29.01.1974
Sameinað þing: 48. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1863 í B-deild Alþingistíðinda. (1718)

133. mál, áætlunargerð um verndun gróðurs

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til þess að taka undir með flm. þessarar till. í ýmsum atriðum. Ég er honum sammála um það, að á Suðurlandi, sérstaklega í Árnessýslu, er síaukin hætta á ofbeit, og það liggur að mínu viti fyrst og fremst í því, að búskaparhættir eru, að ég hygg, að breytast nokkuð einmitt á þann veg, sem landinu getur stafað mest hætta af, þ.e.a.s. búskapurinn er að færast meira í það horf, að sauðfé og hrossum fjölgi, en kúm muni e. t. v. fækka. Þá má einnig gera ráð fyrir því, að nautum fjölgi, og þeim er beitt meira á jörðina heldur en mjólkurkúnum.

Mjólkurframleiðslan hefur á árinu sem leið staðið í stað á Suðurlandi, og það tel ég vera afturför og sýna glöggt, hvert þróunin muni stefna á næstu árum. Orsakir þessa eru ýmsar, m.a. vinnutímastyttingin og þær breytingar á kröfum manna um vinnutilhögun, sem orðið hafa á síðustu árum og missirum. Húsakostur fyrir mjólkurframleiðsluna er víða lélegur og þarf að stórbatna, en það kostar óhemjufé nú á dögum að reisa hús yfir mjólkurkýr. Hitt er miklu auðveldara, að koma upp byggingum yfir sauðfé, hross og naut, og virðist vera, að þróunin stefni í þessa átt.

Á landssvæðum eins og þeim, sem eru aðalbeitilönd Árnesinga, er hættan mikil, eins og flm. upplýsti, jarðvegurinn laus í sér, blandaður gosefnum, og honum er hætt við að blása upp, ef nærri er gengið grasrótinni. Mér finnst því, að það sé allrar athygli vert að reyna að leita að orsökum að landeyðingu og koma í veg fyrir hana. En ég vil geta þess, að sumar sveitir í Árnessýslu hafa á undanförnum árum farið í það að bera á afrétti tilbúinn áburð samkv. fyrirsögn um áburðarval af hálfu landgræðslustjóra, og mér sýnist, að reynslan af þessu sé ákaflega góð. Fénaðurinn fær aukið fóður af afréttunum við þetta, grasvöxturinn eykst, og fénaðurinn verður miklu rólegri, dreifir sér betur um haglendið og nýtir grösin betur en hann áður gerði. Ég held, að þarna sé e.t.v. að einhverju leyti möguleiki. Hann þarf að vísu að rannsaka vel, þennan möguleika, en mér dettur í hug, að þarna sé um verulegan möguleika að ræða fyrir Íslenskan landbúnað að auka og bæta beitarþolið, bæði í byggðum og óbyggðum, fyrir sauðfé með dreifingu tilbúins áburðar. Ég vil leggja áherslu á, að sá þáttur verði sérstaklega tekinn til athugunar í sambandi við þær rannsóknir, sem þessi þáltill. gerir ráð fyrir.

Þá vil ég að endingu víkja að einum þætti í landeyðingarmálum, sem ég held, að flm. hafi ekki komið inn á, a.m.k. tók ég ekki eftir því, en það er sú mikla landeyðing og landeyðingarhætta, sem stafar af hinum stóru og miklu vatnsföllum á Suðurlandi. Um Árnessýslu falla mestu stórvötn landsins, m.a Hvítá, og Ölfusá flytur til sjávar 415 teningsmetra á sekúndu hverri, og vatnasvið hennar er 6100 ferkm. Þjórsá hefur vatnasvið, sem ég ætla að muni vera eitthvað á 8. þús. ferkm, og flytur til sjávar 412 teningsmetra á hverri sekúndu. Við þær virkjanir, sem nú er verið að gera á vatnasvæði Þjórsár, má gera ráð fyrir, að verði allmikil röskun á rennsli árinnar, a.m.k. á vissum árstímum. Það hefur þegar komið í ljós nú í vetur, í kuldakastinu, sem gerði í vetur, að vatnsmiðlunin hefur valdið því, að áin hefur bólgnað mjög upp, þegar neðar dregur í héraðið, og rutt miklu af ís upp á þurrlendið. Má búast við, að þetta haldi áfram.

Fyrir nokkrum árum voru gerðar ítarlegar rannsóknir í sambandi við virkjunarmöguleika hjá Kiðjabergi í Grímsnesi með þeim hætti að veita Hvítá inn í Hestvatn, sem er norðan undir Hestfjalli, og taka síðan í gegnum ás eða hæð eða eins konar eiði, sem liggur á milli vatnsins og Hvítár, austanvert við bæinn á Kiðjabergi. Ef að þessu ráði yrði horfið einhvern tíma, að virkja á þennan hátt, eru stór landssvæði í mjög mikilli hættu. Heilar grónar og grösugar sveitir, eins og Skeiðasveit og nokkur hluti Grímsness, eru þá í stórfelldri hættu af eyðileggingu af vatnaágangi. Þetta vildi ég, að kæmi hér fram í sambandi við þetta mál.

Enn fremur vil ég nefna það, að á því tímabili, sem ég man aftur í tímann, sem er nú orðið upp undir 60 ári hef ég veitt því athygli, að þessi stóru vötn í Arnessýslu hafa eytt miklu landi og stór svæði eru í hættu. Ég get nefnt sem dæmi, að Ölfusá er núna að brjóta sér leið inn á landið fyrir ofan bseyrarnes á Eyrarbakka, og er hætta á því, að hún komi þar inn á landið og ryðji sér leið austur um sandana, sem þar eru, og þar til sjávar, og þá mundi hún eyðileggja höfnina á Eyrarbakka. Nú er verið að hlaða þarna fyrir, því að nokkuð hefur verið veitt af fé á s.l. árum til að reyna að koma í veg fyrir þetta, en hvort það fjármagn nægir til að koma í veg fyrir þessa eyðileggingu, það læt ég ósagt um. Ég gæti nefnt ýmis svæði, bæði meðfram Þjórsá, Ölfusá og Hvítá, sem eru þarna í mikilli hættu. Erindi mitt hingað í ræðustólinn var fyrst og fremst að nota tækifærið til að vekja athygli á þessari hættu, sem fyrir hendi er um jarðvegseyðingu í Árnessýslu einnig af völdum stórfljótanna, sem þar falla. Ég læt svo máli mínu lokið, herra forseti.