24.01.1974
Sameinað þing: 46. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1762 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

41. mál, fjárreiður stjórnmálaflokka

Flm. (Jónas Árnason) :

Herra forseti. Ég mætti kannske beina til hæstv. forseta fsp. um það, hvort hv. þm. Eyjólfur Konráð sé á mælendaskrá? (Forseti: Það er einn maður á mælendaskrá, hv. 2. þm. Reykv.) Satt að segja væri lítill drengskapur í því núna, eftir að hæstv. forseti hefur skorið niður umr., að fara að beina frekari fsp. til þess þm., sem ég nefndi áðan. En í ræðu minni áðan vakti ég athygli á því, að við fyrri hluta þessarar umr. hafi hann verið allmjög til umr., og þá sagði flokksbróðir hans, hv. þm. Magnús Jónsson, m. a.: „Ég ætla ekki að fara sérstaklega að útskýra leiðara eða Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins. Ég býst við, að Morgunblaðsmenn fylgist með því, sem hér hefur verið sagt í dag af hv. þm. Ragnari Arnalds, og væntanlega fær hann eitthvert svar úr þeirri átt. Þeir eru alveg færir um það, Morgunblaðsritstjórar, að svara fyrir sig.“

Ég mælist til þess sem einn af flm. till., að annað tækifæri verði gefið og till. ekki vísað til n. í dag, heldur frestað aftur, svo að við getum fengið að heyra nánari útskýringar frá þessum hv. þm. á ýmsu því, sem hann hefur skrifað í Morgunblaðið varðandi fjárreiður stjórnmálaflokka, þ. á m. á þessu, sem stendur í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 29. sept., þar sem fyrst hefur verið rætt um mjög grunsamlegar fjárreiður Framsfl.: „Raunar virðast kommúnistar einnig hafa ærið fé undir höndum.“ — Allir vita, hvað átt er við með orðinu „kommúnistar“. — „Hins vegar er það ekkert dularfullt, því að allir vita, hvaðan þeir peningar koma.“ Vinsamlegast nánari útskýringar á þessum orðum.