28.01.1974
Efri deild: 51. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. hefur gert varnarmál að umtalsefni hér utan dagskrár. Aðalefni ræðu hans virtist mér vera það, að hann krefðist umr. í utanrmn. um þessi mál. Um það vil ég segja, að ég er hvenær sem er reiðubúinn til umr. í utanrmn. um þessi mál. Skýrsla um viðræðufund við sendinefnd frá Bandaríkjamönnum var lögð fram í utanrmn. í nóvembermánuði s. l. Varð að samkomulagi í n., að ræða ekki till. á þeim fundi, vegna þess að menn voru ekki búnir að kynna sér efni skýrslnanna, og það tel ég algerlega eðlilegt. Síðan hef ég verið reiðubúinn til að ræða þessi mál í utanrmn., en að vísu ekki haft frumkvæði að því, að það yrði gert. En ég tel ekkert því til fyrirstöðu, að við ræðum þau mál við fyrsta tækifæri í utanrmn. Það skal ekki standa á mér að gera það.

Þá gerði hv. þm. að umtalsefni birtingu orðsendinga frá Norðmönnum og frá hermálanefnd NATO, sem vitnað hefði verið til og Joseph Luns, framkvæmdastjóri NATO, gerði mönnum hér grein fyrir. Hv. 2. þm. Reykv. vildi, að þessar orðsendingar yrðu birtar almenningi. Um orðsendingu frá hermálanefnd NATO er það að segja, að hún var afhent okkur sem algert leyndarskjal NATO, og ég hef ekki talið mér leyfilegt að rjúfa þann trúnað. Hins vegar var það fyrir jólin, að í Brüssel voru birtar meginniðurstöður þessarar ályktunar. Ég get að sjálfsögðu hvenær sem er gert ráðstafanir til. að hingað berist það, sem sagt var í Brüssel um þessi mál, ef það hefur ekki þegar verið gert.

Um orðsendingu Norðmanna er það að segja, að ég hef ekki talið viðurkvæmilegt að birta þá orðsendingu og mun ekki gera nema með leyfi Norðmanna. En eftir því má auðvitað leita, ef utanrmn. t. d. telur efni standa til þess.

Um þær till., sem ég hef leyft mér að hera fram í ríkisstj. og gerði að umtalsefni lauslega í áðurnefndum sjónvarpsþætti, vil ég segja það, að ég mun ekki lesa þær upp hér eða skýra frá þeim í einstökum atriðum. Ég hef skýrt frá meginatriðunum. Þetta eru till. að viðræðugrundvelli og eru hugsaðar til að leggja fram í viðræðum við Bandaríkjamenn, ef samstaða næst um það í ríkisstj. Nú er einmitt verið að fjalla um þessar till. í ríkisstj., þannig að ekki er víst, hvaða till. það verða, sem fram verða lagðar. En áður en farið verður með endanlegar till. til samningafunda, mun ég gera grein fyrir þeim í utanrmn., því lofa ég. Þetta eru till. mínar og Framsfl. og markar þá stefnu, sem við viljum halda. Það liggur ekki neitt fyrir um það, hverjum breytingum þær kunna að taka í ríkisstj., og ég vona, að við verðum ekki sakfelldir fyrir að taka okkur góðan tíma til að athuga þessi mikilvægu mál. Það erum við nú að gera.

Ég vil draga saman niðurstöður þess, sem ég hef hér sagt. Ég skal hvenær sem er gangast fyrir því, að fundur verði haldinn í utanrmn. og þar verði þessi mál rædd. Það tel ég alveg eðlilegt um órædda skýrslu Porters, sendimanns Bandaríkjastjórnar, og það, sem síðast kann að hafa gerst. Ég skal gera ráðstafanir til þess, að það, sem NATO hefur þegar viljað láta birta úr skýrslu sinni um varnarmálin, verði aðgengilegt fyrir þá íslensku aðila, sem þess óska. Og ég mun athuga, hvort Norðmenn kæra sig um, að orðsending þeirra verði birt.