28.01.1974
Efri deild: 51. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1779 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Mig langar aðeins til að gera örstutta aths. við ummæli hv. 2. þm. Reykv. um það samráð, sem haft hefur verið við utanrmn. Hann nefndi þar sérstaklega til landhelgismálið og sagði, að samstarfið við utanrmn. hefði farið þannig fram, að ríkisstj. hefði tilkynnt um þær ákvarðanir, sem hún hefði tekið, en ekki leitað samráðs við n. fyrir fram. Þetta er að nokkru leyti rétt, en ekki að öllu leyti. Ég minnist þess, að á fyrri stigum landhelgismálsins var stundum, og að ég hygg oftar en einu sinni a. m. k. leitað samráðs við utanrmn. og stjórnarandstæðinga í utanrmn. um það, hvað til ráða væri, hvað til bragðs skyldi taka, þegar verið var að fjalla um samningatill. fyrst og fremst við Breta og Vestur-Þjóðverja. Ég vona, að ég fari ekki með rangt mál, — mig misminnir þá meira en lítið, ef það er ekki rétt hjá mér, — að svör stjórnarandstæðinga hafi iðulega verið þau, bæði í landhelgisn. og utanrmn., að það væri ríkisstj., sem þyrfti að taka ákvörðun, og stjórnarandstaðan mundi lítið geta sagt, fyrr en sú ákvörðun lægi fyrir. Hins vegar viðurkenni ég, að í sambandi við Haag-dómstólinn og málflutning okkar fyrir honum er það vissulega rétt, að ríkisstj. lagði fram fullmótaðar till. í utanrmn. En það helgaðist af því, að hún hefur frá upphafi haft ákveðna stefnu í því máli, sem sagt þá að flytja málið ekki fyrir Haag-dómstólnum, og hefur það verið að allra vitorði á öndverðum meið við stjórnarandstöðu.

Ég vil segja um varnarmálin, að þau eru ekki komin á það lokastig, að ég hafi talið sérstaka ástæðu til að ræða þau í utanrmn., vegna þess að þær till., sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni, eru einungis till. mínar í ríkisstj., og við vitum ekki enn, hvaða mynd þær fá á sig þar. Hins vegar sagði ég í þeim fáu orðum, sem ég sagði hér áðan, og vil gjarnan endurtaka, að áður en til endanlegrar afstöðu kemur, mun málið verða rætt í utanrmn. Og ég skal með mikilli ánægju hafa milligöngu um að tala við form. utanrmn. um, að sá fundur, sem hv. 2. þm. Reykv. gerði að umtalsefni og óskar eftir, að haldinn verði, hann verði haldinn.