28.01.1974
Efri deild: 51. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1798 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

176. mál, jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur Hermannsson bar hér fram ýmsar spurningar, sem sjálfsagt brenna þungt á okkur öllum vegna þeirra nýju aðstæðna, sem skapast hafa vegna olíuskorts og hækkunar verðlags á olíu í landinu. Hv. þm. benti mönnum m.a. á það, hver yrði aðstöðumunur fólks eftir því, hvort það byggi við hitaveitu frá innlendum orkugjöfum eða yrði að hita híbýli sín með raforku. Þarna væri um mun að ræða, sem gæti komist upp í 100 þús. kr. á ári fyrir meðalfjölskyldu. Og hann spurði, hvort ríkisstj. hefði i huga einhverjar aðgerðir til að jafna þennan aðstöðumun.

Ég hef rætt þetta mál á ríkisstjórnarfundum nokkrum sinnum að undanförnu, og ég hygg, að það sé sameiginleg afstaða ríkisstj., að þetta sé vandamál, sem verði að taka á. Þetta er svo mikill aðstöðumunur, að ekki er nokkur leið að una honum, og verður að jafna þessi met með einhverjum hætti. Þetta mál hefur verið kannað sérstaklega, þ.e.a.s. safnað vitneskju um það á vegum iðnrn. og viðskrn., og á grundvelli þeirrar gagnasöfnunar vænti ég þess, að lagðar verði fram till. um, hvernig hægt verði að bregðast við þessum vanda. Ég teldi það skipta ákaflega miklu máli, að allir flokkar þingsins sameinuðust um að leysa þetta vandamál f stað þess að snúa því upp í eitthvert lágkúrulegt pex, eins og oft vill verða hér á þingi, þegar rætt er jafnvel um hin stærstu mál. Að minni hyggju er þetta óviðráðanlegur og óvæntur vandi, sem er á sinn hátt, má segja, af svipuðu tagi og eldgosið i Vestmannaeyjum. Enginn gat séð fyrir, að þessir atburðir mundu gerast, þeir gerðust með svo óvæntum hætti, og við þessum vandamálum tel ég, að verði að snúast með samhjálp þjóðarinnar.

Þær hugmyndir, sem ég hef verið með um þetta, eru þær, að þjóðin leggi á sjálfa sig einhvers konar gjald, hliðstætt viðlagasjóðsgjaldinu, til að greiða niður verð á olíu hjá þeim aðilum, sem verða að búa við það að nota olíu til húshitunar enn um nokkurra ára skeið. Ég held, að það sé algerlega óhjákvæmilegt, að við tökum á þessu máli nú á þessu þingi og göngum frá einhverju kerfi, sem geti tryggt þarna nauðsynlega jöfnun.

Hitt er svo það veigamesta, að finna varanlegar leiðir til að nýta innlenda orkugjafa alls staðar þar, sem það er hægt, í stað innfluttrar orku, og um það beindi hv. þm. Steingrímur Hermannsson einnig til mín nokkrum fsp. Strax og þessi vandamál voru ljós, fól ég Verkfræðiskrifstofu Sigurðar Thoroddsen í samráði við orkustofnun að gera athugun á því, hvernig hægt væri að flýta sem mest hagnýtingu innlendra orkugjafa til hvers konar nota, þ.e.a.s. hæði til húsahitunar, til verksmiðjustarfsemi og annarra þarfa, þar sem olía hefur verið notuð. Á sama tíma fól ég Seðlabankanum að gera fjármögnunaráætlun um þessi atriði. Í þeirri könnun, sem Verkfræðistofan og Orkustofnun vinna nú að, er einmitt fjallað um þessi vandamál. sem hv. þm. vakti athygli á. Og ég hef lagt á það mikla áherslu, að þessari könnun verði flýtt sem allra mest. Ég hef falið þessum aðilum að gera framkvæmdaáætlun bæði fyrir árið í ár og eins framkvæmdaáætlun nokkur ár fram í tímann, sem stefni að því, að komið verði upp hitaveitum alls staðar þar, sem völ er á heitu vatni til slíkra nota, hvar sem er á landinu, og svo að sá þriðjungur þjóðarinnar eða svo, sem ekki á kost á slíkum hitaveitum, geti fengið raforku til sinna þarfa til að hita upp hús sín. Á sama hátt notar iðnaður okkar ýmsar vélar, sem nú eru olíuknúnar, en hagkvæmt getur verið talið að knýja með raforku. Það er unnið að þessari athugun af kappi, og um leið og fyrstu frumdrög liggja fyrir frá þessum aðilum, mun ég með mikilli ánægju gera Alþingi grein fyrir þeim.

Ég hef rætt þetta mál einnig við borgarstjórann í Reykjavík, hvernig bægt sé að flýta hitaveituframkvæmdum i nágrannabyggðarlögum Reykjavíkur, og það er sameiginlegur áhugi okkar á að flýta því eftir megni. Önnur hitaveita, sem á að vera hægt að hefjast handa um, kannske nú í árslok, er Svartsengisveitan fyrir byggðirnar á utanverðu Reykjanesi. Aðrir stórir staðir eða nokkuð stórir, sem geta fengið hitaveitu, þar sem búið er að kanna aðstæður allgaumgæfilega, eru Borgarnes og Akranes og svo ýmsir staðir fyrir norðan. Ég er þeirrar skoðunar, að við verðum að líta á þetta sem alger forgangsverkefni og að við verðum að tryggja til þess fjármuni, bæði innanlands og utan, og haga líka röðum framkvæmda svo, að þetta gangi fyrir. Ég held, að eins og þróunin hefur verið í sambandi við olíuverð, séu þetta arðbærustu framkvæmdir þjóðhagslega séð, sem við getum nú ráðist í. En sem sagt, þessar spurningar, sem hv. þm. beindi til mín, eru allar í þessari könnun, og ég mun gera grein fyrir því, hvernig henni miðar, jafnóðum og ég hef fengið um það skýrslur.

Ég tel ekki ástæðu til að fara að skattyrðast við hv. þm. Halldór Blöndal. Hann talaði hér í þeirri tóntegund, sem ég held, að sé dálítið hvimleið, þegar um svona veigamikil mál er að ræða. Menn geta kannske haft svolítið gaman af slíkum vopnaburði, en ég held, að við þm. eigum að taka störf okkar alvarlegar en svo að eyða tíma okkar allt of mikið í þess háttar skætingsræður.

Það er eitt, sem er afar athyglisvert, af því, sem gerst hefur einmitt vegna verðhækkunarinnar á olíu, og það er, að mönnum hefur vitrast sú staðreynd, að markaður fyrir raforku á Íslandi er miklum mun stærri en menn gerðu sér grein fyrir fyrir tiltölulega stuttum tíma. Það var stefna hæstv. fyrrv. ríkisstj. að ráðast í stórvirkjanir hér á Suðvesturlandi. Þessar stórvirkjanir áttu hins vegar að byggjast á því, að orkan yrði að mestu leyti seld erlendum fyrirtækjum, sem hér yrðu reist. Þetta var rökstutt með því, að þessar virkjanir væru svo stórar, en hins vegar markaðurinn það litill, að þarna yrði aflögu ákaflega mikil orka, sem enginn markaður væri fyrir, nema sá markaður yrði búinn til með því að setja slík fyrirtæki á laggirnar.

Þegar rætt var hér á þingi um heimildir til virkjana við Sigöldu og Hrauneyjarfoss, vakti ég m.a. athygli á því, að það væri vissulega til hér í landinu ákaflega stór markaður, sem ekki væri hagnýttur, og það væri húshitunarmarkaðurinn. Ég flutti brtt. við frv. um Landsvirkjun um það, að tekið væri þar inn sem eitt af verkefnum Landsvirkjunar að anka húshitun með raforku á Íslandi. Þessi brtt. var samþykkt, hún var tekin inn í lögin. Þegar ég tók við störfum iðnrh., lágu fyrir hannanir á Sigölduvirkjun og Hrauneyjarfossvirkjun. Fyrrv. ríkisstj. hafði lýst því yfir, að Sigölduvirkjun ætti að hagnýta eins og Búrfellsvirkjun, þ.e.a.s. tengja hana við orkufrekan iðnað, sem nýtti meginhluta orkunnar frá þeirri virkjun einnig. Ég lagði áherslu á það við Landsvirkjun, að í sambandi við áformin um Sigölduvirkjun yrði fyrst og fremst hugað að því að nýta hinn mikla innlenda markað, sem fælist í húshitun, og að áformin um nýtingu raforkunnar yrðu við það miðuð að hraða húshitunarframkvæmdum eins og hægt væri. Þetta var gert. Þessi könnun var framkvæmd og þessi áform um húshitunarframkvæmdir tekin inn í áætlanir Landsvirkjunar um rekstur Sigölduvirkjunar. En forsenda þess, að hægt væri að nýta þennan mikla húshitunarmarkað á Íslandi, var að sjálfsögðu sú, að raforkusvæðin væru tengd saman, það væri ekki hægt að nota raforku frá þessari stóru virkjun nema á Suðvesturlandssvæðinu, nema önnur svæði væru tengd við virkjunina. Þess vegna var mörkuð sú stefna að tengja saman orkuveitusvæðin, til þess að notendur á Norðurlandi og annars staðar, á Vestfjörðum og Austfjörðum, gætu haft nægilega orku til sinna nota ekki síður en þeir, sem búa hér á Suðvesturlandi.

Það hefur mikið verið skopast að þessari hugmynd um að tengja saman orkuveitusvæðin, og hún hefur verið mikið gagnrýnd af Sjálfstfl. og hv. þm. Halldóri Blöndal hér rétt áðan. En er ekki alveg ljóst, að við getum ekki hagnýtt okkar innlenda orkugjafa, þ.e.a.s. raforkuna, þar sem hitaveita verður ekki tiltæk, á neinn annan hátt en að tengja saman orkuveitusvæðin. Sá kostnaður, sem við höfum lagt í það, er alveg tvímælalaust í þágu framtíðarinnar og mun sanna gildi sitt eftir tiltölulega stuttan tíma. Ég hugsa, að það muni ekki gæta mikið hjá þm. Sjálfstfl. gagnrýni á samtengingu Norðausturlands og vesturhluta Norðurlands, þeirrar gagnrýni, sem þeir eru með núna, muni ekki gæta hjá þeim eftir tiltölulega stuttan tíma. Og ég er alveg sannfærður um, að þjóðin öll skilur það miklu betur nú en hún skildi það fyrir tiltölulega stuttum tíma, að samtengingarhugmyndin er algert grundvallaratriði, ef við eigum að geta ráðist í hagkvæmar virkjanir og notað þær í okkar eigin þágu, ekki aðeins til húshitunar, heldur til iðnaðarframkvæmda um land allt.

Það er í þessu sambandi að vonum oft talað um byggðastefnu og nauðsyn jafnrar aðstöðu fólks í öllum landshlutum. Ég held einmitt, að það sé ein meginforsenda þess, að fólk í öllum landshlutum búi við hliðstæða möguleika, að það eigi kost á orku á sama verði, hvar sem það býr á landinu, og nægilegri orku, hvar sem menn búa á landinu. En forsenda þess, að þetta geti orðið, er samtenging. Það er að vísu hægt að leggja á orkuskatt. Það eru í gildi, eins og menn vita, lög um verðjöfnun á raforku, sem á að létta undir með Rafmagnsveitum ríkisins. Sú skattlagning hrekkur nú orðið ákaflega skammt, vegna þess að fyrrv. ríkisstj. batt hana við ákveðna upphæð, fasta upphæð, sem nemur lægri og lægri prósentu með hverju ári sem líður. En skattheimta af þessu tagi er bæði hvimleið og óvinsæl, og eina leiðin til að tryggja jöfnuð er, að raforkukerfið verði allt samfellt. Ég tel, að þjóðin öll eigi að bera kostnaðinn af þeirri samtengingu, alveg eins og þjóðin öll ber kostnað af þjóðvegakerfinu. Þarna er um að ræða alveg sams konar framkvæmdir að minni hyggju, og ég tel ekki, að Norðlendingar eigi að greiða línu norður frekar en Norðlendingar eigi að greiða út af fyrir sig vegalagningu norður. Þetta er verkefni allrar þjóðarinnar, það liggur í hlutarins eðli.

Ef fyrrv. ríkisstj. hefði haldið áfram stefnu sinni, væri hún vafalaust fyrir löngu búin að ráðstafa með samningi orku þeirri, sem framleidd verður í Sigölduvirkjun, eins og hún gerði við Búrfellsvirkjun. Ég vil minna menn á það, að nú er talað um orkuskort á Íslandi. En um það bil helmingurinn af þeirri raforku, sem framleidd er á Íslandi í kwst. talið, rennur til álbræðslunnar í Straumsvík, — um það bil helmingurinn af allri raforku, sem framleidd er á Íslandi. En það, sem greitt er fyrir þessa raforku, er ekki nema svo sem 10% af þeirri upphæð. sem greidd er fyrir alla raforkusölu á Íslandi. Greiðslan fyrir helminginn er aðeins 10% af andvirðinu í heild. Svona var nú samið. Og þessi samningur var gerður þannig, að þetta verð er bundið fram til ársins 1997, óbreytt fram til ársins 1997. Slíkur hörmungarsamningur hefur hvorki fyrr né síðar verið gerður í sambandi við efnahagsmál hér á Íslandi. Og mér finnst, að þeir menn, sem að þeirri samningsgerð stóðu og að þeirri stefnu í raforkumálum, sem þá var mótuð, ættu hreinlega að blygðast sín og tala sem hljóðir og hógværir menn, þegar þeir fara að minnast á stefnu í raforkumálum í ræðustólum Alþingis.

Í sjálfu sér höfum við Íslendingar ástæðu til að fagna því, að við eigum til orkulindir, innlendar orkulindir, sem verða okkur dýrmætari með hverju ári sem líður. Hv. þm. Halldór Blöndal gæti sér til skemmtunar, — hann er maður gamansamur, — farið í gamlar ræður flokksleiðtoga sinna og flett upp lýsingum þeirra á því, að þessar orkulindir okkar væru að verða verðlausar með öllu, það væru allra síðustu forvöð að koma þeim í verð, því að að öðrum kosti mundu þær aldrei verða nýttar, aðrar orkulindir væru svo miklu ódýrari en þessar. Við þetta var sú stefna miðuð, sem ég gat um áðan, að láta meginhlutann af raforku Búrfellsvirkjunar renna til útlendinga á óbreyttu verði í 25 ár. Heildartapið af þessum samningi, ég er sannfærður um, að þegar kemur að leikslokum, verður það talið í ákaflega mörgum milljörðum kr. Ef við hefðum haft þá fjármuni til að nýta til annarra hluta, þá hefðum við getað byggt áreiðanlega nokkrar meiri háttar virkjanir bara fyrir þetta fé, sem haft hefur verið af okkur með heimskulegum samningum við útlendinga.

Ég ætla ekki að fara að rifja hér upp deilur um Laxármál. Þó vil ég geta þess, að þegar ráðamenn Sjálfstæðisfl. tala um erfitt ástand í orkumálum Norðurlands, þá er það því miður arfur frá þeirra eigin ríkisstj. Það var þeirra ríkisstj., sem lagði á ráðin um virkjun í Laxá og hvernig að þeirri virkjun var staðið, þannig að af hlutust einhverjar illvígustu deilur, sem orðið hafa á Íslandi, svo alvarlegar deilur, að ég tel. að þær muni lengi há eðlilegri samvinnu og eðlilegum samskiptum á Norðurlandi. Ef anað hefði verið áfram eftir þessari braut, hefði ástandið verið þannig, að kannske hefði þessari virkjunarframkvæmd fengist lokið, — um það veit ég þó sannarlega ekki neitt, — en þá hefðu verið í gildi lögbannsákvæði, sem hefðu bannað að hleypa vatni á þessa virkjun. Norðlendingar hefðu þá í vetur staðið uppi með þessa virkjun án nokkurrar orkuframleiðslu. Ég tel, að núv. ríkisstj. hafi bjargað því, sem bjargað varð í þessu efni, með því að ná sáttagerð við landeigendur um það, að fallist var á að heimila þessa virkjun og hleypa á hana vatni, þannig að hún hefur þó getað framleitt orku á þessum vetri. Hins vegar var kastað hundruðum millj. kr. í virkjunina vegna þess, að hún var miðuð við áframhaldsvirkjun, sem engin þingssamþykkt var þó fyrir.

Hv. þm. sagði, að ég hefði lýst því yfir, að ég væri andvígur allri stíflugerð í Laxá. Ég kannast ekki við að hafa lýst neinu slíku yfir. Hins vegar hef ég vakið athygli á því, að heimildin til virkjunar í Laxá er bundin við 12MW. Það er engin lagaheimild fyrir neinni stærri virkjun. Og stíflugerð innan þeirra marka, 8–10 m stífla, mundi ekki leysa neitt sem heitir úr ísatruflunum á þessu svæði, en út úr henni fengjust vissulega nokkur hagkvæm MW.

Ég held, að menn eigi að hætta deilum um ýmiss konar minni háttar atriði í orkumálum, sem mjög hafa verið ástundaðar. Það hefur verið alið á því, að menn hafa ekki viljað líta á neinar virkjanir nema virkjanir í sínum heimahéruðum. Þar hefur yfirleitt verið um litlar virkjanir að ræða, nokkur MW hér og þar. En nauðsyn okkar á stóraukinni orkuframleiðslu er svo miklu, miklu stærri en allar þessar hugmyndir. Hugmyndir um virkjanir upp á fáein MW eiga að heyra fortíðinni til, vegna þess að markaður okkar er sem nemur hundruðum MW. Og við verðum að vera menn til að ráðast í þær hagkvæmustu virkjanir, sem við getum ráðist í, og nýta þær í þágu þjóðarheildarinnar. Á það hefur verið lögð áhersla í núv. ríkisstj.

Í tíð þessarar ríkisstj. hefur verið tekin ákvörðun um Sigölduvirkjun í þágu Íslendinga, eins og menn vita. Sú virkjun var ekki tengd neinum samningum við erlenda aðila. Við leggjum nú til, að ráðist verði í Kröfluvirkjun. Ég hygg, að það sé alveg rétt hjá hv. þm. Steingrími Hermannssyni, að sú könnun, sem ég var að geta um áðan, að fram færi nú á því, hvernig unnt væri með sem skjótustum hætti að nýta innlenda orkugjafa í stað innfluttrar orku, muni leiða í ljós, að við verðum enn að herða á og taka ákvarðanir um verulega virkjun mjög fljótlega í viðbót við þetta, ef við eigum að vera menn til þess að tryggja þjóðinni orku með sem allra mestum hraða. Og ég held, að við ættum að snúa bökum saman um þetta verkefni. Þetta er að minni hyggju algert forgangsverkefni á Íslandi um þessar mundir, og ég hygg, að þjóðin eigi eftir að gjalda varhuga við þeim mönnum, sem hafa á sviði orkumála þann tíma, sem núv. stjórn hefur starfað, ævinlega verið með þvergirðingshátt og gagnrýni og reynt að koma í veg fyrir allar skynsamlegar aðgerðir í orkumálum. Í hvert einasta skipti, sem tekin hefur verið þar ákvörðun um myndarlegt átak, — ég nefni t.d. Mjólká á Vestfjörðum, — hefur Morgunblaðið rokið upp, gagnrýnt þetta og heimtað einhverja miklu minni virkjun. Af sama toga er spunnin gagnrýnin á því að tengja landshlutana saman, þannig að það fólk, sem býr í dreifbýlinu utan Suðvesturlands, eigi kost á aðgangi að jafnmikilli orku og jafnódýrri orku og aðrir landshlutar.