29.01.1974
Sameinað þing: 48. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1853 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

124. mál, Síldarverksmiðjur ríkisins reisi verksmiðju í Grindavík

Flm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Á þskj. 152 ber ég fram svohljóðandi þáltill. um, að síldarverksmiðjur ríkisins reisi verksmiðju í Grindavík:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að fela stjórn S.R. að hefja nú þegar undirbúning að því að reisa verksmiðju í Grindavík, er geti brætt um 2500 tonn af loðnu á sólarhring og verði tilbúin til vinnslu í ársbyrjun 1975.“

Um fátt er nú meira rætt en loðnuna manna á milli, og svo er nú komið, að útvarpið hefur ákveðið að hafa síðdegis sérstakan fréttaþátt um aflann. Það er bara, að það fari ekki með loðnufréttirnar eins og síldarfréttirnar forðum, að mestu hugsuðir þjóðarinnar kvarti undan of miklum fréttaflutningi. Ég veit ekki, hvort margir muna eftir því, að svo fór um hríð í síldarfréttunum, að Halldór Kiljan Laxness gat vart hugsað vegna of mikilla frétta af síldveiði. Kannske fari svo fyrir skáldunum nú, þess vegna hafi þau ekki verið samkeppnishæf um tímamótaljóð á 11 hundruð ára afmælinu, að loðnufréttir og umtal um loðnu hafi svo þrúgað huga þeirra, að þeir hafi eigi mátt hugsa.

En hvað sem því líður, er loðnan nú sá bjargvættur, sem hæstv. ríkisstj. mænir á og margir fleiri, að leysi vandamál þjóðarinnar. Ég tel því vera tímabært að hreyfa þeirri hugmynd, að ríkisverksmiðjurnar athugi mjög náið, hvort ekki sé rétt undir þessum kringumstæðum a.m.k. og miðað við útlit, sem fram undan er, að nota hluta af þeim tækjum, sem legið hafa ónýtt um árabil, í nýja verksmiðju í Grindavík.

Hér við land hófust loðnuveiðar fyrst að nokkru ráði árið 1965, og öfluðust þá um 50 þús. tonn. Árið eftir verður mikil aukning, og veiðast þá um 125 þús. tonn. En næstu tvö árin er aflinn heldur minni eða rétt innan við 100 þús. tonn. Síðan verður mikil breyting, og aflast allt frá 170 þús. tonnum upp í 190 þús. tonn á árunum 1969–1971. Þá er veruleg aukning á skipum við veiðarnar og aukin þekking og auknar rannsóknir eiga sér stað á göngum loðnunnar og stuðla að þessari þróun. Er hér um mjög merkilegt rannsóknarstarf að ræða og sýnir glögglega, hvað skynsamleg notkun á fjármagni og vel skipulagðar rannsóknir geta gefið af sér. Geysileg aukning í skipaflota verður svo árið 1972, þá veiðast 277 þús. tonn. Á s.l. vertið veiddust um 440 þús. tonn, tóku um 90 skip þátt í veiðunum, og þótti mörgum sú þátttaka vera orðin fullmikil og mundi ganga yfir þátttöku í þorskveiðum eða bolfiskveiðum. Nú er aftur á móti sýnilegt, að enn meiri áhugi er á að veiða loðnuna, og eru nú um 130–140 skip þátttakendur á yfirstandandi vertíð, þannig að afkastaaukning skipaflotans er geysileg, og er engin leið að ætlast til þess, að verksmiðjurnar geti mætt þeirri afkastaaukningu, sem aukning bátaflotans hefur í för með sér. Þess vegna var hér á Alþ. samstaða um að efla til loðnuflutningasjóðs, en hann var reyndur s.l. ár á vertiðinni og gaf góða raun.

Með auknu skipulagi hafa menn siglt víða með loðnuna, og er það vel. En það er ekki einhlítt. Bæði kostar það stórfé að sigla hringinn í kringum allt land og auk þess er mjög áhættusamt með drekkhlaðin skip að sigla norður fyrir Horn og Langanes. Það er líka jafnvel áhættasamt að sigla í suðvestanátt og norðvestanátt fyrir Reykjanes og Garðskaga með drekkhlaðin skip.

Það mun vera samdóma álit allra skipstjórnarmanna, að mikill fengur væri í því að fá aukna afkastagetu verksmiðja við suðurströndina, og ég læt mig dreyma um það, að þessu verði mætt fyrst í Grindavík og síðan að nokkru í Þorlákshöfn, þegar þar verður komin góð höfn einnig. Nú mundu einhverjir vilja segja, að rétt væri að muna eftir Norðurlandinu, og skal ég alls ekki hafa á móti því, síður en svo. En við verðum að gera okkur grein fyrir því, hvað það kostar að flytja svona mikið magn, eins og við eigum von á að aflist, um svona langa vegu. Ég vil undirstrika það, að í því er fólgin gífurleg áhætta, og menn munu ekki ráða við það, ef brestur á ofsaveður, þegar þeir sigla svona langa leið, yfir sólarhringssigling, og skipum og áhöfn stefnt í óþarfahættu.

Í málefnasamningi hæstv. ríkisstj. segir svo á bls. 5 í kaflanum um atvinnulíf, orðrétt, að gera þurfi „sérstakt átak til að endurbæta frystihúsareksturinn og taka löggjöf og rekstur Síldarverksmiðja ríkisins til endurskoðunar“. í ljósi þessara orða vil ég ætlast til þess, að það verði nú metið mjög gaumgæfilega, hvort ekki sé rétt til þess að tryggja rekstur S.R., sem hefur gengið erfiðlega á undanförnum árum, að koma á stofn verksmiðju, er hjálpi til, og staðsetja hana á þeim stað, er ég legg til. þ.e.a.s. í Grindavík. Það mundi augljóslega bjarga miklum afla á land, verulega miklum mun meiri afla, sem allir vænta að muni eiga sér stað, og auk þess mundi það létta mjög undir rekstur S.R. vegna breytinga á síldveiðum.

Loðnuflutningasjóður mun starfa áfram eins og hann hefur gert, og það er allra manna mál, að þökk sé hæstv. sjútvrh. fyrir að stuðla að þeim sjóði áfram og vall á góðum mönnum í n. til að stjórna því starfi. Það er mjög mikilvægt, að vel takist til og hann starfi áfram og jöfnun sé á framboði á loðnunni um allt land. Engu að siður er vegna fjarlægðar og kostnaðar bráðnauðsyn að koma upp verksmiðju hér við suðurströndina. Rekstur S.R. var hagkvæmur á s.l. ári, og er talið samkv. bráðabirgðauppgjöri, að hann hafi skilað um 50 millj. nettóágóða. Þessu fjármagni þarf auðvitað að verja aftur til uppbyggingar og greiðslu fyrri taps og skulda. En hvað um það, þá er eðlilegt, að S. R. fylgi þeirri þróun, sem aðrir standa í núna, að endurbæta verksmiðjur sínar mjög, og er það gleðilegt, að hinn góði rekstur, sem var hjá öllum loðnuverksmiðjunum á s.l. ári, hefur farið í mikla uppbyggingu, ég held næstum undantekningalaust, þannig að móttökuskilyrði eru mun betri, þó að afkastageta hafi litið aukist, en sé allt lagt saman yfir landið, mun afkastageta verksmiðjanna aðeins vera 12 þús. tonn, en afkastageta bátaflotans með sæmilegum afla hefur sýnt sig vera 12–15 þús. tonn á sólarhring, þannig að þeir munu þegar lenda í miklum vandræðum með losun, ef ekki er horft fram í tímann og reynt að bæta úr því, bæði með stækkun þróa og aukinni bræðslugetu. Þessi 12 þús. tonna afköst byggjast á því, að allt sé með talið. En í viðbót við loðnu kemur svo vinnsla á beinum og úrgangi frá togurunum, en eins og menn vita, er afli togara oft karfi, og 70% af þeim afla fer beint í gúanó, því að karfinn nýtist um 26–30%, þannig að fari togararnir að afla mikið af karfa, hafa þær verksmiðjur, sem af þeim taka, feikinóg verkefni líka. Það er því fullkomlega eðlilegt, að stjórn S. R. hugleiði það mjög gaumgæfilega að bæta móttökuskilyrði og vinnuskilyrði á vegum S.R. jafnframt því sem hv. Alþ. hefur stuðlað að því, að einkaaðilar geti fengið aukið fjármagn. Hefur verið samþykkt hér tvívegis, að einkaverksmiðjur eigi kost á ríkisábyrgð, til þess að auka sína starfsemi, og ég tel það réttmætt.

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa um þessa till. fleiri orð. Hún skýrir sig sjálf, svo einföld sem hún er. Að svo mæltu legg ég til. að hlé verði gert á umr. og málinu vísað til atvmn.