24.01.1974
Sameinað þing: 46. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (1644)

41. mál, fjárreiður stjórnmálaflokka

Flm. (Jónas Árnason) :

Herra forseti. Ég var fjarverandi, þegar þetta mál kom hér til umr. 6. des. s. l., en fyrir því töluðu þá tveir af okkur þremur flm., þeir hv. þm. Ragnar Arnalds og hv. þm. Helgi Seljan. Ég hef verið að glugga í Alþingistíðindin og sé, að í þessum umr. hefur ekki að ástæðulausu verið töluvert rætt um tiltekin skrif Morgunblaðsins, sem voru reyndar tilefni þessarar till., dylgjur um fjárreiður tveggja stjórnmálaflokka, Alþb. og Framsfl. Einnig var af hálfu þeirra þm., Ragnars Arnalds og Helga Seljans, rætt um, að formaður Sjálfstfl. hefði nokkru eftir að þetta birtist í Reykjavíkurbréfinu, verið inntur eftir því, hvað þarna væri átt við, og hann lét þau orð falla, að þarna mundi vera átt við grunsamlegar fasteignir í tengslum við Alþb. Það væri fróðlegt að vita, hvað hv. form. Sjálfstfl. á við með grunsamlegum fasteignum, og þá um leið, hvaða fasteignir eru ógrunsamlegar. Ég tel að það hafi verið mælt nógu rækilega fyrir þessari till. með ræðum þeirra þm. Ragnars Arnalds og Helga Seljans. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. En það vildi svo til, þegar fyrri hluti þessarar umr. fór fram, að þá var hvorugur staddur hér í þingsalnum, form. Sjálfstfl. né heldur sá ritstjóri Morgunblaðsins, sem án efa hefur skrifað umrætt Reykjavíkurbréf. Sá eini þm. auk þeirra, sem ég áðan nefndi, sem tók til máls um till. þennan dag, 6. des., var hv, þm. Magnús Jónsson, og hann segir í ræðu sinni á einum stað, að hann sjái ekki ástæðu til að svara fyrir þessa menn, þeir séu sjálfir menn til þess. Af því að þeir eru hér staddir, þegar framhald umr. fer fram, læt ég í ljósi undrun mína, að þeir skuli ekki hafa kvatt sér hljóðs til að gera nánari grein fyrir þessum ummælum sínum, því að það virðist sannarlega ástæða til.