29.01.1974
Sameinað þing: 47. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1833 í B-deild Alþingistíðinda. (1694)

401. mál, litasjónvarp

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Í Alþýðublaðinu í morgun er á forsíðu blaðsins stór og mikil frétt, aðalfrétt blaðsins reyndar, þar sem segir í fyrirsögn: „Keflavíkursjónvarpið í lit í júní í sumar“. Í fréttinni segir síðan, að allur tækjabúnaður til slíkrar litaútsendingar sé kominn til landsins og nú sé verið að þjálfa starfskrafts stöðvarinnar til breytinga og m.a sé verið að þjálfa íslenska tæknimenn. Ef þessi frétt reynist rétt, sem ég hef enga ástæðu til að efast um, segir hún okkur í fyrsta lagi ekki aðeins það, að breyta eigi til um sjónvarpsútsendingar á Keflavíkurflugvelli, hún gefur til kynna, svo að ekki fer á milli mála, að Bandaríkjamenn eru ekki alveg á förum á næstunni. Þeir hyggjast þvert á móti bæta þjónustu við varnarlið sitt á Keflavíkurflugvelli og eru væntanlega að útbúa þetta nýja litasjónvarp fyrir þær hreyfanlegu flugsveitir, sem þarna eiga að hafa aðsetur, svo og væntanlega allt það lið, sem ekki telst til fasts herliðs, og reyndar allan þann mannskap, sem þar er fyrir hendi. Ég geri ráð fyrir því, að Bandaríkjamenn hafi dregið þær ályktanir af þeim ummælum forsrh., sem hann lét falla hér áður, að nú hyggist íslensk stjórnvöld ekki lengur standa við sáttmála sinn um brottför hersins á kjörtímabilinu, heldur að það skuli fara í áföngum, fyrr en seinna, eins og hnyttilega er til orða tekið. Reyndar eru þessar ráðagerðir Bandaríkjamanna í samræmi við þá uppbyggingu, sem manni skilst, að fari fram á Keflavíkurflugvelli, og hv. þm. Oddur Ólafsson vakti rækilega athygli á í nýlegri blaðagrein, en þar sagði frá því, að nú væri í fullum gangi — með vitund og vilja íslenskra stjórnvalda væntanlega — uppbygging á Keflavíkurflugvelli, byggingarframkvæmdir, og það er á sama tíma, sem verið er að telja a.m.k. einhverjum hluta þjóðarinnar trú um, að varnarliðið eigi að hverfa úr landi á næstu mánuðum.

Ég vek athygli á þessu til þess að sýna fram á þann tvískinnung, sem hér er á ferðinni og menn hafa orðið vitni að varðandi ekki síst Keflavíkursjónvarpið sjálft. Keflavíkursjónvarpið var af núverandi stjórnarsinnum, þegar þeir voru í stjórnarandstöðu, talið glæpsamlegt athæfi og storkun við íslenska menningu og lágkúruleg aðferð íslenskra íhaldsafla til þess að læða bandarískum áróðri inn í landið, eins og stundum var sagt. Nú hafa þessir sömu menn setið hér í ríkisstj. í rúmlega tvö ár, en ekki hreyft legg né lið til að stöðva þennan ósóma, sem þeir telja Keflavíkursjónvarpið vera. Það aðgerðarleysi verður sennilega glæsilegasti minnisvarði um þá menningarhræsni, sem svokallaðir róttækir Alþb.-menn hafa tíðkað hérlendis um langan tíma. En því geri ég þetta að umtalsefni, að Keflavíkursjónvarpið hyggst taka upp litasjónvarp, og ef það reynist rétt og ef það er látið viðgangast, mun það að sjálfsögðu hafa veruleg áhrif á sjónvarpsneyslu okkar Íslendinga, a.m.k. hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Það er enginn vafi á því, að tilvera Keflavíkursjónvarpsins á sínum tíma hafði úrslitaáhrif á stofnun og vöxt og viðgang íslenska sjónvarpsins. Sjónvarpið íslenska er nú orðinn snar þáttur í lífi Íslendinga. Mér er tjáð, að hér séu nú um 48 þús. tæki í notkun á landinu, og enda þótt litasjónvarp sé ekki aðkallandi mál, sem þurfi að hafa neinn sérstakan forgang, er engu að siður staðreynd, að sjónvarpið hefur vaxandi áhrif á heimilishald og daglegt líf manna, og það verður að fylgjast með þeirri tækniþróun, sem á sér stað á þessum vettvangi. Þar kemur til, að Íslenska sjónvarpið kaupir dagskrár erlendis frá í mjög miklum mæli, og nú er mér tjáð, að það dagskrárefni sé framleift að mestu, ef ekki öllu leyti fyrir litasjónvarp. Það þýðir, að öll tæknivinna og öll tæknimenntun lýtur að slíku sjónvarpi. Þá er líka á það að líta, að íslendingar þurfa brátt að fara að endurnýja sjónvarpstæki sín, þau munu endast í u.þ.b. 10 ár, og þá skiptir máli, hvort er endurnýjað fyrir svarthvítt eða litasjónvarp. En á þessum tækjum er mikill verðmunur, að mér skilst. Því tel ég eðlilegt, að teknar séu ákvarðanir mjög fljótlega og gerðar áætlanir, þannig að fólk viti, hvað sé fram undan, og geti hagað fjárfestingu sinni í samræmi við það. Ekki síst á þetta við nú, þegar og ef Keflavíkursjónvarpið boðar litasjónvarp. Mér er sagt, að það séu um 20 þús. sjónvarpstæki í landinu, sem séu útbúin til þess að taka við sendingum frá Keflavíkurflugvelli, og hvaða skoðun sem ég og aðrir hafa á þessu blessaða Keflavíkursjónvarpi, þá verðum við að horfast í augu við, að þetta er staðreynd, og það er ekki hægt að haga sér eins og það sé ekki til. Ef íslensk stjórnvöld hyggjast ekki loka þessu sjónvarpi, verða þau að gera sér grein fyrir því, að þarna er um að ræða samkeppni, og alveg á sama hátt og íslenska sjónvarpið á sínum tíma stóðst þá samkeppni og samanburð, sem varð við Keflavíkursjónvarpið, og náði til sín öllum þorra landsmanna og áhorfendum, þá þarf það líka núna að standast þá samkeppni og þann samanburð, sem upp kemur vegna þessa litasjónvarps.

Af öllum þessum ástæðum tel ég eðlilegt, að það séu gefnar einhverjar yfirlýsingar um ákvarðanir og áætlanir í þessu sambandi og því er þessi fsp. fram borin.