hefði þar ekki aðild að.

Nú má segja sem svo, að hér sé um að ræða frjálsa skoðanamyndun og þá auðvitað ekki miðað við þingflokkana, heldur stjórnmálaflokkana og líka ýmsa þá aðila í þjóðfélaginu, sem vilja koma fram með ný sjónarmið og standa að nýjum hræringum í þjóðfélaginu. En með því að binda frjálsa skoðanamyndun við þingflokka í þinginu, er verið að tryggja þá flokka, sem fyrir eru, og reyna að bægja öðrum hugsanlegum hreyfingum frá. Hvernig tekur þetta sig út í raun? Ég skal aðeins sýna, hvernig þetta kemur út.

Einn glæsilegasti stjórnmálaflokkur landsins heitir Samtök frjálslyndra og vinstri manna, og blaðaútgáfa þessa flokks eða samtaka var, eftir því sem ég hef komist að raun um, 22 tölublöð af Þjóðmálum. Þeir hafa gefið að auki út mikið rit og gott á Akureyri, sem heitir Verkamaðurinn, 17 tölublöð á s. l. ári. M. ö. o. þessi flokkur hefur gefið út innan við 40 töluhlöð á árinu og fær fyrir það, að mér skilst, 1 millj. og 200 þús. kr. Þetta er dálaglegur skildingur fyrir að gefa út innan við 40 tölublöð. En það er ekki nóg með það að afhenda 1.2 millj. kr. á þennan hátt af almannafé, heldur vil ég benda á, að þessar 600 þús. kr., sem fóru til þingflokkanna, áttu að fara til þess að styrkja blöð á landsbyggðinni. Samtök frjálslyndra hafa m. ö. o. gefið út Verkamanninn í 17 tölublöðum á árinu 1973 og fá út á það 600 þús. kr. Dálaglegur skildingur það.

Hitt verð ég að segja, að þegar blöð eru styrkt af hinu opinbera á þennan hátt, vaknar sú spurning, hvort eigi ekki að gera nokkrar kröfur til þessara hlaða. Á að taka fé úr almanna sjóði, afhenda það blöðunum, án þess að séu gerð er nokkrar kröfur í staðinn? Að sjálfsögðu ekki. Ég vil t. d. taka eitt, sem allir vita, það er það, að blöðin fá greiddar opinberar auglýsingar. Það er annar liður. Það er þjónusta, sem blöðin veita, og þetta er greitt, opinberar auglýsingar. Ég skal nú lesa upp fyrir þingheimi, hvernig misnotkunin er á þessu í Þjóðmálum, í því blaði og þeim flokki, sem fær 1.2 millj. á ári fyrir að gefa út 40 tölublöð. Því greip ég í 17. tölublað af Þjóðmálum, og sem er með dagsetningunni 17. okt. 1973. Blaðið kom út um skeið, ég vil ekki segja vegna málefnafátæktar, en það var einhver aumingjaskapur yfir blaðinu, — það kom út um nokkurt skeið framan af árinu svona aðra og þriðju hverju viku eftir veðurfari. En aðstandendur Þjóðmála eru svo grínagtugir og skemmtilegir, að þó að tölublaðið komi út 17. okt., hálffylla þeir hlaðið með opinberum auglýsingum um umsóknir um stöður og auglýsingu frá Húsnæðismálastofnun ríkisins o. s. frv., þar sem þessar auglýsingar eru gjörsamlega ónýtar, því að umsóknarfrestur og annað er útrunnið fyrir hálfum mánuði eða mánuði. Ég skal nú, þingheimi til skemmtunar, lesa þetta örlítið.

Hér er auglýsing frá Æskulýðsráði Reykjavíkur, hana á líklega Reykjavíkurborg að greiða: Styrkir vegna nýjunga í starfi æskulýðsfélaga.“

Síðan segir: ,,Æskulýðsráð Reykjavíkur mun á þessu hausti veita nokkra styrki til þeirra æskulýðsfélaga, er hyggja á nýjungar í starfi sínu í vetur. Umsóknir um slíka styrki með ítarlegri grg. um hina fyrirhuguðu tilraun eða nýbreytni óskast send framkvæmdastjóra ráðsins, Fríkirkjuvegi 11, fyrir 15 okt. n. k.“ En blaðið kemur út 17. okt.

Hér er auglýsing um skoðun bifreiða í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Ég sé ekki betur en það yrði búið að skoða allar þessar bifreiðar, löngu áður en blaðið kemur út.

Hér er önnur hver auglýsing af þessu tagi. Það er tilkynning frá Stofnlánadeild landbúnaðarins, þar sem á að vera búið að skila umsóknum um lán fyrir 15. okt. Orðsending frá bæjarstjórn Vestmannaeyja um, að væntanlegir starfsmenn gefi sig fram við bæjarskrifstofuna fyrir 1. okt. n. k., en blaðið kemur út 17. okt. Svo kemur eitt, sem er athyglisvert, sérstaklega fyrir fjmrh., tilkynning til söluskattsgreiðenda: „Athygli söluskattsgreiðenda skal vakin á því, að gjalddagi söluskatts fyrir septembermánuð er 15. okt. Ber þá að skila skattinum til innheimtumanna ríkissjóðs ásamt söluskattsskýrslu í þríriti. — Fjmrn. 10. október 1973.“

Þannig er hægt að lesa áfram. Hér er auglýst starf við heyrnarmælingar hjá heyrnardeild Heilsuverndarstöðvarinnar, lausar stöðum við bæjarfógetaembættið í Keflavík, ríkisspítalarnir, lausar stöður, það vantar aðstoðarlækni, starfsfólk við Kleppspítalann, Laugarásdeildina, fóstrur á dagheimili spítalans, aðstoðarmenn við hjúkrun, sjúkraliða. Svo er dálítið merkilegt: Nokkrar stöður meinatækna að meinefna- og blóðmeinafræðideild Landsspítalans. Umsóknum ber að skila til skrifstofu ríkisspítalanna fyrir 15. okt. n. k.

Þannig má halda áfram að lesa og lesa. Spurningin er: Hvers konar vinnubrögð eru þetta, og hvílík gífurleg misnotkun felst í þessum vinnubrögðum, þegar svona er haldið á málum. Ég kalla þetta stuld, ég kalla þetta rán af opinberu fé. Það er ekkert annað. Hér er verið að skáka í því skjólinu að fá opinberar auglýsingar greiddar og haga sér á þennan hátt. Það er verið að sækja fé úr opinberum sjóðum. En það verður að gera kröfur til þeirra aðila, sem fá þetta fé, að þeir vinni á eðlilegan hátt, og þeir verða að hlíta einhverjum ákveðnum reglum. Hitt geta menn svo haft sér til gamans og velt því fyrir sér, að einum stjórnmálaflokki eru veittar 600 þús. kr. á ári á þeirri forsendu, að hann gefur út eitt landsmálablað, sem hefur komið út í 17 tölublöðum á árinu.

Ég vil, þótt ég ætli ekki að fara út í neinn samanburð á þessu, benda á, að Nýtt land hefur þó a. m. k. haldið sig innan hins siðferðilega ramma í þessum efnum. Við höfum gefið út 47 tölublöð, en erum ekki hálfdrættingur á við þennan glæsilega endurnýjunarflokk Íslenskra stjórnmála, sem gengur undir nafninu Samtök frjálslyndra og vinstri manna.

Ég lít svo á, að þær úthlutunarreglur, sem virðast hafa verið lagðar til grundvallar í sambandi við hinn svonefnda blaðastyrk, beri bersýnilega vott um, að hér er ríkjandi í þingsölunum að styrkja það flokkakerfi, sem fyrir er. Mér er óskiljanlegt að þingflokkarnir skuli vera aðilar að slíkum hlutum. Ég vil líka benda á, að það er ekki víst, að þingflokkarnir spegli skoðanamyndun í landinu. Eftir þriggja ára setu hér á þingi er ekki víst, að þeir séu endilega spegilmynd af viðhorfum þjóðarinnar. Við þurfum ekki annað en að benda til Danmerkur, hvernig ástandið er orðið þar. Það fyrirkomulag að úthluta fé til frjálsrar skoðanamyndunar til þingflokka tel ég alveg fráleitt. Og ég legg áherslu á það og vil endurtaka, að það er skylda blaðanna og þeirra aðila, sem taka á móti opinberu fé, að reyna a. m. k. að misnota ekki þessi fríðindi og hlunnindi, sem veitt eru úr opinberum sjóðum.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu lengri, það er víst nóg komið ef svo góðu, en vil aðeins að lokum segja, að þessi mál, sem varða úthlutun fjár til blaða og sérfræðiaðstoðar til þingflokkanna upp á 38 millj. kr., eru Alþ. ekki til sóma. Mér virðist, að það sé staðið þannig eð þessum málum, að hér þurfi veralegrar lagfæringar við og í sumum tilvikum sé um misnotkun á þessu fé að ræða. Að lokum þetta: Ég hygg, að þingflokkarnir, þessar virðulegu stofnanir, ættu að átta sig á því, að frjáls skoðanamyndun með þjóðinni fer viðar fram en í þingflokkum.