30.10.1973
Sameinað þing: 9. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

350. mál, sjálfvirk viðvörunarkerfi

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Sú fsp., sem beint er til mín varðandi það mál, sem hv. 3. þm. Reykn. reifaði, er svo hljóðandi:

„Hvað líður framkvæmd þál. frá 6. apríl um ítarlega könnun á notagildi sjálfvirkra hálkuviðvörunarkerfa á hraðbrautir?“

Með bréfi, dags 28. júní s. l., var Vegagerð ríkisins falið að annast þá könnun, sem fsp. greinir frá. Þar sem hér er í flestum tilvikum um flókinn rafmagns- og fjarskiptaútbúnað að ræða, fékk Vegagerðin verkfræðifyrirtækið Rafagnatækni í lið með sér til þess að annast þessa könnun. Könnunin hefur til þessa einkum beinst að eftirfarandi:

l. Söfnun upplýsinga frá nágrannalöndum um framkvæmdir af þessu tagi á þjóðvegum og götum.

2. Gagnasöfnun úr erlendum tímaritum.

3. Söfnun upplýsinga um tækjabúnað frá framleiðendum.

4. Athugun á skýrslum lögreglu um óhöpp á hraðbrautum, sem stafa af hálku.

5. Könnun á sambandi milli veðurfars og ísingar á vegum í samvinnu við Veðurstofu Íslands.

Stefnt er að því, að 1. des. n. k. liggi fyrir skýrsla yfir þessar athuganir. Að henni lokinni verður kannað, hvort eitthvert eða hvaða ísvarnakerfi kunni að hæfa hér á landi og hvað það kosti. Að þeirri athugun lokinni mun Vegagerðin skila lokaskýrslu um málið.