29.01.1974
Sameinað þing: 47. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

184. mál, mjólkursölumál

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég þakka landbrh. svarið, svo langt sem það náði. Ég spyrst fyrir um í þessari fsp., hvað líði störfum þessarar n., og þá að sjálfsögðu gerði ég ráð fyrir því, að ráðh. veitti upplýsingar um, að nokkru leyti a.m.k., hvers eðlis þær niðurstöður væru, sem n. er búin að komast að í öllum eðalatriðum.

Hæstv. ráðh. veit eins og ég, að samkomulag hefur tekist í n. um ákveðna meðferð á mjólkursölumálum eða dreifingu mjólkur, og ég hefði talið það vera eðlileg viðbrögð og sjálfsagða kurteisi af hans hálfu gagnvart fyrirspyrjanda, að það væri eitthvað upplýst um efnisatriði þessa máls. Mér er tjáð eftir áreiðanlegum heimildum, .enda sennilega ekkert leyndarmál, því að unnið er í samræmi við það meðal þeirra samtaka og hagsmunaaðila, sem hér eiga hlut að máli, að gert sé ráð fyrir því, að Mjólkursamsalan og mjólkursamlög láti af allri smásölu á mjólk, m.ö.o. að tekið verði upp í aðalatriðum það fyrirkomulag á dreifingu mjólkur sem frv. mín gerðu ráð fyrir. Ég er mjög sáttur um þessa niðurstöðu og fagna því, að náðst hefur samkomulag um þá meðferð, og tel tvímælalaust, að það geti orðið til mikilla bóta, ekki aðeins fyrir neytendur, heldur líka og ekki síður fyrir framleiðendur. Ég hefði hins vegar talið eðlilegt, að hæstv. ráðh. væri fyrstur til að upplýsa þessa þróun mála, og vildi satt að segja gefa honum tækifæri hér í fsp.- tíma til að gera það. Mér þykir leitt, að hann hefur skotið sér hjá því að fjalla efnislega um málið. Engu að síður þakka ég fyrir svörin og vonast til þess, að vænta megi skýrslu frá mjólkursölunefnd innan mjög skamms tíma.