28.01.1974
Neðri deild: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (1679)

Umræður utan dagskrár

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Fyrst er það eitt atriði, sem veltur á minni mínu og ég vona, að sé ekki brenglað. Hv. 5. þm. Vesturl. vék að því, að þing hefði ekki verið kallað saman eða þingflokkar aðvaraðir við gerð varnarsamningsins 1951. Ég man ekki betur en að þáv. forsrh., Hermann Jónasson, hafi hvorki kallað saman þingflokka né þing 1941, þegar varnarsamningurinn við Bandaríkin var gerður.

Herra forseti. Ég ætla að öðru leyti ekki að blanda mér í þessar umr. Mér kynni að hlaupa kapp í kinn og verða harðorður í garð stjórnarsinna og þeir þingbræður mínir síðan hlífa mér af ástæðum, sem ég vil ekki stofna til, að þeir hlífi mér vegna.

Ég vil svo enn nefna eitt atriði úr ræðu 5. þm. Vesturl., en ég átti síst von á því úr þeirri átt, að hann mundi kalla sjónvarpsþáttinn síðastliðinn föstudag áróðursþátt eða eitthvað á þá leið fyrir formann Sjálfstfl. Það er meira hrós frá þessum þm. til formanns Sjálfstfl. en ég átti von á.

Góðir þm. Á staðfestu Alþingis hefur fyrr og síðar oltið gifta íslensku þjóðarinnar. Aldrei fremur en nú veltur framtíð og gifta íslensku þjóðarinnar á staðfestu Alþ. og varúð í þeim vandasömu málum, sem fram undan eru meðferð öryggis- og varnarmála. Ég treysti því, að Alþingi Íslendinga muni ekki nú fremur en nokkru sinni endranær bregðast sínu alvarlega og mikla hlutverki að standa vörð um sjálfstæði, frelsi og öryggi landsins.