29.01.1974
Sameinað þing: 47. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1832 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

400. mál, húsnæðismál Menntaskólans við Lækjargötu

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svörin. Satt að segja eru þau ekki mjög uppörvandi fyrir Menntaskólann í Reykjavík og þá, sem bera hans hag fyrir brjósti. Hæstv. ráðh. rekur hér áætlanir um aðgerðir varðandi menntaskóla- og framhaldsskólanámið, fer vítt og breitt um landið, en ég gat því miður ekki heyrt, að það væri nein áþreifanleg áætlun um einhverjar aðgerðir eða úrbætur varðandi Menntaskólann í Reykjavík að öðru leyti en því, að stefnt skuli að því að draga úr aðsókn í skólann. Nú er það í sjálfu sér gott og blessað, ef svo tækist. En þrátt fyrir þær ráðagerðir, sem nú eru uppi varðandi aðra menntaskóla, er ekki að sjá, að það séu raunverulegar aðgerðir til að draga úr þeirri aðsókn, sem í þennan skóla hefur verið og á reyndar að vara sem elstu og virðulegustu menntastofnun Íslands.

Hæstv. ráðh. getur þess, að til standi og nú þegar hafi komið til framkvæmda ákvarðanir um að dreifa kennslu á menntaskólastigi á aðra skóla. Þetta er vissulega rétt. Tekin er upp kennsla, a.m.k. í 1. bekk, víða hér í Reykjavík í gagnfræðaskólum. En auðvitað leiðir af sjálfu sér, þegar kennslu lýkur í þessum 1. bekk, að þá mun þetta unga fólk leita inn í þá menntaskóla, sem fyrir eru í borginni, og í stað þess að draga úr aðsókn mun væntanlega aðsóknin enn aukast, ef þessari leið er áfram fylgt.

Ráðh. lauk máli sínu með því að segja, að ekki væri óeðlilegt eða ósanngjarnt að fara fram á aukið viðbótarhúsnæði fyrir Menntaskólann í Reykjavík. Hann bætti hins vegar við, að ekki væri á þessu stigi hægt að segja til um, hversu mikið það húsnæði ætti að vera, hvernig það ætti að vera uppbyggt eða hvenær það ætti að koma til framkvæmda. M.ö.o.: það hefur ekkert verið ákveðið um þetta, allt í lausu lofti, og framtíðin er vissulega ekki björt fyrir Menntaskólann í Reykjavík.

Hæstv. ráðh. minntist allra síðast á, að það væri Alþingis að veita fé til þessara skóla. Nú vil ég beina því til hæstv. ráðh., að ef honum endist ráðherradómur til næstu fjárlagagerðar, sem ekki eru miklar líkur á í bili að vísu, þá vil ég bindast því bandalagi við hann, að við, sem báðir erum kosnir á þing af Reykvíkingum, stöndum saman um að hækka fjárveitingar til þessa skóla. Ég treysti á samstarf hans og bandalag í þeim efnum.