29.01.1974
Sameinað þing: 48. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1861 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

133. mál, áætlunargerð um verndun gróðurs

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að hlýða á þann áhuga á þessum málum, sem kemur fram í flutningi þessara till., þann áhuga fyrir gróðurvernd, aukinni gróðurvernd og skipulegri landnýtingu. Vitað er, að áhugi á gróðurvernd er mikill á Suðurlandi öllu, því að gróðurverndarnefndir í sýslum Suðurlands hafa starfað vel og skilað skýrslum, og einnig hafa einstakar sveitarstjórnir á Suðurlandi og alveg sérstaklega í Árnessýslu í samvinnu við Landgræðslu ríkisins gert veruleg átök og farið á undan með góðu fordæmi um tök á þessum málum. Í Biskupstungnahreppi hefur bæði hreppurinn lagt fram sérstakt framlag og eins sérstakt álag verið lagt á hverja vetrarfóðraða kind til uppgræðslumála í hreppnum. Sama eru Grímsnesingar að gera nú.

En í sambandi við flutning þessarar till. furðar mig svolítið á því, að hv. flm. skuli ekki, að því er séð verður, vera kunnugt um það, að undanfarin tvö ár hefur verið að störfum sérstök n., skipuð af landbrh., sem fékk það hlutverk að gera heildaráætlun um alhliða landgræðslu og skipulega landnýtingu. Þessi n. hefur nú lokið störfum, og mun álit hennar birtast fljótlega. Það nær yfir allt landið, og þar er vitanlega ekki farið svo nákvæmlega út í það, hvað gera eigi í einstökum sýslum, og þess vegna finnst mér það út af fyrir sig alls ekki óeðlilegt, að framhaldið yrði það, að í einstökum sýslum yrðu gerðar slíkar uppgræðslu-, gróðurverndar- og landnýtingaráætlanir, og gæti þetta þá mjög vel fallið að áliti landnýtinga- og landgræðslunefndar, sem bráðlega kemur nú fram. Hitt er svo annað mál, að það má deila um vinnubrögð, hvernig eigi að vinna að þessu. Það er líka sjálfsagt hægt að deila um það, hvar ætti að byrja. Árnessýsla er vissulega ein af þeim sýslum landsins, þar sem þessi mál eru hvað mikilvægust og brýnast, að á þeim sé tekið. En raunar er það þannig, að það er eldfjallasvæði landsins, sem nær yfir fimm sýslur: Árnessýslu, Rangárvallasýslu og V.-Skaftafellssýslu sunnan lands og síðan norðanlands Norður- og Suður Þingeyjarsýslu, þar sem þessi mál eru langbrýnust frá þessu sjónarmiði, þ.e. hætta á beinum uppblæstri og gróðureyðingu af hans völdum. Hins vegar er ástand e.t.v. verra hvað varðar gróðurnýtingu í ýmsum öðrum sýslum, en þar er ekki um beinan uppblástur að ræða. Uppblástur er landfræðilega séð og eðli sínu samkvæmt aðallega bundinn við eldfjallasvæðin. Ég vil einnig benda á, að einmitt á þessu svæði, Árnessýslu, er sérstök ástæða til að veita athygli einum sérþætti þessa máls, og það er það, sem við getum kallað skógvernd. Þar eru allvíðfeðm skógarsvæði, sem þurfa verndunar við, en það er einnig tekið inn í þessa þáltill. réttilega.

Það, sem ég furða mig helst á í sambandi við þessa till., er, að hugsuð er n., sem að henni ætti að vinna. Þar eru að vísu ágætir embættismenn tilnefndir, en mér finnst vera gengið fram hjá landgræðslustjóra, ef hann ætti ekki að veita henni forstöðu. Um stofnunina Landnám ríkisins hef ég ekki nema gott eitt að segja, en hún er ekki landgræðslustofnun í þeim skilningi, hún hefur ekki sérstaka reynslu á landgræðslumálum. Hitt mætti svo benda á, að heldur óeðlilegt væri, að búnaðarsamtökin á viðkomandi svæði ættu ekki þarna aðild að, þ.e. Búnaðarsamband Suðurlands, sem er öflugt og kunnugt að því að hafa mikla forustu einmitt í þessu máli. En þetta eru kannski aukaatriði, en þó vissulega ábendingarverð að mínum dómi, að langeðlilegast er, að landgræðslustjóri og Landgræðsla ríkisins veiti þessu starfi forstöðu í samvinnu við heimaaðila. Einnig má benda á það, mjög mikilvægur þáttur í þessu er ræktunin, því að þessar sveitir og þessi héruð hafa það andsvar gegn því, að afréttirnar eru yfirleitt ofsetnar. Þær hafa geysilega mikla möguleika til heimaræktunar, eins og flm. reyndar benti á, og þar kemur auðvitað ræktunarkunnáttan til og þar kemur reynsla og þekking starfsmanna Búnaðarfélags Íslands til, þannig að mér finnst orka tvímælis, hvernig þessi nefndarskipun er hugsuð.