28.01.1974
Neðri deild: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (1672)

Umræður utan dagskrár

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða efni þeirrar fsp., sem hér hefur verið borin fram. En þar sem hefur verið víkið nokkrum orðum að störfum utanrmn., finnst mér rétt að segja nokkur orð.

Mér finnst rétt að vekja athygli á því, að síðan núv. hæstv. utanrrh. tók við starfi sínu, hefur orðið alger breyting á starfsemi utanrmn. í sambandi við varnarmálin. Ég hef átt sæti í utanrmn. í stjórnartíð tveggja utanrrh. annarra.

Fyrri ráðherrann var Guðmundur Í. Guðmundsson. Á þeim tíma, þegar hann var utanrrh., var föst regla, að varnarmál fengust ekki rædd í utanrmn. Hann tók fram skýrt og skorinort, að hann teldi sér ekki skylt að gefa neinar upplýsingar um varnarmál í utanrmn., og yfirleitt hélt þessi ráðh. öllum upplýsingum leyndum fyrir utanrmn. Meira að segja þegar ríkisstj. stóð í samningum við Breta í sambandi við landhelgissamninginn, sem var gerður árið 1961, fékk utanrmn. ekkert um þá samninga að vita, fyrr en þeir voru fullgerðir.

Ráðherrann, sem tók við af Guðmundi Í. Guðmundssyni, Emil Jónsson, tók upp aðra og miklu betri starfshætti í þessum efnum. í hans tíð urðu miklar umbætur á starfsemi utanrmn., þannig að hún fékk miklu víðtækari upplýsingar en áður. Hann tók eigi að síður skýrt fram, að í utanrmn. teldi hann sér ekki skylt að gefa neinar upplýsingar um öryggis- og varnarmál, og þeirri reglu fylgdi hann nokkurn veginn.

Síðan hæstv. núv. utanrrh. tók við stjórn þessara mála, hefur bann veitt nefndinni allar þær upplýsingar, sem um hefur verið að ræða í sambandi við gang varnarmálanna. Hann hefur ekkert falið í þeim efnum, heldur lagt það allt á borðið. Hann hefur t.d. gefið utanrmn. mjög ítarlegar upplýsingar um þær viðræður, sem hafa farið fram við Bandaríkjamenn. Síðast gerði hann þetta á fundi n. í nóv. s.l., eftir að lokið var viðræðum, sem þá fóru fram. Af hálfu fulltrúa stjórnarandstöðunnar í utanrmn. kom fram, að þeir voru ekki tilbúnir þá til að ræða um þessa skýrslu utanrrh., en áskildu sér rétt til að gera það síðar. Það var talið alveg sjálfsagt. Þannig lauk fundinum. Síðan hafa verið haldnir fundir í utanrmn., og af hálfu fulltrúa stjórnarandstöðunnar hefur ekki verið farið fram á að ræða nánar um þessa skýrslu eða koma þeim athugasemdum á framfæri, sem þeir töldu sig þurfa, þegar skýrslan var upphaflega lögð fram. Það kom svo greinilega fram í umr., sem fóru fram á síðasta utanrmn.-fundi, 11. jan. s.l., að ég mundi hvenær sem er halda fund, þegar einhver nm. óskaði eftir því, hvort heldur það væri stjórnarsinni eða stjórnarandstæðingur. Á þeim fundi kom ekki nein ósk fram um það af hálfu fulltrúa stjórnarandstöðunnar að ræða þá skýrslu, sem utanrrh. hafði gefið í nóv.

Ég get endurtekið það í framhaldi af þessu, sem ég sagði á síðasta utanrmn: fundi, að ég er reiðubúinn til þess, hvenær sem er, þegar t.d. hv. 7. þm. Reykv. fer fram á það, að halda fund í utanrmn. Ég skal gera það strax á morgun, ef hann óskar eftir því. Það stendur ekki á utanrmn., að þessi mál séu tekin til meðferðar þar og hann geti fengið þær upplýsingar, sem hann æskir.

Í sambandi við það, sem síðasti ræðumaður sagði, að upplýsingum, sem kæmu fram í utanrmn., væri haldið leyndum fyrir þingfl., finnst mér alveg sjálfsagt að ræða það í utanrmn., hvaða upplýsingar það eru, sem við teljum eðlilegt, að þingfl. fái að fylgjast með, en að sjálfsögðu verða þeir þá líka bundnir trúnaðarheiti eins og utanrmn.-menn. Á þingflokksfundum, þar sem slíkar upplýsingar eru gefnar, er eðlilegt, að ekki mæti aðrir en þingmenn. Innan þessa ramma finnst mér vel tilhlýðilegt, að þingfl. fái upplýsingar, sem gefnar eru í utanrmn. og menn þar eru sammála um, að þingmenn fái, en þá að sjálfsögðu með þeim hætti, að þær verði trúnaðarmál þingmanna, t.d. meðan slík mál eru á umræðustigi við önnur ríki og ráðherra eða form. utanrmn, álítur, að ekki sé rétt að gera þær opinberar.

Ég endurtek það svo að lokum, að ég er reiðubúinn til þess að halda fund í utanrmn., hvenær sem hv. fyrirspyrjandi fer fram á það.