29.01.1974
Sameinað þing: 48. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1851 í B-deild Alþingistíðinda. (1711)

121. mál, z í ritmáli

Jónas Árnason:

Herra forseti. Mér finnst þetta vera góður fundur. Hér er verið að ræða um einn íslenskan bókstaf, og mönnum hitnar í hamsi. Þetta er að vissu leyti miklu þjóðlegri fundur en gengur og gerist á Alþ., og kannske má segja, að við þurfum ekki að hafa ýkjamiklar áhyggjur af íslensku þjóðerni, á meðan mönnum hitnar í hamsi út af þessu, sem flestir mundu telja smámál.

Ástæðan til þess, að ég stend upp, er þó fyrst og fremst sú að þakka fyrir þau mjög svo fróðlegu erindi, sem við fengum að heyra hér áðan. Það þurfti að sjálfsögðu engum að koma á óvart að heyra hæstv. menntmrh. tala af þekkingu um þessi mál og miklum málsmekk. Þekking hans á ótrúlega mörgum málum er öllum kunn. En hitt hygg ég, að muni hafa komið ókunnugum meira á óvart, að heyra hér standa upp mann, sem hefur að vísu háskólapróf, en í viðskiptafræðum, og er hluthafi í tveimur togurum, og flytja svo fróðlegt erindi, ég vil segja gagnmerkt erindi, um íslenskt mál, eins og hann flutti hér áðan. Og þó að maður sé ekki alltaf mjög lukkulegur með togaraeigendur og þeirra pólitísku sjónarmið, þá verð ég að segja, að það er ástæða til þess fyrir okkur sem Íslendinga að gleðjast yfir þessu, og mætti spinna af þessu langa hugleiðingu um þjóð okkar. Það var mín reynsla s.l. vetur að hitta oft breska togaraeigendur, og ansi er ég hræddur um, að þeim hefði ekki farist eins og þessum hv. togaraeiganda, ef þeir hefðu átt að flytja erindi um breska menningu eða bókmenntir. Og í því liggur e.t.v. styrkur okkar eða einn þáttur hans að eiga slíka togaraeigendur.

Ég vil segja það strax, að ég fylgi þeirri till., sem hér liggur fyrir, þó að ég vilji hins vegar ekki taka undir það, sem hv. flm. sagði áðan um þær hvatir, sem lægju að baki því að afnema zetuna, sem hæstv. menntmrh. ætti þá að bera mesta ábyrgð á. Ég held, að það verði seint sagt um hæstv. menntmrh., að hann sýni það á einn eða annan hátt, að honum sé nákvæmlega sama, hvað verður um íslenzka tungu, eða hann færi að efna til einhverrar atlögu gegn íslenskri tungu. Það vakir að sjálfsögðu fyrir honum allt, allt annað. En ég ætla ekki að fara langt út í að ræða þessi mál, rök, sem hafa komið fram á báða bóga. Ég held, að rökin, sem mæla með því að halda zetunni í ritmálinu, vegi þyngra en hin, og byggi þar á reynslu minni sem kennari. Tilslakanir varðandi stafsetningu svipta kennarann ýmsum möguleikum, sem útskýringar varðandi stafsetninguna gefa honum til að auka áhuga nemenda, ekki bara á íslensku máli, heldur ýmsu, sem snertir íslenskt þjóðlif og íslenska sögu. Það er ósköp auðvelt að nefna dæmi. Ég var að skrifa hjá mér nokkur orð.

Ef við t.d. förum að skrifa orðið hirsla með s en ekki z, gefst okkur ekki tækifæri til þess, þess er a.m.k. ekki krafist af kennaranum, að hann fari út í þá skýringu, að þetta sé skylt orðinu að hirða, en zetan stafi ekki af því, að þetta sé skylt orðinu hurð. Þess vegna skrifar maður það ekki með y, heldur með i. Og af hverju með i? Vegna þess að í rótinni er e. Og þá er maður kominn á nokkuð skemmtilega slóð. Maður er kominn út í hirðina. Í fyrsta lagi er maður kominn út í hjörðina úti á mörkinni, þar er um að ræða klofningu úr þessum sama staf, e, maður er kominn að orðinu hirðingi, og maður kemst þarna líka að ýmsum miður skemmtilegum orðum, eins og her. Allt er þetta skylt, og allt þetta gefur tilefni að leiða nemandann fram og aftur. Orðin eru skyld. Þetta er aðeins eitt dæmi.

En þó að ég fylgi þessari till., er ég ekki til í að gera mikið veður út af því, þó að z hafi verið numin úr ritmálinu. En ég mun sannarlega gera veður út af og standa með hv. þm. Sverri Hermannssyni í því að gera veður út af því, ef þeir ætla að fara að afnema y. Þá mun ég standa við hlið þessa ágæta togaraeiganda í því að verja y, því að sá stafur gefur enn þá meira tilefni til þess, sem ég nú var að nefna. Tökum t.d. sögnina að hlynna að einhverju. Þá gefst tækifæri til að ræða þá fyrirætlun, sem örlaði aðeins á hjá hæstv. ráðh. áðan, að afnema tvöfaldan samhljóða. Hlynntur er skrifað með tveimur n, af því að sögnin að hlynna er skrifuð með tveimur n, en y stafar af því, að þetta er skylt nafnorðinu hlunnur, sem íslenskir sjómenn hafa notað til að setja undir báta, skorða þá þannig, að þeir geti staðið í fjöru. Og þá leiðir maður talið að atvinnuháttum okkar og ýmsu, sem snertir sjómennskuna. Sá, sem er hlynntur einhverju, vill setja við það hlunna. Sögnin að heygja, maður skrifar hana með y vegna þess, að hún er skyld nafnorðinu haugur. Ef hún væri skrifuð með einföldu, við tækjum burtu y, fæst ekki tilefni til að segja, hvað það var að heygja, tala um þann forna sið að heygja, tala um ýmislegt, sem hefur verið sungið og kveðið í haugum, sbr. Njálu. Þannig getur leiðin legið til skemmtunar bæði fyrir nemanda og kennara. Og ýmislegt slíkt varðandi kennsluna er það, sem skapar gott andrúmsloft. Gott andrúmsloft í kennslu skapast yfirleitt ekki með tilslökun. Það skapast gott andrúmsloft með mátulega miklum kröfum og sjálfsögðu aga.

Ég skrifaði hér kvenmannsnafnið Birna. Það leiðir talið að kvenmannsnafninu Bera, sem við höfum í Egils sögu. Þegar maður kennir í Reykholti, fer maður að tala um þetta. Hún bjó þar rétt hjá okkur, var formóðir ykkar allra. En við skrifum Birna með einföldu, sbr. þetta nafn, Bera. Svo kemur björn, og við beygjum það: björn, nm björn, frá birni, til bjarnar. Það er skrifað birna með einföldu, af því að það er e í rótinni og e hljóðverpist ekki í ufsilon, sem við segjum reyndar kennarar. Ég vil benda hv. þm. Sverri Hermannssyni á, að við segjum ekki yfsilon, eins og hann segir, heldur segjum við ufsilon, við höfum u-hljóð á því. E-ið hljóðvarpast ekki í y, heldur i. Síðan getur talið leiðst að því, sem er í rótinni. Ber kemur t.d. fram í berserkur, og þá ræðir maður um berserkina fornu og af hverju þeir voru kallaðir berserkir. Það er vegna þess, að sú forna trú liggur þar til grundvallar, að maður fái kraft bjarnarins með því að setja yfir sig feldinn o.s.frv., o.s.frv.

Allt þetta yrði miklu fátæklegra, að ég segi ekki næstum því snautt eins og eyðimörk, ef við ættu að einfalda þetta í svo ríkum mæli að afnema t.d. y og tvöfaldan samhljóða o.s.frv.

Þetta var það, sem ég vildi sagt hafa. Ég þakka báðum tveim, þessum ágætu áhugamönnum um Íslenska tungu og íslenska menningu, sem hér hafa talað, bæði menntmrh. og togaraeigandanum. Aðeins vildi ég vekja athygli á þeim sleggjudómi, sem hæstv. menntmrh. talaði um, í stuttri grg., þar sem segir: „Öllu undanhaldi, er varðar íslenskt mál. talað eða ritað, ber þegar í stað að snúa í sókn.“ Þar er verið að tala um zetuna. Mér er ekki alveg ljóst, hvað þarna er átt við, hvort við eigum að ganga svo langt, þar sem við höfum hingað til skrifað eina z, að fara að skrifa tvær. Ég veit það ekki.