28.01.1974
Efri deild: 51. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1785 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

176. mál, jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Mig langar þegar við þessa 1. umr. um frv. til l. um jarðgufuvirkjun við Kröflu að gera nokkur almenn atriði orkumála að umræðuefni í stuttu máli og nota tækifærið og varpa fáeinum spurningum til hæstv. ráðh.

Ég vil í upphafi fagna þessu frv., sem er sannarlega tímabært. Í fyrsta lagi hef ég lengi verið þeirrar skoðunar, að við Íslendingar hefðum átt að virkja gufusvæði fyrr. Sú reynsla, sem þannig fæst, er ákaflega mikilvæg, eins og kom fram hjá hæstv, ráðh. Auk þess er ljóst, að vatnsvirkjanir okkar verða miklu öruggari, ef þær eru studdar af virkjunum gufusvæða, eins og komið hefur fram nú í vetur. Í vatnsskorti í frostum og erfiðu ástandi getur verið ákaflega mikilvægt að hafa slíkar stöðvar með vatnsaflsstöðvunum. Ég hef talið, að það hafi verið rangt að hverfa frá virkjun í Hveragerði, en það er önnur saga.

Auk þess er mjög mikilvægt að fá góða og stóra virkjun á Norðurlandi og dreifa þannig virkjunum okkar Íslendinga, fá þær sem víðast um landið, þar sem hagkvæmt er. En það eru þó fyrst og fremst önnur atriði, sem ég vil gera hér að umræðuefni.

Virkjanir eru mjög á dagskrá, ekki síst vegna hinnar miklu hækkunar, sem orðið hefur á olíuverði og vekur athygli á mikilvægi þess, að við nýtum innlenda orkugjafa í eins ríkum mæli og frekast má, raunar ekki aðeins til upphitunar húsa, heldur hverra annarra orkuþarfa, sem olían þjónar nú.

Ég hef hjá mér nýlegar upplýsingar, sem mþn. um byggðamál hefur fengið frá forstöðumanni hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnun ar ríkisins. Þegar þessar tölur eru umreiknaðar á því olíuverði, sem talið er líklegt sem lágmarkshækkun á olíu nú á næstunni, þ. e. a. s. 12,35 kr. hver lítri, sem talið er, að geti orðið í mars, sýnist mér, að munur á upphitun húsa með olíu annars vegar og jarðhita hins vegar verði a. m. k. 3½ sinnum hærri upphitunarkostnaður á hvern rúmmetra með olíu heldur en með jarðhita á grundvelli Reykjavíkurverðs um síðustu áramót. Nú er ljóst, að hitaveituverðið kann að sjálfsögðu að hækka nokkuð. En þetta sýnir þó, að þarna verður svo gífurlegur munur, að hið opinbera hlítur að láta þessi mál til sín taka. Þarna getur orðið um 100 þús. kr. mun fyrir meðalfjölskyldu í meðalhúsnæði að ræða og þarf minna en slíkan bagga til að raska byggðajafnvægi, sem oft er um talað. Ég vil því í fyrsta lagi spyrja hæstv. ráðh. og vona, að mér leyfist það undir þessum dagskrárlið, hvort ríkisstj. sé með eitthvað slíkt í athugun.

Þá er það að sjálfsögðu ljóst, að þarna skapast millibilsástand, því að eins og allir þekkja verður ekki virkjað svo fljótt, að þessari nauðsyn verði fullnægt, nema á nokkrum árum. Nú mun tæplega helmingur landsmanna, um 96.430 manns, njóta upphitunar frá jarðhita. Rafhitunar frá rafveitum njóta um 13 þús. manns, rafhitunar frá einkastöðvum 1100 manns, en olíukyndingu hafa 101.370 manns. Rétt um helmingur verður að notast við olíukyndingu, en tæplega helmingur hefur jarðhita. Hins vegar hefur verið áætlað, að teygja megi jarðhitaupphitun til um það bil 65% landsmanna. Það eru að sjálfsögðu fyrst og fremst svæðin í kringum höfuðhorgina, þ. e. a. s. Reykjanes og Árnessýsla öll, líklega mestur hluti Borgarfjarðarsýslu, síðan ýmis svæði á Norðurl. v. og Norðurl. e., en eftir verða á þessum svæðum allstórar byggðir og auk þess allir Vestfirðir og allir Austfirðir.

Áætlað er, að þessi 35% landsmanna þurfi um 800–1000 gwst., þ. e. a. s. 800–1000 millj. kwst. til upphitunar síns húsnæðis, eins og nú er. Þá er að sjálfsögðu ekki tekin með sú aukning á mannfjölda, sem væntanlega verður á þeim tíma, sem þetta verður gert. Þetta samsvarar, að því er mér sýnist, þegar reiknað er með 4500 tíma nýtingu, um það bil 180–200 MW. Nú vaknar að sjálfsögðu sú spurning, hvernig og hve fljótt þetta verður tengt rafveitum. Og ég vil varpa fram þeirri spurningu til hæstv. ráðh., hvort athugun sé hafin á því. Ég tel ákaflega mikilvægt, að það sé gert án tafar.

Af þessum 800 gwst., ef við notum þá tölu, eru nú 127 samkv. þeim tölum, sem ég hef fengið, tengdar rafveitu, þ. e. a. s. það eru 127 gwst., sem notaðar eru í dag til upphitunar húsnæðis. Á Vestfjörðum mun þörfin vera um það bil 100–110 gwst. og eitthvað svipað í Austurlandskjördæmi, ef þetta er reiknað eftir fólksfjölda.

Nú er því miður ljóst, að nokkuð mun lengra í land að tengja þessa landshluta megin raforkukerfi landsins en þá, sem njóta t. d. byggðalínunnar norður, sem væntanlega verður hafin framkvæmd við þegar á þessu sumri. Þessir landshlutar tengjast varla meginraforkukerfinu fyrr en í fyrsta lagi við lok þessa áratugs. Hæstv. ráðh. nefndi, að hann hefði falið þeim vinnuhópi, sem athugað hefur línurnar norður, að kanna línu áfram þaðan og austur og væntanlega þá jafnframt að styrkja þær línur þaðan og suður um Austfirði. Ég vil varpa þeirri spurningu enn til hans, hvort nokkur athugun sé hafin á því að tengja Vestfirði rafveitukerfi landsins.

Mjög lauslega athugað sýnist mér um 200 km. fjarlægð frá byggðalínu, sem kæmi niður í Hrútafjörð, að Mjólká. Kostnaður við þá línu yrði líklega um 250 millj. kr. Þetta er ákaflega lauslegt, og ég tel mjög nauðsynlegt, að á þetta sé litið hið allra fyrsta.

Ég hef dregið þarna frá um það bil 300 gwst., og þá er spurningin sú, hve fljótt er hægt að tengja það, sem eftir er, um 600 gwst., við meginraforkukerfi okkar.

Byggðalína er ráðgerð á árunum 1974–1975. En þótt þessi lína tengi mjög stórt svæði landsins við virkjunarkerfi Landsvirkjunar, er það eitt ekki fullnægjandi. Styrkja þarf, hygg ég, flestar dreifilínur frá þessari meginlínu, og ég hygg, að það þurfi að styrkja dreifikerfi þéttbýlisstaða, og raunar þarf að kanna, á hvern máta raforkan verður nýtt til upphitunar. Þar kemur tvennt til greina: annars vegar bein rafhitun, þ, e. a. s. orkan leidd í hvert hús og þá notaðir þar ofnar eða önnur tæki, eða upphitun frá miðstöð og þá heitt vatn leitt um staðinn. Þetta hvort tveggja hefur sína kosti og sína galla.

Stofnkostnaður er að öllum líkindum minni við beina rafhitun, því að stokkar í götur eru kostnaðarsamir. Hins vegar hefur það þann kostinn, að þá má hafa þar varaketil sem nýtir hráolíu og getur þá hlaupið undir bagga, þegar línur bila eða rafrokuskortur verður. Þetta er að sjálfsögðu stórum erfiðara, þegar um rafhitun í einstökum húsum er að ræða. Þarna koma því atriði enn, sem verður að skoða mjög fljótlega, og ætti að hefja þá athugun án tafar. Hvað er það mikið fyrirtæki að styrkja okkar dreifilínur frá meginlínunum, og hvernig er skynsamlegast að nota raforkuna til upphitunar á þéttbýlisstöðum? Vil ég enn beina þeirri spurningu til hæstv. ráðh., hvort þetta atriði sé í athugun.

Það er eðlilegt, að spáð sé, hvað það tæki langan tíma að tengja þessar 500 gwst. í upphitun. Ég varpaði þeirri spurningu fram fyrir nokkrum kvöldum við fróðustu menn um þessi mál á fundi rafmagnsverkfræðinga. Út úr þeim vangaveltum, sem þar urðu, kom sú niðurstaða, að e. t. v. mætti tengja þriðjunginn af þessu árin 1976–1977, en tengingu alls þessa yrði varla lokið, þó að ekkert fjármagn skorti, fyrr en í lok áratugsins. Þetta er ákaflega lausleg áætlun og þarf langtum nánari athugunar við að sjálfsögðu. En ef við styðjumst við hana, virðist mér, að þriðjunginn af þessu mætti tengja í kringum 1977. Það eru um 150–160 gwst., og samsvarar það, miðað við 4500 nýtingartíma, um 40–45 MW. Þá vaknar sú spurning, hvort við höfum þá orku aflögu í kringum 1977.

Næsta stóra skrefið í okkar virkjunarmálum er að sjálfsögðu Sigalda með um 100 MW afli. Þá á lína norður að vera komin, þannig að Sigalda á að geta fært orku til æðistórs svæðis. Vitanlega hefur orðið hér almenn aukning á þörf, sem Sigalda þarf að fullnægja. En í fljótu bragði virðist mér ástæða til að ætla, að Sigalda geti vel fullnægt þessari orkuþörf, sem þarna væri þá tengd, og jafnvel miðlað nokkurri orku til orkufreks iðnaðar.

Ljóst er, að þetta álag hlýtur að aukast mjög hratt. Talað hefur verið um Kröfluvirkjun 1977. Ég held, að það sé nú æðimikil bjartsýni og skynsamlegra, miðað við ýmsar aðstæður nú, eins og afgreiðslutíma á vélum og fleira, að gera sér ekki vonir um Kröflu fyrr en 1978. Hún kemur þarna inn með mikið afl, að vísu í áföngum, en við skulum segja 25–30 MW, til að byrja með og afganginn af þessum 55 fljótlega, þannig að næsta þriðjungi af þessari orkuþörf mætti líklega fullnægja með Kröfluvirkjun.

Ef við ætluðum að taka allt þetta upphitunarálag á raforkuna eins fljótt og frekast er unnt, og það yrði fyrir eða við lok þessa áratugs, er önnur virkjun strax orðin nauðsynleg. Því hygg ég, að það verði þegar að hefja athugun á slíku. Við vitum, að Hrauneyjarfoss er tilbúinn til virkjunar. Það má bjóða það verk út nokkurn veginn hvenær sem er eða með tiltölulega litlum aðdraganda. Ég fyrir mitt leyti tel æskilegt að virkja á öðru vatnsaflssvæði, en ekki ber að útiloka Hrauneyjarfoss. Ég hef flutt hér á þessu þingi tillögu og lagt áherslu á, að stefnt verði markvisst að einhverri myndarlegri vatnsaflsvirkjun eða annarri stórvirkjun en Kröflu á Norðurlandi. Hæstv. ráðh, minntist á Blöndu og Dettifoss, og ég er honum sammála, þessar virkjanir eru eflaust nærtækastar á því svæði. Þær eru raunar nauðsynlegar mjög fljótlega vegna þess, sem ég hef nú rakið, og vil ég því varpa þeirri spurningu til hæstv. ráðh., hvort ekki sé nú jafnframt athugað, hvaða virkjun ætti að fylgja Kröflu, því að eins og ég hef lagt áherslu á, þarf það að gerast fljótlega.

Því miður óttast ég, að þessar virkjanir, sem nefndar eru, geti aldrei orðið tilbúnar fyrr en 1980–1981, jafnvel með góðri og mikilli vinnu. Það þarf æði umfangsmiklar jarðfræðiathuganir. A. m. k. hygg ég, að svo sé við Blöndu, þar sem lítið hefur verið gert, en eitthvað meira hefur verið framkvæmt við Dettifoss, en aðstæður þar að sumu leyti taldar erfiðari.

Um þetta mætti að sjálfsögðu segja margt fleira en ég hef hér rakið. Fyrst og fremst vildi ég nota þetta tækifæri til að fá nokkrar umr. um þetta mjög mikilvæga mál, sem við hljótum að setja í fremstu röð í hugmyndum okkar um framkvæmdir á næstu árum.